Fyrir nokkru síðan stefndi Vesturbyggð einum stærsta atvinnuveitandanum í sveitarfélaginu, Arnarlaxi, vegna ógreiddra aflagjalda. Aðdragandinn að stefnunni á rætur að rekja í breytingum á gjaldskrá hafnarsjóðs Vesturbyggðar í lok ársins 2019. Sveitarfélagið telur sig hafa verið innan heimilda hafnalaga þegar gjaldskrá hafnarsjóðs var breytt, en breytingin fól í sér breytta aðferðafræði og afsláttur til fiskeldisfyrirtækja var lækkaður. Aflagjald er nú 0,7% í stað 0,6% af aflaverðmæti en almenn aflagjöld í höfnum Vesturbyggðar eru 1,6%. Aflagjöld af eldisfiski sem innheimt eru í Vesturbyggð eru í takt við það sem þekkist annarsstaðar á landinu, ef ekki talsvert lægri. Arnarlax telur innheimtu gjaldanna hinsvegar ólöglega og hefur ekki greitt aflagjöld í samræmi við gjaldskrá hafnarsjóðs Vesturbyggðar. Vangoldin gjöld Arnarlax hafa á sama tíma leitt til þess að sveitarfélagið hefur þurft að skuldbinda sig til þess að mæta útgjöldum við rekstur hafnanna með aukinni lántöku í hafnarsjóð Vesturbyggðar. Hafnarsjóður Vesturbyggðar hefur um áratugaskeið verið rekinn með halla og treystir á framlög hafnabótasjóðs í þeim framkvæmdum sem nú standa yfir til að mæta þörfum m.a. fiskeldisfyrirtækja og hafa því tekjur sem ekki skila sér í hafnarsjóð, gríðarleg áhrif á allan rekstur hans.
Krafa Vesturbyggðar hefur verið sú að endurskoða þurfi ákvæði hafnalaga vegna fiskeldis, þannig að tryggt sé að tekjur hafna standi undir rekstri hafnanna og þeirri þjónustu sem m.a. fiskeldið krefst. Vesturbyggð og Arnarlax hafa átt góð samskipti allt frá stofnun fiskeldisfyrirtækisins og því eru það mikil vonbrigði að Vesturbyggð hafi ekki annan kost en að fara með málið fyrir dómstóla og fá úr því leyst þar.
Það er von Vesturbyggðar að lagaumgjörðin fyrir sveitarfélög og fiskeldisfyrirtæki verði endurskoðuð sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari fjárhagslegan og samfélagslegan skaða. Á sama tíma er mikilvægt að allir aðilar sýni samfélagslega ábyrgð. Þá verði ekki fleiri sveitarfélög sett í þá stöðu sem Vesturbyggð er nú í, að þurfa að stefna fyrirtæki fyrir dóm til að fá úr því skorið hvort minni afsláttur til að auka tekjur til að standa undir rekstri hafnarmannvirkja standist skoðun.
Ágreiningur sem þessi á ekki að byggjast á mati sveitarfélaga og fiskeldisfyrirtækja hverju sinni, heldur á sterkum lagagrundvelli. Því er mikilvægt að vinna við endurskoðun laga og reglugerða hvað varðar sveitarfélög og fiskeldi hefjist sem allra fyrst.
Höfundur er bæjarstjóri Vesturbyggðar.