„Við viljum endurkomu hins eðlilega lífs“ hrópa margir þessa dagana. En verðum við ekki að vera þolinmóð og skynsöm svo það megi takast? Á dögunum hittist hluti ráðherranna úti á landi til að setja nýjar reglur um sóttvarnir. Það var ljóst, eftir að sérfræðingarnir okkar höfðu skilað tillögum sínum um nýjar varnir, að grípa þarf enn einu sinni til áhrifaríkra og harðra aðgerða. Það sér hver heilvita maður að nú þarf að bregðast skjótt við – af fullri ábyrgð og hörku. En ferðaþjónustan – maður – hún er lífæð þjóðarinnar – maður sker ekki á lífæðina! Hvaða gagn er af því að mála Ísland fagur rautt á heimskortinu?
Ákvörðun fárra leikmanna
Ráðherrarnir eru einungis misvitrir leikmenn – eða er kannski einn þeirra menntaður í dýralæknismenntaður? – Ég man það bara ekki. Á að treysta misvitrum leikmönnum til að ákvarða hvort hér verði einn eða tveir metrar á milli manna? Á að treysta misvitrum leikmönnum til að ákvarða hve margir mega flykkjast saman í ákveðnu rými? Á að treysta misvitrum leikmönnum til að ákvarða hvaða sóttvarnir skuli gilda á landamærunum eða hvort við eigum yfir höfuð að hleypa ferðamönnum inn í landið – ferðamönnum sem nú flykkjast til eyjunnar okkar af því að ástandið á að vera svo gott hér? Það er vægast sagt hneyksli að forráðamenn ferðamála í landinu tali nú um að ríkisstjórnin hafi „gengið á bak orða sinna“ og vilji nú bara loka öllu á ný. Á að treysta misvitrum leikmönnum til að ákvarða opnunartíma veitinga og öldur húsa? Nú hefur það sýnt sig að margur landinn hagar sér eins og gleðifylltar kýr sem hleypt er út á vorin. Munurinn er bara sá að kýrnar sparka kannski óviljandi í hver aðra – það eru öfgafyllri viðbrögð sem margur landinn sýnir í „frelsinu“.
Því ver reynast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman
Margir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt skort á samráði – ráðherrarnir ákvarða hvað eigi að gera og engu má hnika til þó skynsamar tillögur komi fram. Nema þá þegar næstu aðgerðir eru kynntar. Þá koma þessir sömu ráðherrar fram með þessar sömu tillögur ofurlítið breyttar í farteskinu. Þeir glotta í laumi og hugsa með sér „af skynsemi okkar datt okkur þetta í hug á undan ykkur – og svo erum það við sem ráðum“. Þetta er eins og sandkassaleikur barna í leikskóla. Þegar við skoðum afleiðingar samráðsins í stjórninni á þessum fræga fundi úti í landsbyggðinni þá verður maður að segja að „samráðið“ var í skötulíki. Katrín varð að beygja sig – hún réði ekki við „villikettina“ í Sjálfstæðisflokknum. Hefði samráð allra flokka á þingi orðið heilladrýgra ef hópurinn hefði verið stærri sem stóð að tillögunum? Af hverju eru fræðimennirnir ekki alfarið látnir ráða ferðinni? Er það af því að þessir misvitru ráðherrar vilja fá rauða rós í hnappagatið?
Þingmaðurinn sem spyr og spyr og spyr
Píratinn Björn Leví er þekktur fyrir að krefjast eðlilegra svara við spurningum á þingi um málefni sem eiga að liggja uppi á borðum – um gegnsæi í stjórnkerfinu. Og viti menn þegar hann spyr sömu spurningarinnar í fimmta sinn – þá fær hann loks svar – en í loðnara lagi.
