Á mér brenna málefni sem varða skipulag, manngert umhverfi, gæði og framtíðarsýn okkar er kemur að borgar og bæjarumhverfi á Íslandi og þá sérstaklega hvað ríkið sé að gera í formi dóma og lagasetninga annars vegar og svo hvað sveitarfélögin eru að gera. Getum við sem samfélag farið að ræða gæði er kemur að skipulagi, hvað sé ásættanlegt og hvernig við ætlum að skipta gæðum á milli borgara þessa lands? Þetta er í raun kjarni þess sem pólitík fjallar um og því áhugavert hvernig tekist verður á um framtíðarsýn okkar á næstu vikum. Hvort að við treystum okkur í samtal um annað en nýtingarhlutfall og hæð húsa. Hvort að við getum farið að fjalla um ljós, skugga, fagurfræði, sögulegt samhengi og blöndun byggðar.
Hvernig túlkar dómsvaldið nýtingarhlutfall?
Margar uppbyggingarheimildir eiga sér langa og flókna sögu og enn sem komið er, er þetta enn túlkað sem eilífðareign og gildir þá engu hvort að einhver menningarverðmæti eða gömul hús séu til staðar.
Hvað er ríkið að gera?
Á síðasta ári skrifaði ég grein sem birtist í Kjarnanum þann 03.11.2020. Þar var gerð heiðarleg tilraun til að höfða á faglegan og yfirvegaðan hátt til stjórnmálafólks um að íhuga skekkjuna í laga- og reglugerðum, svokölluð hlutdeildarlán, sem vinna gegn því sem fagfólk á sviði skipulags- og umhverfismála leggur rækt við. Hlutdeildarlánin áttu að hjálpa fyrstu kaupendum við að eignast þak yfir höfuðið en voru á sama tíma skilyrt nýbyggingum og því ekki hægt að kaupa í grónum hverfum. Reyndar réðust hlutdeildarlánin ekki að rót vandans, sem hefur ekkert með skipulag eða byggingatæknilegar lausnir að gera. Með veitingum þeirra birtist kerfislæg skekkja sem rekja má til fjármálageirans og þeirrar sérstöku hugmyndar að líta á íbúðarhúsnæði sem fjárfestingarkost og sem atvinnuveg.
Á sama tíma og höfuðborgin kemur fram með bætt aðalskipulag, auknar áherslur á sögulegt samhengi, horfumst við í augu við allt aðra þróun hjá ríkisvaldinu er kemur að lagasetningum og skipulagsmálum.
Hvað eru sveitarfélögin að gera?
Nú, í aðdraganda kosninga á ég mér þann draum að frambjóðendur og aðrir leggi frá sér flokkspólitísk gleraugu í stundarfjórðung eða svo og kynni sér breytingar og nýja viðbót við Aðalskipulag Reykjavíkur. Ég bendi sérstaklega á bls. 82-86, en þar er um er að ræða mjög áhugaverðar áherslur varðandi þéttleika byggðar, form bygginga, birtuskilyrði, og björt og skjólgóð útisvæði.
Mörgum er óþarflega tamt að að úthrópa þennan eða hinn borgarstjórann þegar rætt er hvernig „umhorfs“ er í borginni. Slíkt er ómaklegt þar sem skipulag og innviðir borgarinnar eru verk margra kynslóða stjórnmála- og embættismanna. Þegar skipulag borgarinnar er rætt er nauðsynlegt að rýna af alvöru í skipulagslöggjöf og sögu borgarinnar.
Getur ríkið beitt sér með einhverjum hætti í skipulagsmálum, jafnvel „krafist“ skilgreinda gæða?
Nú styttist í kosningar og þá er lag að huga að breytingum í þessum málaflokki sem öðrum. Áherslur í skipulagsmálum borgarinnar eru unnar eftir faglegum greiningum og viðurkenndri aðferðafræði, en ekki eftir hentistefnu varðandi dreifingu byggðar. Sú þétting byggðar sem Reykjavíkurborg vinnur með í Aðalskipulagi sínu er hugmyndafræði sem að allar borgir vinna nú með.
Að þétta byggð þýðir „að fara vel með“, nýta betur land og innviði. Það væri líka hægt að kalla þetta, „í átt að jafnvægi og stöðugleika“ eða „að fara vel með og nýta innviði“ og leiða hugann að því að landið sé hugsað fyrir íbúana fremur en fyrir bílana! Núverandi stefna ríkisvaldsins, sem birtist í hlutdeildarlánum, dreifir byggð, hneppir fólk í átthagafjötra, eykur umferð, stuðlar að mengun, er kostnaðarsöm og tekur tíma frá fólki sem það gæti varið í vinnu, tómstundir eða samveru með fjölskyldu og vinum!
Kæru frambjóðendur til alþingis! Hér eru þrjú skref sem geta fært okkur nær nútímanum og jafnvel framtíðinni þegar kemur að ákvörðunum um fjármagn, innviði og betra líf fyrir okkur öll. Ég legg til:
- Að þingmenn leggi fram frumvarp um blöndun byggðar. Bjarg íbúðafélag er virkilega góð byrjun, en það þarf meira til en að byggja fjölbýlishús á nokkrum stöðum. Líta mætti oftar til grannþjóðanna, Danir leggja til dæmis áherslu á að höfða til allra byggingaraðila um að huga að blöndun hvar sem er á landinu, sem verður til þess að ákveðin þéttingasvæði eru ekki aðeins fyrir efnameira fólk. Danir hafa t.d. sett í lög að tryggja skuli um 20% blöndun á uppbyggingarsvæðum, þannig er tryggt að almenna kerfið komi í bland við leigu og eignaríbúðir.
- Að heimildir í deiliskipulagsáætlunum verði skráðar sem „eignir“ hjá þjóðskrá (ónýttar heimildir). Margar deiliskipulagsáætlanir hafa elst illa. Það sem þótti hentugt fyrir um 20 árum, þykir það ekki í dag. Við gerum enn frekari kröfur á sögulega skírskotun, hæfilega skala og minni öfgar í hæðum húsa. Ef hægt er að koma upp „tekjustofni“ í kringum óbyggðar heimildir, væri kannski ekki farið fram á svo mikið í einum bita, þær lægju síður óhreyfðar í áratugi og bæir og borg gætu frekar átt von á því að eftir samþykkt deiliskipulags væri hægt að hefjast handa við byggingar, frekar en að heimildin lægi óhreyfð í mörg ár.
- Að frumvarp um gæði í manngerðu umhverfi líti dagsins ljós. Skipulagsstofnun, Húsnæðis og mannvirkjastofnun, Vegagerðin, Hönnunarmiðstöð og Samband íslenskra sveitarfélaga fái það verkefni að finna þau íslensku gæði sem þarf til að byggð og gæði vaxi hér og dafni. Þannig má tryggja betur (stuðla að) að það fjármagn sem veitt er í hvers kyns uppbyggingu á landinu, taki ekki bara mið af hagkvæmni heldur þorum við að leggja áherslu á og gera kröfur um að öll verk sem eru hluti af ríkisútgjöldum séu unnin eftir skilgreindum gæðum og langtímaútreikningum.
Þetta er skrifað af ást til lýðræðisins og Alþingis í von um að þar verði unnið markvisst af kærleika til að gera landið okkar gott land til að búa í – fremur en gott land til að keyra í. Að litið verði á skipulagsmál út frá umhverfismálum og efnahagsmálum, en ekki fyrst og fremst sem húsnæðismál. Góð byrjun væri að ræða skipulagsmál heildstætt, tengja saman samgöngur og húsnæðismál, að vinna markvisst að því að draga úr C02 losun með stórtækari hætti en að banna plaströr og plastpoka.
Höfundur er arkitekt.