Hvaðan hafa Vesturlönd helstar hugmyndir sínar um siðferði og gildi sem snúa að mannlegum samskiptum og réttindum?
Jeremía spámaður í Gamla testamentinu (7.6-8):
6 undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns,
7 þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.
8 Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns.
Gyðingar eiga sér merka sögu og langa og það sem er sérstaklega athyglisvert er að saga þeirra er skráð langt aftur í tímann.
Enda þótt Gyðingdómur sem trúarbrögð hafi fyrst birst í grískum annálum á hinu hellenska tímabili (323-31 f.Kr.) og elstu tilvísun í Ísrael sé að finna í Merneptah Stele (granít minnisvarða frá tíma faraós með sama nafni) frá 1213-1203 f.Kr., er í trúarritum þeirra sjálfra vísað til tímabils a.m.k. svo langt aftur sem 1500 f.Kr.
Skráð saga þeirra nær því yfir um 3.500 ára tímabil. Þeir voru upphaflega hirðingjar sem áttu sér ekki fastan bústað en ferðuðust með hjarðir sínar um hrjóstrug svæði Mið-Austurlanda.
Þeir voru um langt skeið í Egyptalandi og voru þar einkum sem vinnuafl en fóru þaðan undir forystu Móse, sem leiddi þá til móts við drauminn um fyrirheitna landið. Sú ferð er nefnd Exódus á latínu sem merkir brottför, útganga, sem átti sér stað um 1300 f.Kr. og er frásögnina um brottförina að finna í 2. Mósebók er ber hið alþjóðlega nafn, Exódus.
Reynsla Ísraelsmanna af því að búa í öðru landi og þola órétt var þeim í blóð borin. Meðal þeirra óx þeirri hugmynd fiskur um hrygg, að auðsýna skyldi útlendingum miskunn í ljósi þess að þeir sjálfir voru eitt sinn útlendingar í öðru landi.
Löngu seinna voru Ísraelsmenn herleiddir til Babýlon þar sem nú er Baghdad og voru þar á árunum 587-458 f.Kr. Þar söng fólkið sorgarljóð vegna þess að það þráði heimkynni sín, Jerúsalem, sem einnig var nefnd Zíon. Frægt sorgarljóð þeirra er í Davíðssálmi 137 og varð geysivinsælt sem dægurlag með enskum texta Biblíunnar í flutningi Boney M: „By the rivers of Babylon, there we sat down, yea, we wept, when we remembered Zion.“
Kýrus Persakonungur gaf þeim loks heimfararleyfi og hann nýtur sérstakrar virðingar í ritum Gyðinga, sem einskonar Messías eða frelsari.
Hugmyndir Vesturlanda eiga því að mestu sér rætur í reynslu þjóðar sem skráð hefur sögu sína í 3.500 ár!
Exódus samtímans
Enn leggst fólk í persónulegan Exódus, flýr sitt heimaland og leitar gæfunnar í öðru landi, landi drauma sinna, hinu fyrirheitna landi, þar sem smjör er sagt drjúpa af hverju strái. Þetta fyrirheitna land í samtímanum er einkum Evrópa með sín ríku mannréttindi og vel skipulögðu þjóðfélög sem Nota Bene eru öll byggð á kristnum gildagrunni og þá um leið á spámannlega innblásnum orðum um mannréttindi og réttlæti handa „ekkjum, munaðarlausum og útlendingum“. Merkilegt að slíkir textar séu yfir höfuð til og ritaðir fyrir u.þ.b. 2.500 árum. Merkilegt!
Lög á Íslandi eru ekki meitluð á steintöflur, þau eru samþykkt á Alþingi og prentuð í lagasöfn, en þeim má breyta og þau þarf að lagfæra ef í þeim leynist mismunun, óréttur, miskunnarleysi, fordómar og mannvonska.
Ég ætla þingmönnum ekki það, að hafa viljað byggja órétt inn í lögin, en þeir kunna þó sumir að hafa hugsað þau of þröngt, heimóttarlega og með of mikla áherslu á óheilbrigða þjóðernishyggju, sem í of stórum skömmtum skarast á við yfirgang, forræðishyggju og stundum hreinan fasisma.
Nú veit ég ekki hvort núverandi ráðherra dómsmála úr röðum Sjálfstæðismanna hefur búið í útlöndum á sinni ævi? Stuttbuxnaliðar úr þeim röðum á hans aldri, fóru ógjarnan til útlanda í áranna rás, því þá áttu þeir það á hættu að missa af „æfingum“ innan flokksins í því að vera með ákveðna og sterka hægristefnu, sem nuddast utan í fasisma og öfgakennda þjóðernishyggju. Með því að vera til staðar gátu þeir nuddað sér áfram upp metorðastigann innan flokksins. Þetta eru upp til hópa heimalningar, ósigldir og að auki, illa mælandi á erlendar tungur. Þeir líða fyrir það að hafa aldrei verið útlendingar í framandi landi, nema í sólarlandaferðum.
Nú þarf að taka lög um útlendinga og flóttamenn til rækilegrar endurskoðunar og hugsa þau út frá mannhelgi, miskunn og kærleika, en ekki sérhyggju steinhjartans sem engum vill hjálpa og ekkert framandi fólk hafa nærri sér.
Við höfum ekki þörf fyrir slíka harðneskju á Alþingi, heldur hlý hjörtu, sem láta stjórnast af rökviti og elsku, mikilli elsku og skilningi á því hvað það er að vera útlendingur í framandi landi.
Hljóðupptöku með lestri höfundar á greininni má finna með því að smella hér.