Í pistli sem Björn skrifaði í Morgunblaðið um daginn sagði hann: „Allan faraldurinn hefur þetta verið eina markmið ríkisstjórnarinnar, að verja ferðaþjónustuna þannig að hún taki aftur við fyrra hlutverki í íslensku efnahagslífi eftir faraldurinn. Ekkert plan B. Þannig hefur allt þetta kjörtímabil verið, breið pólitísk stjórn um óbreytt ástand í stað þess að leysa þau samfélagslegu vandamál sem blasa við okkur öllum.“
Rannsóknarblaðamennska
Hún á undir högg að sækja á Íslandi. Það má segja að aðeins tveir fjölmiðlar Stundin og Kjarninn stundi hana af einhverri alvöru. Nýlegt frumvarp um styrki til frjálsra fjölmiðla var að miklu leyti eyðilagt af háværasta hluta þingmanna Sjálfstæðismanna. Þeir tryggðu að Mogginn fengi stærsta hluta kökunnar sem til skiptanna er. Það hlægir mann að Mogginn hefur minnsta þörf fyrir stuðning – auðmenn landsins sjá um reksturinn og fullyrða má að starfsmenn blaðsins stunda ekki rannsóknarblaðamennsku nema að litlu leyti.
Einn skarpasti rannsóknarblaðamaðurinn Íslands skrifaði svo í Miðjuna á dögunum: „Í fyrstu bylgju cóvid dóu tíu á Íslandi. Í haust- og vetrarbylgjunum, eftir að dregið var aftur úr sóttvörnum á landamærunum, dóu 20. Sú bylgja sem nú er að rísa er stærri en þessar bylgjur báðar, mögulega stærri en þær báðar til samans. Þótt hlutfall þeirra sem veikjast alvarlega verði eitthvað lægra, 3% í stað næstum 6%, þá er staðan eftir sem áður alvarleg. Það má vera að staðan lagist skyndilega. En það má líka vera að svo verði ekki.“
Undir væng valsins þrífast sníkjudýrin
Bjarni Ben hefur svo til einn ráðið ferðinni í í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar til bjargar efnahagsmálum þjóðarinnar. En hann er bara leiksoppur þrýstihópa auðmanna sem allt eiga í landinu okkar – eða ættum við að orða það þannig að hann sér um sína. Og hans fólk eru ekki fátækir launamenn og ekki heldur mörg smáfyrirtækin í landinu. Mörg fyrirtæki stór og meðalstór hafa rakað til sín milljónum á milljónir ofan með hjálp Bjarna í faraldrinum. Mörg fyrirtæki sem borgað hafa „eigendum“ sínum tugi milljóna í arð undanfarin ár og eiga digra varasjóði skammast sín ekki að sníkja pening frá hinu opinbera – frá almenningi í landinu. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem eru það vel stödd að þau sækja ekki um ölmusu frá ríkinu. Og einnig eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem skila peningunum aftur þegar þau átta sig á að þau hafa ekki þörf fyrir þá.
Rassskellum VG
Mér þykir sárt að finna mig knúinn til að nota þessa millifyrirsögn. Mér þykir vænt um það fólk sem er og var í þessum flokki og mér þykir vænt um stefnu VG. Þó flokkurinn hafi komið einhverju að sínum sjónarmiðum í framkvæmd á kjörtímabilinu þá stendur það upp úr að við sitjum uppi með heilbrigðiskerfi í rúst og auðmennirnir græða sem aldrei fyrr. Ef núverandi ríkisstjórn heldur velli þá er allt útlit fyrir það að almennir launþegar landsins verði látnir borga mikinn meirihluta af þeim lánum sem við höfum þurft að taka. Eina leiðin sem við höfum til að koma í veg fyrir áframhaldandi íhaldsstjórn er að – kjósa EKKI VG.
Látum ekki misvitra ráðamenn pissa í skóna – okkar.
Látum ekki þrýstihópa auðvaldsins ráða Íslandi.
Kjósum Sósíalista, Pírata eða Samfylkingu.
Höfundur er framhaldsskólakennari.