Í ágúst sl. birtist skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og hefur það varla farið fram hjá nokkrum manni. Skýrslan dregur upp mjög dökka mynd af framtíðinni ef ekkert verður að gert, en Ísland hefur skipað sér í hóp þeirra ríkja sem telja brýnt að takmarka hlýnum andrúmsloftsins við 1,5°C. Hins vegar hefur farið minna fyrir umræðunni um áhrif orkuskiptanna á efnahagsmálin og daglegt líf Íslendinga, og það kemur á óvart þar sem kosningar eru á næsta leiti, og engu líkara en að íslenskir stjórnmálamenn treysti sér ekki í þessa umræðu.
Áætlun stjórnvalda um aðgerðir í loftlagsmálum frá því í júní 2020 gerir ráð fyrir að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. svokallaðra tonn CO2-ígilda, um 35% fram til ársins 2030 m.v. grunnárið 2005. Samkvæmt áætluninni skiptist niðurskurðurinn þannig:
Eins og kemur fram í töflunni hér á undan er minnsti niðurskurðurinn í landbúnaði, eða 5%. Næst á eftir koma samgöngur en þar er niðurskurðurinn áætlaður 21%. Mestur er niðurskurðurinn áætlaður í flokki B, skip og hafnir, 42%, í orkuframleiðslu og smáum iðnaði, 67% og í úrgangi og skólpi, 66%. Hafa skal í huga að þetta eru tölur frá 2020, en með útkomu skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því í ágúst má gera ráð fyrir að kröfurnar aukist og innbyrðis skipting breytist. Landnotkunin gæti þá verið á ábyrgð Íslands en mesti útblásturinn kemur frá henni, eða u.þ.b. 2/3 hlutar. Árið 2005 nam t.d. heildarlosunin 14069 þúsund CO2-ígildistonnum, þ.a frá landnotkun 9387 þúsund tonn, og árið 2019 var heildarlosunin 14240 þúsund tonn, þ.a. 9518 þúsund CO2-ígildistonnum frá landnotkun. Sjá nánar mynd frá umhverfisstofnun um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 1990-2019.
Núverandi ríkisstjórn er ekki samstíga um það, hvað ætlunin sé að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum fyrir 2030, heldur ætlar hún nýrri ríkisstjórn að taka ákvarðanir um það. Forsætisráðherra talar t.d. um samdrátt upp á 55%, en umhverfisráðherra segir stjórnvöld ekki hafa ákveðið hver hlutdeild Íslands eigi að vera, heldur á að tryggja að upplýsingar sem settar verða fram til að reikna út hlutfall Íslands í sameiginlegu markmiði séu réttar og að aðferðafræðin við útreikningana verði samkvæmt þeim reglum sem settar eru fram. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir hafa lítt tjáð sig um markmið sín.
Það gefur auga leið að það skiptir verulegu máli hvort samdráttur gróðurhúsalofttegunda eigi að vera 35% eða 55% og hvort landnotkunin sé talin með, þegar horft er til þess hvernig þjóðfélag verður hér árið 2030. Spurningin er hvort Íslendingar hafa um eitthvað að velja en umræðan Fit for 55 hefst á Evrópuþinginu í Strassborg í vikunni. Það er bagalegt að ekki skuli vera nein umræða um áhrif þessa á líf hins almenna borgara. Hvernig verður samfélagið árið 2030 og hvernig viljum við að það verði? Best er að sátt ríki um breytingarnar meðal landsmanna. Þannig ganga þær betur fyrir sig. Núna fer t.d. fram í París fundur 150 atvinnurekenda í Frakklandi um hvernig breyta skuli atvinnuvinnulífinu til samræmis við markmið Evrópusambandsins (ESB) um samdrátt gróðurhúsalofttegunda. Atvinnurekendurnir eru valdir af handahófi, svipað og þúsund manna borgarafundurinn um nýju stjórnarskrána, en samsvarandi fundur 150 borgara var haldinn í Frakklandi í fyrra. Framtíð þjóðarinnar er í húfi hvað sem íslenskum stjórnmálamönnum líður. Ákvörðun um niðurskurð verður tekin á öðrum vettvangi og verða þar að verki aðilar sem hafa engar sérstakar skyldur við þjóðina.
