Landsfundir tveggja ólíkra stjórnmálaflokka fóru fram um helgina. Fyrir landsfund annarrar hreyfingarinnar var skorað á ungan mann að bjóða sig fram til áhrifastöðu innan sinnar hreyfingar. Þá bauð ung kona sig fram til áhrifastöðu á landsfundi hins flokksins. Mikill munur var hins vegar á viðbrögðum þeirra sem fyrir gegndu þeim stöðum sem um ræðir.
Í annarri hreyfingunni lagði sitjandi maður í stjórn pólitískan feril sinn að veði, er fréttist af áskoruninni á hinn unga mann, og sagðist myndu láta af stjórnmálaþátttöku sinni ef hann fengi ekki stuðning til áframhaldandi starfa. Í hinum flokknum steig sitjandi maður hins vegar til hliðar, er hin unga kona tilkynnti um framboð sitt, og leyfði þar með eigin hagsmunum að víkja fyrir þeim hagsmunum sem hljótast af aukinni þátttöku ungs fólks í stjórnmálum.
Annar maðurinn var þannig reiðubúinn að láta kyndilinn berast til næstu kynslóðar meðan hinn maðurinn var tilbúinn að láta algjörlega af þáttöku sinni í stjórnmálum ef hann fengi ekki sínu framgengt. Annar maðurinn setti eigin hagsmuni í fyrsta sæti meðan hinn ákvað að leyfa nýrri rödd að njóta sín, af hugsjón sem flokkur hans hefur á endanum meiri hag af og nýtur nú þegar góðs af í víðara samhengi.
Ekki verður hér lagður dómur á skoðanir sjálfra mannanna eða stefnu flokka þeirra, þó það verði að viðurkennast að ólík viðbrögð þeirra dæma sig sjálf. Á annar maðurinn heiður skilinn, hinn situr með skömmina. Annar þeirra kom frekari breytingum til leiðar, hinn sagði engra breytinga þörf. Þá er það ekki svo slæmt í sjálfu sér að sá síðarnefndi hafi ekki tafarlaust stigið til hliðar, heldur einmitt það að hann hafi sagst myndu hætta ef hann hefði ekki betur. Er rétt að spyrja fyrir hvern sá maður starfi í pólitík: fyrir sjálfan sig eða málstaðinn?
Að endingu voru þó tvær ungar konur kjörnar til stjórnar innan hvors flokks fyrir sig og því ber að fagna. Ein mikilvægasta breyting sem þarf að verða á stjórnskipulagi landsins er nefnilega sú að gefa þarf ungu fólki fleiri tækifæri til þess að hafa raunveruleg áhrif á stjórnmál. Ekki nægir aðeins að tala um að auka þurfi áhuga ungs fólks á stjórnmálum þegar því unga fólki sem þegar hefur áhuga er ekki treyst fyrir áhrifastöðum. Tvö stór skref voru stigin í þessum málum um helgina, eitt skref afturábak.
Að svo mæltu er það eitt mesta hagsmunamál stjórnmála nútímans að stjórnskipulag okkar endurspegli hlutfallslega betur mismunandi þjóðfélagshópa: að fólk sé valið úr ólíkum röðum þjóðfélagsins, úr hópi hinna yngri sem eldri, úr hópi ríkra og fátækra, jafnt sem úr hópi karla, kvenna og fleiri. Þá er alltaf tími fyrir breytingar, alltaf rúm fyrir framfarir.