Smári McCarthy, stjórnarmaður í IMMI
Nýlega kom upp sú sérkennilega staða á Íslandi að herská samtök öfgamanna ákváðu að hýsa vef sinn á Íslenskri grundu og nota .is lén fyrir hýsinguna. Þessi atburður leiddi af sér mikla umræðu um hvar mörk tjáningarfrelsis liggja og hvort aðgerðir hýsingaraðila síðunnar, Advania, og skráningaraðila lénsins, ISNIC, eigi rétt á sér, eða teljist til óásættanlegrar ritskoðunar.
Á Íslandi er skýrt að mörk tjáningarfrelsis eru ákveðin í stjórnarskrá, þar sem í 73. gr. segir meðal annars:
Guðjón Idir, framkvæmdastjóri IMMI
„Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.”
Hér verður strax að athuga tvennt
a) Ákvæðið talar um að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða, en segir ekkert um hvort einstaklingar og lögaðilar megi stunda ritskoðun, en þar sem almenna reglan er að allt sem er ekki bannað er leyfilegt verðum við að gera ráð fyrir að einkaaðilum sé heimilt að stunda ritskoðun
b) Þegar fólk tjáir sig, þá verður fólk að geta ábyrgst tjáninguna fyrir dómi.
Ennfremur segir í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna: ,,Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra."
Um réttmæti ritskoðunar einkaaðila
Dagblöð geta sjálf ákveðið hvort þau birti vissar greinar eða skoðanir, að sama skapi er hýsingaraðilum í sjálfsvald sett hvort þeir hýsi ákveðnar vefsíður. ISNIC er einkafyrirtæki sem sér um allar skráningar á landslénið .is og því í einokunarstöðu. Að ISNIC taki ákvörðun um leyfi fyrir lénskráningu til þessa eða hins, án milligöngu dómstóla, hlýtur að vera undirorpið meiri efa. ISNIC metur forsendur skráningar og setur reglur um hvað telst réttmæt skráning. En ef einkaaðili í þessari stöðu getur ákveðið að veita ekki ákveðnum aðilum skráningu, án tilkomu dómstóla, hljótum við að velta upp spurningum um tjáningarfrelsi og rétt fólks til upplýsinga annarsvegar og rétt aðila til ritskoðunar á internetinu hinsvegar. Enda þótt lénsskráning sé ekki nauðsynleg til að geta birt upplýsingar á netinu, þá er lén ein forsenda þess að auðvelt sé að leita uppi og auðkenna upplýsingarnar.
„ISNIC er einkafyrirtæki sem sér um allar skráningar á landslénið .is og því í einokunarstöðu. Að ISNIC taki ákvörðun um leyfi fyrir lénskráningu til þessa eða hins, án milligöngu dómstóla, hlýtur að vera undirorpið meiri efa“
Eðlilegur farvegur hlýtur að vera sá að fyrirtæki í slíkri einokunarstöðu veiti öllum skráningarleyfi en láti dómstóla skera úr um lögmæti þess ef upp vakna spurningar. Í stærra samhengi mætti spyrja hvort einkaaðilar beri siðferðislega skyldu til að tryggja tjáningarrétt annarra, þótt lagaleg skylda sé ekki fyrir hendi. Því verður ekki svarað á auðveldan hátt, en sú umræða ætti að eiga sér stað í samfélaginu.
Væri rétt að ritskoða ISIS með lögum?
Í 73. gr. stjórnarskrár eru tilgreindar ákveðnar forsendur undantekninga frá tjáningarfrelsi, en þar segir:
„Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."
Þetta gefur okkur í raun einfalt próf sem hægt er að nota til að meta hvort ritskoðun sé lögleg. Eigi ritskoðun að vera leyfileg, þá verður hún að hafa verið leidd í lög, og uppfylla öll skilyrðin sem sett eru. Því getum við spurt okkur:
- Brýtur vefsíða ISIS gegn allsherjarreglu? Nei, því undirstöður íslensks samfélags standa þótt samtök í mörgþúsund kílómetra fjarlægð bloggi.
- Brýtur vefsíða ISIS gegn öryggi ríkisins? Nei. ISIS gerir það heldur ekki, eins og staðan er í dag, en jafnvel ef ISIS-liðar væru búnir að hertaka Breiðafjörð væri erfitt að færa rök fyrir því að vefsíðan sjálf brjóti gegn öryggi ríkisins eins og hún er í dag.
- Skaðar vefsíða ISIS heilsu manna? Ekkert frekar en aðrar vefsíður. Það er fjölmargt sem hægt er að segja að skaði heilsu manna en það er ekki þar með sagt að allt slíkt skuli banna, enda er það ekki raunin og endurspeglar heimurinn það, bæði á netinu og utan þess.
- Skaðar vefsíða ISIS siðgæði manna? Mögulega. Þetta er lykilspurningin, í raun. Hægt er að færa fyrir því rök að þær skoðanir sem þarna eru reifaðar séu til þess fallnar að ýta undir hatur, í raun á báða bóga, og á þann máta skaða siðgæði. En hvort vegur þyngra, réttur fólks til upplýsinga eða takmarkanir á slæmu siðgæði? Þessi spurning jafngildir í raun þeirri spuningu um hvort við viljum búa í forsjárhyggju samfélagi, treystandi valdhöfum til að leiða okkur áfram eða hvort við viljum frekar treysta okkur sjálfum fyrir því að vega og meta upplýsingar og velja fyrir okkur sjálf? Ef við lokum á uppsprettu ákveðinna upplýsinga, höfum við takmarkaða flóru upplýsinga og eigum við ávallt að treysta á þær? Höfum við ekki ógrynni dæma þar sem ríkisvaldið eða fjölmiðlar fara með rangt mál? Tildrög árásanna á Írak og meint gereyðingarvopn sem nýlegt dæmi sem enn draga dilk á eftir sér og munu gera um ókomna tíð?
- Gengur vefsíða ISIS gegn réttindum eða mannorði annarra? Vefsíðan sem slík brýtur ekki gegn réttindum eða mannorði, þó vitanlega geti hún fjallað um glæpi sem framdir hafa verið og brot gegn réttindum eða mannorði annarra. Mun sú lýsing ná yfir ansi margar aðrar vefsíður en dómstólar þyrftu að skera úr um það.
- Væri hægt að ritskoða ISIS með lögbanni? Stutt svar: Já. Ef dómsstóll ákveður lögbann. Réttlætir það að birtandi vefs séu hryðjuverkasamtök það að hann sé tekinn niður?
Hver hefði eðlilegur farvegur verið?
- Hýsingaraðili eða annar aðili kærir vefsíðuna og krefst tímabundins lögbanns
- Lögbann er sett á birtingu og síðan tekin niður um stundarsakir
- Réttarhöld fara fram um hvort innihald síðunnar samræmist lögum
- Samrýmist vefsíðan lögum fer hún upp aftur; geri hún það ekki er hún tekin niður til frambúðar.
Með þessu þá eru ISIS-liðar neyddir til að ábyrgjast sína tjáningu fyrir dómi.
Hvers vegna skiptir máli að fara rétt að?
Forsvarsmenn ISNIC hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með þá stöðu sem þeir stóðu frammi fyrir og jafnframt þeim efasemdum sem þeir enn hafa varðandi þá ákvörðun sem stjórn ISNIC tók um að loka fyrir skráningu síðunnar. Hvers vegna hafa þeir efasemdir? Jú, vegna þess að þetta er fordæmisgefandi, en aldrei áður hafði ISNIC lokað á skráningu síðu. Eina leiðin til að fá síðu lokað fram að þessu var í gegnum dómstóla, sem er hinn lýðræðislegi farvegur þar sem rök eru færð fyrir slíkri ákvörðun fyrir dómi. Nú hefur verið opnað fyrir að ákvarðanir um hömlur á tjáningarfrelsi séu teknar án dóms og laga út frá hentistefnu.
Popúlísk viðbrögð
Ögmundur Jónasson greip tækifærið og minnti á frumvarp sitt um landslénið .is þar sem hann vill að engir aðrir en lögráða Íslendingar eða lögaðilar með skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum, eins og segir í frumvarpinu, og tengsl við landið geti nýtt íslensk lén. Hvaða þýðingu hefur ,,sambærileg staðfesting stjórnvalda” og hvernig skilgreinum við ,,tengsl við landið”?
„Ögmundur Jónasson greip tækifærið og minnti á frumvarp sitt um landslénið .is þar sem hann vill að engir aðrir en lögráða Íslendingar eða lögaðilar með skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum, eins og segir í frumvarpinu, og tengsl við landið geti nýtt íslensk lén.“
Hættan á lagasetningu byggðri á þessum hugmyndum - sem útilokar sjö milljarða manna og fjölda fyrirtækja frá auðlind sem þau hafa hingað til getað notið - felst meðal annars í því að ef einhver hefur lagt töluverðar fjárhæðir í að þróa og byggja upp vörumerki undir léni með .is endingu, þá getur fyrirtækið átt skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu. Þá er þetta einnig liður í aðgreiningu á milli Íslands og umheimsins, sem lýsir einangrunnarhyggju, sem getur varla talist gagnleg. Einnig er óljóst hvort krafa um ,,tengsl við landið’’ sé lögleg undir ákvæðum EES samningsins, sem setur alla ESB- og EES ríkisborgara á sama flöt í viðskiptum.
Umfram allt: ef lén veita aðilum ákveðið öryggi, ákveðinn lagaramma, þá er augljóslega gríðarlega mikilvægt að slíkt sé mögulegt án þeirra takmarkana sem Ögmundur Jónasson leggur til. Ef alþingi ákveður einn góðan veður dag að það sé góð hugmynd að raunverulega byggja upp lagaramma hér á landi sem verndar blaðamenn, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, eins og alþingi samþykkti einróma í þingsályktunartillögu árið 2010, þá dugar ekki að aðeins íslenskir aðilar geti skráð vefsíður á Íslandi enda myndi slíkt ganga í berhögg við þá stefnu og framtíðarsýn sem alþingi einróma kom sér saman um, en vel á minnst voru flutningsmenn tillögunnar úr öllum flokkum, meðal annars flokki téðs Ögmundar Jónssonar og var hann sjálfur meðflutningsmaður.
Smári McCarthy stjórnarmaður IMMI og Guðjón Idir framkvæmdastjóri IMMI