Ein algengasta spurningin sem ég fæ í kynfræðslu (þegar fullorðið fólk er á fyrirlestrinum, krakkar eru slakari yfir þessu) er hvort ekki sé réttast að fordæma ákveðna kynhnegðun sem ógeðslega, óeðlileg eða beinlínis skaðlega. Ein vinsælasta kynhegðun til fordæmingar er rassinn og hvers konar örvun á honum. Fólk gjarnan ygglir á sér andlitið, fær hroll og ímyndar sér svo stríðan straum af brúnum hægðum renna út um allt. Það besta við þetta mál er hysterían sem aðrir fá yfir því að aðrir séu að stunda þetta. Ekki þau sjálf, heldur vorkennir það svo öllum hinum sem eru að fá upp í bossann því hann sé „einstefnugata“. Ég held að fólk mætti bara hafa meiri áhyggjur af eigin kynhegðun áður en það fer að missa svefn yfir kynlífi annarra.
Endaþarmsörvun hefur fylgt manninum frá örófi alda
„Þetta getur auðvitað sprengt rassinn, rifið hringvöðvann og skilið viðkomandi eftir með ginnungagap og bleyju“. Jújú, einmitt, það er það sem gerist. Eða ekki. Endaþarmsörvun hefur alltaf fylgt manninum (konunum) enda eru næmir taugaendar í endaþarminum. Ég held hins vegar að hængur liggi í orðunum, mök vs. örvun. Fólk er alltaf að drífa sig svo mikið. Það gleymir að dúlla við rassinn með fingrunum en þess í stað þrykkir inn með limnum og það getur vissulega verið sárt fyrir alla sem eiga hlut að máli.
Rassinn er fáránlega þurr staður sem opnar sig til að kúka og lokar sér svo. Ef þú ætlar að örva rassinn er vissara að byrja bara á fingri, smyrja hann vel með góðu sleipiefni, og að tala saman. Þiggjandi og gefandi verða að gefa merki um að allt sé í lagi og hvort halda megi áfram. Kynlíf, allt kynlíf, byggir á samþykki og það er mikilvægt hér eins og annars staðar. Svo má ekki gleyma því að unaður er á ábyrgð beggja. Ef þetta er vont, hættu þá. Líkaminn sendir frá sér merki um sársauka af ástæðu.
Mikilvægt að fara sér hægt og vera við öllu búin
Að sjálfsögðu búa þarna e-coli gerlar sem geta valdið rassasleikjurum magaóþægindum en það er ósennilegt að lítill heimagerður konfektmoli slæðist með. Rassinn er samt viðkvæmt svæði og þar er aukin hætta á allskyns sýkingum og litlum rifum. Farðu því varlega, smyrðu vel og virtu þín eigin takmörk. Þetta er ekki staðurinn sem vill fá „surpise“ heimsókn eða eins og sumir kalla það að „ruglast á gati“.
Endaþarmsmök eru nefnilega orðin algengari hjá gagnkynhneigðum pörum en samkynhneigðum. Það stunda ekki allir samkynhneigðir eina tegund af kynlífi, ekki frekar en gagnkynhneigðir. Kynlíf er allskonar, þvert á kynhneigð. Endaþarmsörvun virðist samt vera smá svona nýjungagirnisgat því margir hafa prófað, en stunda ekki að staðaldri. Sem er skiljanlegt ef fólk er að þrykkja algjörlega óundirbúið og ósmurt.
Rassinn á körlum talinn líffræðilega næmari
Ég skil samt ekki eitt í þessu máli og það er að rassinn á körlum er talinn líffræðilega næmari vegna blöðruhálskirtilsins sem er þar fyrir innan. Sáðrásin rennur í gegnum blöðruhálskirtilinn og greina karlmenn frá því að fullnæging sé kröftugri þegar endaþarmur er örvaður samtímis typpinu. Þú mátt samt ekki gleyma því að ef þér hugnast ekki að fá eitthvað pot í rassinn þá er það ekki líkegt að færa þér ógleymanlega unað, eiginlega frekar hitt. Því ættum við í raun að vera pota í karlmannsrassa og það ætti einnig að vera algengara í klámi og gaurar þá að biðja um það. Eitthvað gleymdist þar, ætli það hafi ekki verið ótti gagnkynhneigðra karlmennsku karla við það að inni í rassinum leyndist rofi sem gæti breytt þeim í homma. Eða eitthvað.
Ekki ber svo að skilja að rassinn á kynsystrum mínum sé gersamlega ónæmur, alls ekki, en það virðist samt vera að rassinn á körlum sé næmari, svona ef fólk ætlar að fara að metast, na na na bú bú bú.
Og svona að lokum, ég skil ekki af hverju þú biður um að fá að pota í rass bólfélagans. Það er bólfélaginn sem á að biðja þig um að pota í sinn eigin rass. Kynlíf er ekki eitthvað sem við gerum við einhvern annan heldur eitthvað sem við gerum saman. Rassinn er ekkert öðruvísi þar. Allt kynlíf byrjar á þínum eigin líkama. Ef þú trúir mér ekki, næst þegar þú stundar sjálfsfróun, smyrðu fingurinn, nuddaðu spöngina og prófaðu að nudda endaþarmsopið. Það gæti komið þér skemmtilega á óvart, nú eða þú bara klemmir saman rasskinnarnar, dettur algjörlega úr stuði og þá veistu það, rassapot er kannski ekki eitthvað fyrir þig.
Greinarhöfundur er kynfræðingur og höfundur bókarinnar "Kjaftað um kynlíf - handbók fyrir fullorðna til að tala um kynlíf við börn og unglinga."