Ísland hefur lægra hlutfall friðlýsts lands en flest Evrópulönd. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, samningsins um líffræðilega fjölbreytni, er unnið að því að 30% alls lands (og sjávar) njóti verndar árið 2030 („30 by 30“). Nú hafa yfir 70 ríki skrifað upp á það markmið. Á Íslandi er hlutfall friðlýstra landsvæða 20,1%. Það hlutfall hefur lítið breyst síðustu ár; hækkað um 1,3% frá 2017. Mestu munaði auðvitað um það þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008.
Alþingi setti ný náttúruverndarlög fyrir hartnær áratug. Þau tóku gildi 2015. Með lögunum ákvað Alþingi að áætlun um friðlýsingar skyldi verða „meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi“. Þetta tæki er kallað Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluti) í lögunum. Það er Alþingis að samþykkja áætlunina – ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Hún hefur þó aldrei verið lögð fyrir Alþingi. Forveri þessarar áætlunar var önnur samskonar, kölluð Náttúruverndaráætlun, sem líka átti að leggja fyrir á fimm ára fresti. Slíka áætlun samþykkti Alþingi síðast árið 2010 og þar áður 2004. Enn eldri er Náttúruminjaskrá frá 1995 en þá var bæði ákvörðun og framkvæmd friðlýsinga á hendi Náttúruverndarráðs.
Helsta stjórntæki náttúruverndar á Íslandi er samkvæmt þessu óvirkt. Engin stefna íslenskra stjórnvalda um friðlýsingar er til. Framkvæmdin er eftir því.
Það er sannarlega tímabært að setja náttúruvernd í samhengi við loftslagsmarkmið. Á Íslandi eru tækifæri og þarf atvinnulíf, ungt fólk og umhverfissamtök að liðsinna stjórnvöldum.
Þetta er fyrri grein höfundar um friðlýsingar. Sú síðari fjallar um víðerni.
Höfundur er lögmaður.