Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs náðist sátt um nýtingu og vernd. Það varð til þess að aðkoma þeirra sem búa í eða í grennd við þjóðgarðinn um endanlega ákvörðum og útfærslu garðsins var tryggð. Það er algjört skilyrði að heimafólk hafi ríka aðkomu að stjórn garðsins. Þetta er ekki bara tæknilegs eðlis heldur líka samfélagslegs eðlis.
Vatnajökulsþjóðgarðurinn var í upphafi minni en hann er í dag. Þegar starfsemi þjóðgarðsins var kominn í gang komu jafnvel þeir sem voru til að byrja með frekar neikvæðir, með tillögur um stækkun.Þannig er þjóðgarðurinn ekki ógn eins og margir héldu í upphafi. Hann hefur andstætt því reynst vera tækifæri til þess að byggja upp atvinnu og mannlíf.
Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið lykilaðili í þróun vetraferðamennsku. Það hefur orðið til þess að það hafa verið stofnuð fyrirtæki sem eru með margskonar starfsemi í garðinum. Þannig hefur vetrarstarfsemi náð fótfestu á ýmsum stöðum og þessi fyrirtæki eru mörg hver með öfluga starfsemi og hafa á sínum vegum marga starfsmenn. T.d. er starfsemi í Skaftafelli í dag umfangsmikil allt árið. Heilsárstarfsemi skiptir sköpum þegar leitað er eftir starfsfólki. Þetta hefur haft áhrif á allt samfélagið. Sem dæmi má nefna að það var á sínum tíma búið að loka barnaskóla á svæðinu vegna þess að það voru svo fáir nemendur eftir, en nú er búið að opna hann aftur og komnir fleiri nemendur en áður. Menn átta sig á að þessi öflugu fyrirtæki sem eru að byggjast upp eiga mikið undir garðinum.
Þegar við veltum fyrir okkur áhrifum ferðaþjónustunnar og þjóðgarðsins þá er hægt að hafa í huga samlíkinguna við sjávarútveginn; Það væri engin útgerð á Íslandi ef bryggjur hefðu ekki verið byggðar, skipin þurfa bryggjur til að koma auðlindinni í land. Ferðaþjónustan þarf líka sína bryggju til að tengja saman verðmætin og langmikilvægasta bryggjan á áhrifasvæði VJÞ er þjóðgarðurinn sjálfur. Þjóðgarðar og það sem þeim fylgir, eins og aðgengi, merkingar, göngustígar og gestastofur, það eru bryggjur ferðaþjónustunnar. Því er mjög mikilvægt varðandi umræðu um vernd miðhálendisins að það hlýtur að vera hluti af umræðunni að spyrja hvaða aðstæður þurfum við að skapa þar?
Stjórnvöld eru þessa dagana að átta sig og setti 850 milljónir í ferðamannastaði sem liggja undir skemmdum, en hluti þessara peninga eru enn ónýttir. Þeir voru einungis veittir til svæða sem eru í eigu ríkisins. Til viðbótar við þessa peninga liggur milljarður inni á hliðareikning sem Fjarðarál og Landsvirkjun greiddu í auðlindasjóð fyrir 4 árum síðan. Það er ótrúlegt að sveitarfélögin fái ekki að nýta þessa fjármuni. Þetta er í raun lítil upphæð miðað við umfang ferðamennskunnar í dag og þeirra tekna sem hún aflar í þjóðarbúið. Ferðamenn og sú þjónusta sem þeir eru að kaupa skilur eftir mikla fjármuni í sveitarfélögunum og styður þannig íslenskt samfélag um land allt.
Sé litið til stöðunnar er skynsamlegasta leiðin að gera miðhálendið að einni skipulagslegri heild. Það myndi hindra hagsmunaárekstra þar sem þjóðgarður á miðhálendinu væri eign allra landsmanna. Þannig yrði þjóðarsátt um svæðið. Algert grundvallaratriði að samráð væri haft við hagsmunaaðila um rammann sem skapaður væri utan um vernd svæðisins. Þar væri sátt um aðgengi og umferð um svæðið mikilvægust.
Með öðrum orðum, að skýr og ásættanleg stefna væri um mismunandi verndarsvæði, þ.e. í ljósi þess að vernd er eitt form nýtingar þyrfti að vera skýrt hvað fælist í verndarflokkum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (sem hafðir eru til viðmiðunar þegar verndarsvæði eru mynduð). Þá kom einnig fram að tenging við heimamenn væri mjög mikilvæg; að hugmyndir um stjórnun og stýringu kæmu meðal annars úr nærumhverfi svæðisins og að ef unnið yrði að myndun þjóðgarðs á miðhálendinu þá þyrfti undirbúningurinn að vera settur í samfélagslegt samhengi m.t.t. sjálfbærrar atvinnuþróunar og nýtingar, framtíðarverðmæta og vöxt sveitarfélaganna sem þar eru.
Staður þar sem gestum fyndist þeir velkomnir og náttúrugæði og brugðist við sívaxandi ferðamannastraumi með nauðsynlegri stýringu, jafnframt sem að almannaréttur væri jafnvel betur tryggður en innan landa í einkaeigu. Reynslan af VJÞ hefur sýnt fram á að í þjóðgarði fælust mikil tækifæri til uppbyggingar og atvinnuþróunar nærsveitarfélaga. Einnig var nefnt að þjóðgarður á miðhálendinu myndi skapa sterka ímynd fyrir náttúruvernd jafnt sem sjálfbæra ferðaþjónustu á Íslandi og að hann gæti orðið táknmynd samvinnu og lýðræðis.
Náttúruvernd á að vera í fyrirrúmi en jafnframt að almannaréttur og aðgengi allra væri tryggt. Þar væri samráð og aðkoma hagsmunaaðila að stjórn og stýringu meginatriði, og að tekið yrði tillit til nýtingarréttar þeirra hópa sem áttu fulltrúa á fundinum; skynsamlegar reglur um sjálfbæra nýtingu bænda, uppbyggingu ferðaþjónustu, sjálfbæra nýtingu útivistarfólks (akandi, veiðandi, gangandi). Þá þyrfti stefnumótun um mismunandi ferðaþjónustu á mismunandi svæðum og að tekið væri tillit til helgunarsvæða útivistarfélaga.