Voðaverk var framið á Blönduósi um helgina. Veikur maður réðist til atlögu með skotvopni og banaði einum og annar einstaklingur liggur helsár á sjúkrahúsi. Stutt er síðan maður skaut af byssu rétt hjá leikskóla í Hafnarfirði, í febrúar á þessu ári var skotið á tvö ungmenni í Grafarholti og í fyrra var ölvaður byssumaður yfirbugaður á Egilsstöðum. Svipaðir atburðir hafa átt sér á Norðurlöndum á undanförnum árum. Þar hafa árásirnar m.a. átt sér stað í verslunarmiðstöðvum þar sem margir hafa látist. Hugsanlega munu svipaðir atburðir gerast hér á landi. Spurningin er líklega ekki hvort heldur hvenær og þá er ástæða til að spyrja hvort hægt að koma í veg fyrir slíkt.
Alls eiga Íslendingar um 70.000 lögleg skotvopn og þar eru haglabyssur langvinsælastar. Þær eru tæplega 40.000, rifflar rúmlega 25.000 og athygli vekur að skráðar skammbyssur eru nærri 4.000 talsins. Skráðar fjárbyssur, flestar hjá bændum, eru tæplega 1.500. Engin takmörk eru fyrir því hversu margar byssur hver og einn má eiga. Skotveiði hefur lengi fylgt Íslendingum og skotvopn eru einnig vinsælt áhugamál. Til að eignast byssu þarf að hafa skotvopnaleyfi, þreyta próf og fylla út alls kyns eyðublöð, vera með öruggan geymslustað heima hjá sér fyrir byssurnar og fylgja lögum og reglum.
Auðvitað eru undantekningar frá þessu en þá er hægt að koma til móts við undantekningarnar án þess að gera þær að meginreglu. Hægt væri með hagkvæmum hætti að koma upp byssugeymslum þar sem eigendur geymdu sín skotvopn á milli þess sem þeir fara til veiða eða til æfinga.
Almenn skotvopnaeign Íslendinga og geymsla vopna á heimilum mun líklega fyrr eða síðar leiða til fleiri voðverka eins og áttu sér stað á Blönduósi og átt hafa sér stað á Norðurlöndum. Með því að takmarka eignarhald á skotvopnum og koma upp byssugeymslu þar sem skotvopnin eru geymd á þeim tíma sem þau eru sannanlega ekki í notkun gæti hugsanlega komið í veg fyrir voðaverk eða a.m.k. minnkað líkurnar á því að það gerist.
Það er ástæðulaust að bíða eftir hugsanlegum harmleik þegar við getum með einföldum hætti reynt að lágmarka möguleikann á því að hann gerist.
Höfundur er sagnfræðingur