Um margra sólarhringa skeið hefur ekki reynst unnt fyrir fréttamenn né aðra að ná tali hvorki af forsætisráðherra né hinum tveimur formönnum stjórnarflokkanna. Þau hafa sameinast um að steinþegja á sama tíma og þjóðin hefur ítrekað látið í sér heyra fordæmingu á athæfi fjármála- og efnahagsráðherra, sem selt hefur vildarvinum og ættingjum eina af auðlindum þjóðarinnar á afsláttarverði. Um leið og ljóst var hvað þar hafði verið gert tók við þögnin ein hjá ráðamönnum ríkisstjórnarinnar. Þögn sólarhringum saman.
Þögnin rofin.
Nú í morgun rauf forsætisráðherrann loksins þögn sína. Ætla má, að hún og samherjar hennar, hafi notað allar löngu þagnirnar til þess að leita leiða til að takast á við vandann og svara snarpri gagnrýni þjóðarinnar. Leitað hvort einhver finnist fordæmi, þá hvar og hvernig skuli beita. Og fordæmið fannst. Meira að segja íslenskt fordæmi. Sama fordæmi og nú er verið að beita í Eflingu. Hópuppsögn á starfsfólki! Öllu starfsfólki Bankasýslu ríkisins, bæði stjórnendum sem og öðrum, verði vísað á dyr og stofnuninni einfaldlega lokað. Leitað verði síðan að nýjum starfsmönnum, körlum og konum, til þess að axla vinnuna í nánustu framtíð og þá undir nýju nafni. Hverju? Það veit enginn. Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi eru að hugsa sig um. Láta vita síðar. Geta brottviknir starfsmenn sótt um sambærileg störf aftur? Því hefur ekki verið svarað – öfugt við hjá Eflingu. En ráðherrarnir eru auðvitað að hugsa sig um.
Reka skal rétt.
Besti vinurinn rekinn.
Þegar betur er að gáð kemur í ljós, að fleira er líkt með brottrekstri starfsfólks Eflingar og brottrekstri starfsfólks Bankasýslu ríkisins. Um Eflingu er það vitað, að kona að nafni Agnieska var mikill vinur og stuðningsmaður Sólveigar Önnu, ráðin til starfa á skrifstofu Eflingar af þessari Sólveigu Önnu og kosin varaformaður samkvæmt tillögu Sólveigar Önnu. Þegar uppsagnalotan rann upp var þessi fyrrum mikla vinkona og stuðningsmaður Sólveigar Önnu svo rekin úr starfi og vísað úr allri náð. Lárus H. Blöndal var stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, valin til þess verkefnis af vini sínum Bjarna Benediktssyni og munu þeir hafa talist vera miklir vini og samherjar að allra áliti. Stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins er auðvitað fyrsti maðurinn, sem vikið er nú úr starfi þegar starfsfólkinu er sagt upp og stofnunin lögð niður. Enn getur þó verið að Lárus verði endurráðinn í sambærilegt starf þegar að því kemur, en það er ekki vitað. Ráðherra er að hugsa sig um.
Hreint ekki ónýtt.
Það er aldeilis ekki hreint ónýtt þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sækir sér lausnir á erfiðum vandamálum í garð íslenskrar verkalýðshreyfingar. Skyldu ekki ungir VG liðar, sem staðið hafa ásamt öðrum fyrir fjöldamótmælum gegn bankasölu ríkisstjórnarinnar, vera fegnir með það. Að ríkisstjórnin beiti sósíalískum lausnum eins og Efling!
Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra og formaður Alþýðuflokksins.