Þingflokkur Viðreisnar er í grunninn sammála ríkisstjórninni um að óskynsamlegt sé að binda peninga skattborgaranna í bankastarfsemi í jafn ríkum mæli og við höfum gert í allmörg ár. Við höfum stutt hugmyndir um sölu hlut ríkisins í Íslandsbanka en jafnframt lagt áherslu á að ríkið verði kjölfestufjárfestir í einum banka og gegnsæi ríki við sölu hlutarins í Íslandsbanka. Við höfum einnig undirstrikað að andvirði sölunnar fari í niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og skýrt afmarkaðar innviðafjárfestingar.
Eigi að síður er að mörgu að hyggja þegar hlutabréf ríkissjóðs eru seld. Þar koma ýmis efni til skoðunar. Frá mínum bæjardyrum séð hefur ríkisstjórnin horft fram hjá sumum mikilvægustu álitaefnunum þótt margt hafi tekist þokkalega út frá því umhverfi sem við búum nú við.
Lengi hefur legið fyrir í mati Samkeppniseftirlitsins að samkeppni á bankamarkaði er ófullnægjandi. Virk samkeppni á þessu sviði er ekki síður mikilvæg fyrir almenning og fyrirtæki en eignarhaldið. Jafnvel mikilvægari.
Skortur á virkri samkeppni á fjármálamarkaði
Ríkisstjórnin hefur einblínt á eignarhald hlutabréfanna en látið eins og sala á þeim leysi öll vandamál. Það er bara ekki raunin. Við höfum aldrei heyrt ráðherrana tala um mikilvægi virkrar samkeppni til þess að bæta hag viðskiptamanna bankanna. Því síður höfum við heyrt þá leggja á ráðin um úrbætur.
Ríkisstjórnin horfir líka fram hjá þeim sérstaka vanda að hér er mjög lítið einkafjármagn. Íslandsbanki er áfram í félagslegri eigu. Lífeyrissjóðirnir eru nefnilega stærstu kaupendurnir. Iðgjöldin, sem þeir ávaxta með fjárfestingum, eru einfaldlega skattpeningar almennings, innheimtir með sama hætti og aðrir skattar.
Nú eru lífeyrissjóðirnir traustir eigendur með sama hætti og ríkissjóður. Það er því ekki umkvörtunarefni. Vandinn er að breytt félagslegt eignarhald á bönkunum er allt of einhæft. Litlar líkur eru því á að það eitt og sér leiði til aukinnar samkeppni.
Hænuskref tekin því krónan hamlar
Félagslegt fjármagn lífeyrissjóðanna er nú ráðandi í þeim tveimur bönkum sem ríkissjóður er ekki lengur meirihlutaeigandi í. Það er ekki unnt að tala um raunverulega einkavæðingu í þessu samhengi.
Að auki er félagslegt fjármagn lífeyrissjóðanna ráðandi í flestum stærstu skráðu fyrirtækjunum. Með öðrum orðum: Það er kominn upp sá vandi að sjóðirnir eru stórir eigendur að bönkunum samhliða því að eiga helstu viðskiptavini þeirra. Í því gæti verið fólgin of mikil áhætta.
Til viðbótar þessu ætlar ríkisstjórnin bara að stíga hænuskref í að auka heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis. Mikil takmörkun á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða veikir samkeppnisumhverfið og skapar hættu á eignabólum.
Sjálfir hafa lífeyrissjóðirnir bent á talsverða hættu á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði. Það getur leitt til þess að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar. Það fer auðvitað gegn hagsmunum sjóðsfélaga. Ástæðan fyrir þessu hænuskrefi ríkisstjórnarinnar er á endanum íslenska krónan. Er þetta enn ein birtingarmyndin af þeim mikla kostnaði sem hlýst af okkar litla gjaldmiðli.
Tilflutningur á félagslegu eignarhaldi á bönkum frá ríkissjóði til lífeyrissjóða er í sjálfu sér saklaus aðgerð. Hún breytir hins vegar litlu. Og sáralitlu þegar kemur að samkeppni. Við þurfum því ríkisstjórn, sem er tilbúin til að takast á við þau raunverulegu vandamál sem blasa við á þessu sviði og trúir á mátt samkeppninnar.
Höfundur er formaður Viðreisnar.