Forsenda orkuskipta í heiminum er bætt orkunýtni. Bætt orkunýtni hefur verið ein af aðaláherslan í loftslagsmálum í heiminum þar sem hún er einnig hagkvæm. Með því að spara orku þá sparast líka fjármagn.
Byggingar
Mikið hefur verið fjallað um að bætt orkunýtni í byggingum sé eitt hagkvæmasta verkfærið í loftslagsbaráttunni þar sem stór hluti af orkunni sem er framleiddur í heiminum í dag fer í að hita upp og kæla byggingar.
Evrópureglugerð frá 2010 „Environmental Performance of Buildings Directive" lagði fram metnaðarfulla áætlun um að allar nýjar byggingar frá 31.12.2020 yrðu svo kallaðar núll-orku byggingar. En til þess að geta orðið núll-orku bygging þá þarf byggingin að nota svo lítið af orku að það sé hægt að framleiða næga endurnýjanlega orku á þaki eða í ytra byrði byggingarnar að það dugi fyrir rekstri hennar. Markmiðið með þessari reglugerð var bæði að draga úr orkunotkun í byggingum en einnig að hvetja til meiri framleiðslu á endurnýjanlegri raforku. Ísland er á undanþágu frá þessari Evrópureglugerð.
Samgöngur
Bætt orkunýtni hefur líka verið leiðarstef í því að draga úr losun til dæmis frá bílaflotanum. Nýrri bílar nota miklu minni orku á hvern kílómetra en áður. Samt sem áður erum við að fá sömu þjónustu, bara með betri tækni. Gamli jeppinn hans pappa gat notað 12-14 lítra á hverja hundrað kílómetra en nýir bensín/dísel bílar í dag geta farið allt niður í 2 -4 lítra á hverju hundrað kílómetra. Með tilkomu rafmagnsbílana eykst nýtnin enn meira, því að rafmagnsbílar eru með allt að 90% orkunýtni miðað við um 30% nýtni við bruna á bensíni.
Einnig eru margar aðrar leiðir til þess að auka verulega orkunýtni í samgöngum, t.d. með því að fjölga þeim sem nýta fjölbreyttan ferðamáta, eins og að ganga eða hjóla. Að hjóla hvort sem er á venjulegu hjóli eða á rafmagnshjóli er mjög orkunýtin aðferð til þess að koma sér frá A til B. Orkunotkunin getur verið allt að 20-30 sinnum meiri á bensín bíl hvern kílómetra en á hjóli, eða um 0.03 kWSt/km á hjóli og 0.6-0.9 kWSt/km á bensín bíl.
Iðnaður
Í iðnaði er víða hægt að huga að bættri orkunýtni. Til dæmis hefur ELKEM í Salten Noregi sett í gang verkefni sem stuðlar að því að ná aftur um 28% af rafmagninu sem fór í framleiðsluferlið á silisium með því að framleiða rafmagn úr glatvarma sem fellur til í framleiðsluferlinu. Þetta er í dag ekki gert á Íslandi, en er vel mögulegt. Margvísleg fleiri tækifæri eru í ýmsum iðnaðarferlum sem hægt væri að huga mun betur að enn við gerum í dag.
Loftslagsaðgerðir
Bætt orkunýtni í öllum ferlum og notkun er forsenda orkuskipta. Það er ekki trúverðugt að aðal stefið í loftslagsmálum sé að framleiða meiri orku ef ekki er hugað afar vandlega af því hvernig við förum með hana.
Með réttum aðgerðum, innleiðingu nýrrar tækni, mengunarbótareglunni og hvötum er hægt að draga umtalsvert úr eftirspurn eftir orku á næstu 10 árum. Þannig skapast meira svigrúm til orkuskipta. Koma verður í veg fyrir að náttúru Íslands og víðernum verði spillt enn frekar en orðið er í nafni loftslagsverndar og orkuskipta. Náttúruvernd og loftslagsvernd verða að haldast í hendur.
Höfundur er verkfræðingur og stjórnarmaður í Landvernd.