Bæta við, umbreyta og endurnýta

Björn Teitsson skrifar um „Nóbelsverðlaunahafana“ í arkitektúr Lacaton og Vassal og nauðsynlegt erindi þeirra á Íslandi.

grand_parc_umbreyting.jpg
Auglýsing

Stundum upplifum við sigurstundir í gegnum annað fólk. Fólk sem á svo innilega fyrir því að sigra, er fullkomlega verðskuldaða viðurkenningu fyrir að skara fram úr á sínu sviði. Þetta upplifðum við Íslendingar til dæmis sterkt þegar Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlistina í Jókernum og þetta upplifir líklega flest tennisáhugafólk í hvert sinn sem Roger Federer hampar sigri.

Björn Teitsson.

Önnur slík stund varð fyrir ekki svo löngu þegar frönsku arkitektarnir og skipulagsfræðingarnir Anne Lacaton og Jean-Philippe Vassal hlutu Pritzker-verðlaunin eftirsóttu. Til einföldunar má segja að Pritzkerinn sé nokkurs konar Nóbelsverðlaun í arkitektúr. Í þetta sinn eru handhafarnir fulltrúar einstakrar og nútímalegrar fagurfræði, umhverfisverndar, sjálfbærni og félagslegs réttlætis. Sem er ansi gott. En hvað er það í fari þeirra Lacaton og Vassal sem gerir þau að jafn verðskulduðum sigurvegurum og raun ber vitni? Skoðum málið. 

Anne Lacaton og Jean-Philippe Vassal taka við Mies van der Rohe verðlaunum ESB árið 2019. Mynd: EPA/Alejandro Garcia.

Endurnýta, endurskilgreina, endurhanna

Lacaton og Vassal kynntust í Bordeaux í Frakklandi á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar, störfuðu saman að skipulagsmálum í Níger og stofnuðu síðan sameiginlega arkitektastofu árið 1987. Þau fluttust síðan til Parísar um aldamótin 2000 og hafa verið þar síðan, eða nánar tiltekið í úthverfinu Montreuil. Frá upphafi hafa þau haft sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi, þá hugmynd að allar byggingar hafi burði til þess að verða enduruppgötvaðar, í þær megi blása nýju lífi, hlutverk þeirra endurskilgreint með nýja framtíð og hlutverk í huga. Þannig hafa þau starfað frá upphafi og skapað sér nafn, hannað og byggt hagkvæmt en vandað, endurbæta byggingar og rými, þannig ekki þurfi að rífa og byrja upp á nýtt. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að því að endurskilgreina atvinnurými með nýtt hlutverk í huga – að þar sé bjart og skjólríkt, að allt fólk, óháð uppruna eða stétt, hafi efni á því að búa í hreinu og fallegu húsnæði með greiðum aðgangi að helstu lífsgæðum borgarsamfélags, að menntun og atvinnu, að náttúru, menningu og almenningssamgöngum, verslun og þjónustu. Höfum í huga, að þegar allt kemur til alls, er nefnilega ekkert mikilvægara fyrir líf okkar, lífsgæði og hamingju, heldur en hvar við búum, hvernig við búum og hvernig umhverfið í kringum okkur er hannað.

Umbreyting Bois le Prêtre-turnsins í 17. Hverfi Parísar frá árinu 2011 er einkennandi fyrir stíl Lacaton og Vassal, í þetta sinn í samstarfi við franska arkitektinn Frederic Druot. Myndir: Philippe Ruault

Kallast á við Bauhaus

Markmið þeirra Lacaton og Vassal um að tryggja fallegt og hreint húsnæði handa öllum sem vilja kallast að miklu leyti við stefnu Bauhaus-háskólans sem var stofnaður af Walter Gropius í Weimar fyrir rétt rúmri öld, árið 1919. Þá hafði ný tækni og meðhöndlun á byggingarefnum eins og málmi, gleri og steypu, umbylt byggingarhönnun og framkvæmdum, þar sem fjöldaframleiðsla tilbúinna eininga hafði djúpstæð og varanleg áhrif á húsnæðisuppbyggingu. Nú var hægt að byggja fjölbýlishús til að létta á húsnæðiskreppu sem var landlæg í flestum evrópskum ríkjum og víðar, fólk gat loksins tryggt sér eigið húsnæði á félagslegum markaði, á góðum kjörum, þar sem var rennandi vatn og rafmagn, þar sem voru gluggar og jafnvel svalir, þar sem fólk gat búið með reisn.

Auglýsing
Þessi hugsjón birtist síðan fagurfræðilega með einkunnarorðum þýska arkitektsins Ludwig Mies van der Rohe, sem varð svo skólameistari Bauhaus á eftir þeim Gropius og Hannes Mayer, minna er meira. „Less is more.“ Þau Lacaton og Vassal fengu einmitt arkitektaverðlaun Evrópusambandsins, nefnd eftir Mies van der Rohe, árið 2019, á afmælisári Bauhaus. Þau sögðu þá við tilefnið að minna er vissulega meira. En einnig: „ódýrt er meira.“ Það er nefnilega ódýrara að vinna með það sem fyrir er, það er ódýrara og umhverfisvænna að rífa ekki allt til að byrja frá grunni og hefja byggingu á glænýju mannvirki. Þannig er hægt að lækka kostnað og draga verulega úr umhverfisáhrifum, einfaldlega með því að fylgja þessum leiðarstefum: Aldrei rífa, aldrei skipta út. Heldur bæta við, umbreyta og endurnýta (ne jamais démolir, ne jamais remplacer. Toujours ajouter, transformer et utiliser). Skilaboð sem hafa líklega aldrei verið mikilvægari þegar byggingariðnaðurinn er um þessar mundir ábyrgur fyrir um 39% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum (UNEP, Global Status Report).