Á sama tíma lagði ríkisstjórn Íslands hins vegar niður rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Almenningssamgöngur eru ekki eins þægilegar og einkabíll; lækkun hámarkshraða á veginum lengir ferðatímann; bann við öllu ónauðsynlegu flugi hefur áhrif á ferðamannaiðnaðinn og ferðir Íslendinga til útlanda. Hvað verður um Reykjavíkurflugvöll og alla hina? Opinber stuðningur við endurnýjanlega orku hækkar rafmagnsreikninginn. Noregur og Ísland taka þátt í loftslagsverkefninu undir hatti ESB. Framkvæmdastjórn ESB birti t.d. hinn svokallaða græna samning 14. júlí sl., þar sem kveðið er á um að flutnings- og húsnæðisgeirinn taki þátt í verðlagningarkerfi kolefnis, líkt og rafmagns- og iðnaðargreinar. Almennt eru hagfræðingar sammála um að þeir sem menga skuli greiða fyrir það, þótt það sama verði ekki sagt um stjórnmálamenn, til þess að þvinga þá sem menga til að fella umhverfisáhrif aðgerða sinna inn í ákvarðanir sínar og ná því markmiði að draga úr losun með sem lægstum samfélagskostnaði. Kolefnisverð um 250 evrur á CO2-ígildistonn árið 2030 mundi til dæmis leiða til hækkunar á bensíni um 60 sent á lítra, eða 90 krónur. Verðlagningin yrði að ná til innflutnings til að viðhalda heilbrigðri samkeppni milli evrópskra og erlendra framleiðenda. Tillögurnar gera þó ekki ráð fyrir dreifingu á heimili með lágar tekjur, né starfsmenn atvinnugeira sem leggst af, en gera má ráð fyrir að það breytist.
Loftslagsmálið er vissulega bæði pólitískt og tæknilegt mál, en það veldur rækilegri stefnubreytingu. Sá kapítalismi sem Bandaríkin áttu þátt í að skapa hér á Vesturlöndum með Marshall-aðstoðinni og síðar Efnahagsstofnuninni og framfarastofnuninni í París, OECD, með gífurlegri ofneyslu, verður að öllum líkindum horfinn eftir 2030. Lýðræðislegar stofnanir, almannatryggingar og aðra opinbera þjónustu þarf að endurstilla fyrir þetta nýja loftslagstímabil. Það kallar á nýja menntun og aðra þekkingu til að tryggja afkomuna. Þetta þarf að tryggja í stjórnarskrá, sbr. 33. og 34. grein nýju stjórnarskrárinnar um náttúru og auðlindir Íslands.
Brýnt er að tryggja ungu fólki, viðkvæmasta hópnum, áfallahjálp og fjárhagsaðstoð. Ræða réttindi borgara, völd sérhagsmunahópa og mörk eftirlits. Tryggja þarf jafnræði, því lífstílsbreytingin hefur gífurleg áhrif á innflutning og neyslu. Hvað má drekka mikið af kaffi? Hvað fær hver einstaklingur mörg kíló af kornvöru á ári? (Árið 1918 var ársskömmtun á mann 120 kg. af kornvöru, 24 kg. af sykri til þurrabúðarmanna og 18 kg. til þeirra er landbúnað stunduðu) Nota menn garðinn til grænmetisræktunar? Kaupir hann/hún meira en af fötum en leyfilegt er? Er hitinn í íbúðinni rétt stilltur? Hvernig er skipað í innflutnings- og útflutningsnefnd og hverju þarf að breyta í mannaráðningum og hagsmunaskráningu svo borgarar geti treyst eftirliti og dómskerfi?
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.