Nýafstaðnar kosningar sýna okkur, svo ekki verður um villst, að íslensk stjórnmál eru eins og íslenskt veðurfar, einhverskonar samsuða af óljósu haustveðri árið um kring. Fyrir vikið skiptir oft í raun litlu máli hvað við kjósum því íslenskir stjórnmálaflokkar eru í meginatriðum sammála um grunngerð samfélagsins. Munurinn milli þeirra er eins og munurinn á meðalhitastigi milli mánaða: Frá tveimur gráðum í meðalhita þess kaldasta í tólf gráður í þeim heitasta. En hvað skyldi gilda um samspil skipulagsmála og stjórnmála og hvernig allt þetta samtvinnast í tíma og rúmi.
Skipulagsstjórnmál?
Ég heyrði skipulagsfræðing segja um daginn að skipulagsmál snúist í grunninn um úthlutun á landi. Það er þó talsverð einföldun því skipulagsmál hafa bein áhrif á það hvernig við högum lífinu okkar, hvernig við lifum í hinu byggða umhverfi. Viljum við hreiðra um okkur í úthverfum og nota bílinn til að nálgast vinnu og þjónustu, eða viljum við byggja upp marga kjarna þar sem hægt er að nálgast alla þjónustu gangandi, með greiðu aðgengi að almenningssamgöngum? Rétt eins og tíminn er landrými takmörkuð gæði og þess vegna á hið opinbera að vanda til verka, gefa sér tíma og reyna að horfa til framtíðar þegar kemur að skipulagsgerð.
Þegar við felum stjórnmálafólki slíkt ákvarðanavald skapast alltaf ákveðin hætta á að að hið stutta pólitíska umboð þess fái meira vægi en langtímahagsmunir samfélagsins. Úthlutun lands og skipulag er líka þess eðlis að áhrifa þeirra mun gæta til langrar framtíðar og hafa veruleg áhrif á líf barna okkar og barnabarna. Ekki einfaldar það málið að góðar ákvarðanir bera sjaldnast ávöxt fyrr en að kjörtímabili liðnu. Það þarf því sterk bein og enn sterkari pólitíska sannfæringu til að standa með langtímahagsmunum heildarinnar gegn skyndiþrýstingi hagsmunaaðila. Að setja sér framtíðarsýn og standa með henni.
Skipulagsmál skipta því gríðarlega miklu máli þegar við tölum um stjórnmál, og það skemmtilegasta við þau er að ólíkt miðjumoðinu í annarri pólitík eru þar skýr skil og munur, ekkert endalaust haust heldur alvöru andstæður, sólríkt sumar á móti ísköldum vetri. Þétting byggðar eða úthverfaþensla, almenningssamgöngur eða hraðbrautir og svona mætti lengi halda áfram.
Gerum skipulagsmál að kosningamáli
Það er hægt að refsa stjórnmálamönnum fyrir slæmar skipulagsákvarðanir en vandinn er að við sitjum uppi með glæpinn óbættan til framtíðar. Því er mikilvægt að huga vel að stefnu – og sögu – flokkanna í skipulagsmálum áður en kosið er.
Við munum ganga næst til kosninga vorið 2022 og þá til sveitarstjórna.
Í þeim kosningum eigum við að krefja stjórnmálaflokkana um skýra stefnu í skipulagsmálum. Hvernig þeir sjá fyrir sér útdeilingu hinna takmörkuðu gæða sem land sannarlega er. Hvernig þeir sjái framtíð sinna sveitarfélaga þegar kemur að þróun nýrra byggingarsvæða, samgöngum og samspili skipulagsmála við loftslagsmál. Hvort börn eigi að fá meira pláss en bílar? Við þurfum að spyrja spurninga um framtíðarsýn sem nær lengra en til kjörtímabilsins og krefjast samráðs og samtals um mál málanna. Að því sögðu þá læt ég skýra framtíðarsýn stjórnamálaflokkanna um hvernig samfélag börnin mín muni erfa stýra því hvaða stjórnmálaflokk ég kýs.
Höfundur er ráðgjafi.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.