Grand Parc í Bordeaux eru félagslegar íbúðir sem fengu endurnýjun lífdaga árið 2017 svo eftir var tekið.

Erindið á Íslandi

Það sem er svo virkilega heillandi við þau Lacaton og Vassal, þeirra boðskap og þeirra verk, er einmitt hve mikið erindi þau hafa í nútímasamfélagi, í baráttu við loftslagsbreytingar, en einnig í fagurfræðilegu tilliti til að leyfa byggingum og rými að halda í eitthvað sem talist getur „upprunalegt“, að halda í persónuleg einkenni sem setja svip sinn á umhverfi sitt. Raunar eru þessar áherslur áberandi um alla Evrópu. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði einmitt eftir nýrri Bauhaus-stefnu, sem hluta af grænni framtíð álfunnar, að nýta ætti tækni og þekkingu til að framkvæma nýja húsnæðisstefnu, byggða á gömlum grunni Bauhaus - um að allt fólk, óháð stétt, óháð stöðu, eigi rétt á fallegu, hreinu og heilsusamlegu húsnæði sem er um leið sjálfbært og umhverfisvænt. 

Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar er æsispennandi um þessar mundir og ber mörg einkenni þessa alþjóðlegu strauma. Áform eru um ný, glæsileg hverfi, þar sem hugmyndir þeirra Lacaton og Vassal eiga einkar vel við. Þetta á ekki síst við um atvinnuhverfi í Múlum, Vogum, Skeifunni og nýju hverfi við Ártúnshöfða. Í öllum þessum tilfellum þarf að endurskilgreina rými, breyta mikið af atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, með takmörkuðum inngripum, til að bæði spara fé og efni og draga um leið úr umhverfisáhrifum. Þannig mætti halda í einkenni/sérkenni staðanna - skapa sögulega dýpt sem gæfi svæðinu karakter sem ekki er að finna í öðrum nýjum hverfum.  Reykjavíkurborg, ásamt samstarfsaðilum í hönnun og byggingu, eru þar í kjörstöðu til að draga úr kostnaði á því ferli sem þarf að ganga í gegnum til að breyta atvinnurými í íbúðarrými, sem hefur verið afar dýrt og tímafrekt fram til þessa, mestmegnis vegna skriffinnsku og leyfisveitinga. Sömuleiðis má ímynda sér að hugmyndafræði Lacaton og Vassal eigi vel við, t.d. Í Breiðholti þar sem hverfisskipulag Árbæjar, Neðra-Breiðholts og Seljahverfis fær nú andlitslyftingu. 

Atvinnurými fær nýtt hlutverk. FRAC nýlistasafnið í Dunkirk í Norður-Frakklandi var skipasmíðastöð/slippur sem fékk andlitslyftingu árið 2013. Tilkomumikið í rökkrinu. Myndir: Philippe Ruault.

Sýnum metnað og uppskerum

Blokkaríbúðirnar, U-blokkirnar, í Bökkunum gætu þannig fengið stærri svalir, meira skjól, aðgang að gróðri og matvælaframleiðslu (urban gardening), allt sem hefur verið áberandi í aðgerðum Lacaton og Vassal þegar kemur að endurbótum á félagslegu húsnæði. En þar komum við e.t.v. að því sem hamlar að miklu leyti endurbótum á reykvískum hverfum, hið flókna eignarhald sem stafar meðal annars af því að félagslegt íbúðarkerfi hefur ekki verið til í sömu mynd á Íslandi og t.d. Í Frakklandi, þar sem íbúðir eru í raun í eigu ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila og þá niðurgreitt (Habitations à loyer modéré) en gefur þá eigendum sínum tækifæri á að semja um heildarendurbætur á blokkaríbúðum eða húsnæði sem er ætlað nýtt hlutverk. Á Íslandi er þetta talsvert flóknara, yfirleitt vegna eignarhalds, vegna ávöxtunarkröfu fjárfesta, eigenda og/eða byggingaraðila, vegna þess að í týpískri blokk þarf alla eigendur íbúða blokkar til að samþykkja slíkar breytingar. Á Íslandi ræður fjármagnið för en með aukinni kröfu um gæði húsnæðis mætti fagurfræðilegur og umhverfisvænn metnaður íslenskra arkitekta njóta sín betur. Þar væri gaman, og í raun algerlega nauðsynlegt, að sjá hagsmunaaðila taka meiri ábyrgð - sem gæti þá strax skilað sér í ódýrara, umhverfisvænna og fallegra húsnæði, þar sem ekkert væri slegið af gæðum. Þau frekar aukin ef eitthvað er. Það er formúla sem þú styður til sigurs. Það er alslemma hjá Hildi Guðna og Roger Federer, þannig húsnæði viljum við. Ekki rífa, ekki skipta út. Heldur bæta við, umbreyta og endurbæta. 

Studio Granda hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2020 fyrir verkefnið Drangar, glæsileg endurhönnun á sveitabýli ásamt útihúsum sem er svo sannarlega innan sömu endurnýtingarstefnu og Lacaton og Vassal aðhyllast. Mynd: Pancho Gallardo/Studio Granda


Höfundur er meistaranemi í borgarfræðum við Bauhaus-Universität Weimar. Andri Gunnar Lyngberg, arkitekt, og Borghildur Sturludóttir, arkitekt, fá bestu þakkir fyrir yfirlestur og sömuleiðis Philippe Ruault fyrir leyfi fyrir notkun ljósmynda.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar