Nú þegar aðeins nokkrir dagar eru til alþingiskosninga ætlar handhöfum veiðiheimildanna í sjávarauðlindinni og þeim stjórnmálaöflunum sem tryggt hafa þeim arðinn af henni, að takast ætlunarverk sitt líkt og áður, að halda umræðunni um breytt fyrirkomulag niðri fyrir kosningar.
Þá er tilganginum náð og þeir munu einir sitja áfram að nýtingu sjávarauðlindarinnar. Á kjördag er staður og stund til að láta skoðun sína í ljós og hafna núverandi fyrirkomulagi með því að greiða þessum stjórnmálaöflum ekki atkvæði. Breytingar verði gerðar þannig að eðlilegur afrakstur fari til eigandans (þjóðarinnar) en ekki allur til þeirra sem hafa nýtingarréttinn.
Mér er fyrirmunað að skilja hvaða hvatir liggja að baki hjá þeim stjórnmálaöflum sem byggðu upp þetta kerfi og vilja viðhalda því án breytinga. Sérstaklega með tilliti til þeirra spennu sem núverandi fyrirkomulag veldur í samfélaginu. Það að ekki hafi verið meirihluti á Alþingi til að tryggja varanlegan eignarétt þjóðarinnar á auðlindum sínum og sjá til þess að nýtingarétturinn verði í tímabundum samningum ætti að nægja til að kjósendur færu að skoða stöðuna og hafna þessum öflum sem ekki vilja gera þessar breytingar fyrir þjóðina.
Því ef kjósendur ætla að kjósa þessa flokka áfram mun sú mikla umræða sem er í gangi um allan auðinn sem handhafar veiðiheimildanna eru að fá til sín halda áfram og ekkert breytist.
Við verðum að spyrja okkur fyrir hvern eru þau að vinna. Sérhagsmunahópnum er sama um allt röflið meðan þeir sitja einir að kökunni og fitna.
Viljum við svona samfélag?
Þær miklu breytingar sem hafa orðið á eignarhaldi fyrirtækja í atvinnulífinu munu halda áfram að öllu óbreyttu og eru að verða flestum sýnilegar. Viðreisn með stuðningi annarra þingmanna kallaði eftir skýrslu um fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku atvinnulífi ótengdu sjávarútvegi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýndi ótrúlegan hroka með því að snúa út úr fyrirspurninni og tryggði það að þessar upplýsingar kæmu ekki fyrir sjónir almennings.
Með því var opinberað að ráðherra í ríkisstjórn Íslands var tilbúinn að hunsa vilja þingsins og taka hagsmuni sérhagsmunahóps fram yfir hagsmuni almennings. Staðan er orðin svo alvarleg að þessi hópur er að leggja undir sig íslenskt atvinnulíf. Hann munu nýta auðinn af sjávarauðlindinni okkar til að kaupa upp annan atvinnurekstur í landinu. Í raun mun hann kaupa upp Ísland með sama áframhaldi. Er þetta virkilega samfélag sem við viljum? Að nokkur sjávarútvegsfyrirtæki og fjölskyldur eigi allt atvinnulíf í landinu og við hin vinnum hjá þeim.
Störfum hjá fyrirtækjunum þeirra, verslum mat í búðunum þeirra, vörur sem fluttar eru til landsins með flutningafyrirtækjunum þeirra, tryggjum hjá tryggingafélögunum þeirra og förum jafnvel í sumarfrí með ferðaskrifstofunni þeirra. Þegar þeir verða búnir að kaupa allt sem þeir geta, munu þeir fá stjórnmálaöflin sín til að breyta lögum svo þeir geti keypt upp orkufyrirtækin og aðra innviði. Þá munum við hvorki versla vörur, þjónustu né greiða orkureikningana okkar nema þeir fái sinn hlut af þessum útgjöldum okkar.
Til að koma þessum samfélagsbreytingum í gegn fjármagnar sami sérhagsmunahópur heilan fjölmiðil, til að halda í krónuna og berjast á móti því að við förum í aðildarviðræður við Evrópusambandið og þjóðin fái að sjá og kjósa um samninginn. Þannig ætla þeir að tryggja fákeppnina og sjá til þess að engin utanaðkomandi samkeppni verði, til að tryggja hámarks hagnað þeirra af eigninni sinni Íslandi. Þetta er á mannamáli kallað að eiga Ísland með öllum þeim hlunnindum sem því fylgja eins og Danakonungur forðum.
Stöðvum þessa þróun
Ég skora á kjósendur að átta sig á stöðunni og hugsa vel sinn gang varðandi það að kjósa stjórnmálaflokka sem hafa staðið hafa vörð um þessar þjóðfélagsbreytingar og stuðlað að þeim.
Við verðum að stöðva þessa þróun og kjósa viðspyrnu og breytingar annars verður þetta eins og ég lýsti hér að framan. Viljum við svona Ísland?
Í kosningabaráttunni hefur verið mikil umræða um hamfaravá í umhverfismálum og Viðreisn sett umhverfismálin á oddinn sem forgangsmál fyrir okkur og komandi kynslóðir. Hvernig samfélagið ætlum við að afhenda komandi kynslóðum, ég kalla þetta samfélagsvá.
Hvernig sjáið þið lýðræðið virka í samfélagi þar sem fámenn klíka og nokkrar fjölskyldur eiga allt?
Stoppum þessa þróun og kjósum Viðreisn.
Höfundur er í 4. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.