Til eru þeir sem haldnir eru fortíðarþrá. Þeir láta sér ekki nægja að hlusta á 80´s tónlist eða dunda sér við að gera upp gamla bíla sem þóttu flottir á táningsárum þeirra. Þeir ganga lengra og horfa alla daga í baksýnisspegilinn, miða aðgerðir sínar frá degi til dags út frá markmiðum um afturhvarf til þess tíma sem þeir töldu betri, tíma sem fæstir aðrir vilja hverfa aftur til. Þeir sem einna mest eru haldnir þessari hugsjón afturhalds leggja hart að sér við undirbúning áætlana um endurreisn fallinna heimsvelda, byggja upp mátt sinn til átaka hægt og bítandi og nota til þess friðhelgi þeirra sem í einfeldni sinni trúa varla að nokkrum detti í hug að hefja stríðsátök. Þegar höggið kemur svo í andlit þeirra grandalausu ber við nýjan tón. Högg sem lengi hefur verið hlaðið í, jafnvel svo áratugum skiptir. Högg sem ógnar jafnvel öryggi og friði milljóna manna.
Einstaka atburðir geta haft djúpstæð áhrif. Byssuskot í Sarajevo, flugvélum flogið á Tvíburaturna, innrás í frjálst og fullvalda ríki. Við erum ekki aðeins dæmd til þess að endurtaka mistök okkar ef við lærum ekki af sögunni, við endurtökum aftur og aftur mistök hvort sem við segjumst vera búin að læra af þeim eða ekki. Helsta ástæðan er sú að við teljum, ranglega, að mannskepnan hugsi rökrétt, skilji afleiðingar gjörða sinna, taki breytingum í hegðun og hugarfari. Við höldum að við skiljum hugarfar þeirra sem við stöndum andspænis, jafnvel þó þeir svífist einskis. Til eru þeir sem sjá okkur sem óvin eða ógn þó svo hvorugt standist. Það breytir ekki þeirra tilfinningum. Ekkert nema skilyrðislaus undirgefni getur breytt þeirra skoðunum um okkur og þá er frelsi okkar og öryggi farið að eilífu.
„Þeir fara aldrei inn í Úkraínu!” sögðu málsmetandi aðilar. „Þeir græða ekkert á því”, „þeir munu ekki ógna heimsfriðinum, þjóð þeirra mun aldrei styðja það og svo er ekkert vit í því.” En sem fyrr í sögunni er sjaldnast vit í hernaðaraðgerðum nema til þess að standa af sér árás. Þess vegna er forvörnin svo mikilvægt vopn gegn þeim sem ekki ganga í takt við hugsjónir um samvinnu og frið. Mikilvæg til þess að setja mörk og verjast jafnvel gegn því sem flestum þykir óhugsandi. Sumir telja slíka forvörn í öryggismálum leiða til þess að við hér á landi séum óþarfa skotmark. Atburðir síðustu daga sína hið gagnstæða. Frjálsar og fullvalda þjóðir eru skotmark, jafnvel þó afleiðingin sé dauði þúsunda. Ekkert bendir til þess að Ísland sé undanskilið. Nú reynir á okkur að tryggja það að öryggi okkar sé ekki ógnað.
Viðvera varnarliðs er eina skynsamlega leiðin ásamt þátttöku okkar í varnarsambandi vinaþjóða. Máttur fjöldans sem stendur saman getur einnig tryggt öryggi þeirra smáu sem hlutfallslega leggja sitt af mörkum.
Stóra verkefnið framundan er að endurskoða öryggisstefnu landsins, veita stuðning í verki til mannúðarstarfs, styrkja böndin við bandalagsþjóðir og tryggja sýnilegar og forvirkar varnir á Íslandi.
Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.