„Við erum núna að gefa upp boltann,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningarfundi peningastefnunefndar eftir síðustu vaxtahækkun fyrr í mánuðinum, þar sem ljóst var að árangur hefði náðst í baráttunni gegn verðbólgunni.
Ásgeir sagði að Seðlabankinn þyrfti mögulega ekki að hækka vexti mikið meira ef aðrir taki við boltanum núna, og beindi þar sérstaklega sjónum að ríkisstjórninni og aðilum á vinnumarkaði. Framhaldið ráðist að miklu leyti af nýjum kjarasamningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga, en flestir samningar losna um næstu mánaðamót.
En hvernig á vinnumarkaðurinn að taka á móti þessum bolta? Samtök atvinnulífsins segja of miklar launahækkanir ala á vítahring hækkandi launa og verðlags á meðan stéttarfélög vilja verja félagsfólk sitt fyrir verðbólgunni, sem bitnar fyrst og fremst á tekjulágum.
Hér geta stjórnvöld hjálpað til. Til þess að góð sátt náist í kjaraviðræðum er mikilvægt að ríkisvaldið leggi sitt af mörkum til að dreifa byrðunum af verðbólgu með tímabundnum sköttum og millifærslum.
Ekki sprettur heldur langhlaup
Þrátt fyrir að dregið hafi úr verðhækkunum á síðustu tveimur mánuðum er ekki þar með sagt að baráttan gegn verðbólgunni sé búin. Ef verðlag stæði í stað næstu þrjá mánuðina yrði verðbólgan í desember samt nálægt átta prósentum, þar sem vísitala neysluverðs er mun hærri heldur en hún var í fyrra.
Það er heldur ekki sjálfgefið að verðbólgan fari hratt niður á allra næstu mánuðum. Fyrirtæki og heimili búast enn við að verðbólgan verði töluvert yfir verðbólgumarkmiði eftir fimm ár, ef marka má væntingakönnun Seðlabankans. Líkt og hagfræðiprófessorinn Gylfi Zoega, sem situr í peningastefnunefnd, hefur bent á er mikil óvissa bundin verðlagsþróun næstu missera vegna hækkandi orkuverðs í Evrópu og annarra afleiðinga stríðsins í Úkraínu.
Einnig munu vandamál tengd verðbólgu síðustu mánaða ekki hverfa þótt hún fari niður í núll prósent í dag. Verðlagshækkanirnar hafa þrengt að heimilum og munu halda áfram að gera það ef tekjur þeirra haldast óbreyttar. Og þessum þrengingum er ójafnt dreift.
Verðbólgan er vandamál tekjulágra
Á vef Hagstofunnar má finna tölur um neyslumynstur há- og lágtekjuhópa, sem og regluleg útgjöld þeirra á árunum 2013-2016. Samkvæmt þeim mátti búast við að einstaklingur í lægsta tekjuhópnum hafi þurft að verja tæpum 160 þúsund krónum á mánuði í hin ýmsu útgjöld á þessu tímabili. Í ársbyrjun 2020, rétt fyrir faraldurinn, kostaði sama samsetning af vörum og þjónustu um það bil rúmar 170 þúsund krónur.
Tekjuhæsti fjórðungur þjóðarinnar, sem varði tæpum 230 þúsund krónum á mánuði í byrjun faraldursins, þurfti að leggja út rúmar 270 þúsund krónur síðasta ágúst í neyslu. Þessi hækkun bítur þó minna hjá einstaklingum í þessum tekjuhópi, sem voru að meðaltali með 1,1 milljón krónur á mánuði í heildartekjur í fyrra. Neysla þeirra var innan við fjórðungur af heildartekjum þeirra.
Á mynd hér að neðan má sjá hversu mikil verðhækkun á dæmigerðri neyslukörfu hvers tekjufjórðungs hefur verið frá janúar 2020, ef miðað er við meðaltekjur hans sama ár. Myndin sýnir því hversu mikið tekjur einstaklinga í hverjum tekjuhópi hefðu þurft að hækka á síðustu tæpu þremur árum til þess að þurfa hvorki að minnka neyslu eða ganga á eigin sparnað.
Líkt og sést hefur verðbólga síðustu missera haft mest áhrif á tekjulægsta fjórðunginn, sem þyrfti um 18 prósent hærri tekjur en í janúar 2020 til að viðhalda óbreyttri neyslu, án þess að auka skuldsetningu eða ganga á eigin sparnað. Tekjuhæsti fjórðungurinn þyrfti hins vegar einungis 4 prósenta tekjuaukingu til að fjármagna verðhækkunina á eigin neyslu.
Verðbólga síðustu missera er því fyrst og fremst vandamál tekjulágra, þar sem þeir eyða stærstum hluta tekna sinna í neyslu. Það er því ekki nema tímaspursmál fyrr en nýlegar verðhækkanir fari virkilega að bíta hjá þeim sem minnst mega sín. Ef stjórnvöld vilja lágmarka áhrif verðbólgunnar á fólkið í landinu ættu þau að einblína á tekjulægstu hópana.
Launahækkanir duga ekki
En verðbólgan er ekki ókeypis. Launþegar geta því miður ekki komist hjá áhrifum núverandi verðhækkana með samsvarandi launahækkunum einum og sér. Líkt og stjórnvöld og atvinnurekendur hafa margoft bent á leiða slíkar hækkanir til aukinnar þenslu í hagkerfinu, sem myndi á endanum leiða til hærra verðs og launþegar þyrftu því aftur að biðja um hærri laun. Þessi víxlverkun launa og verðlags myndi því að öllum líkindum leiða til enn meiri verðbólgu og vaxandi verðbólguvæntinga, sem allir myndu tapa á, sérstaklega láglaunafólk.
Hins vegar er það ósanngjörn krafa á hendur láglaunafólki að kaupmáttur þeirra þurfi að rýrna í nafni verðstöðugleikans. Stöðugleikinn á ekki að hvíla á herðum þeirra.
Í stað þess að auka þenslu og hætta á víxlverkun launa og verðlags væri frekar hægt að dreifa byrðunum vegna verðbólgunnar og sjá til þess að hún lendi á þeim sem finna minnst fyrir þeim. Þetta er hlutverk Alþingis, sem getur jafnað leikinn með sértækum sköttum og bótum.
Hvalrekaskattur er góð hagstjórn
Önnur lönd í Evrópu hafa nú þegar komið fram með hugmyndir um að skattleggja þau sem hafa hagnast á efnahagsástandi síðustu ára tímabundið til þess að fjármagna stuðningsaðgerðir fyrir tekjulága á meðan verðbólgan stendur sem hæst. Fyrir tveimur vikum síðan féllust fjármálaráðherrar Evrópusambandsins á að leggja svokallaðan hvalrekaskatt á orkufyrirtæki í álfunni sem hafa stórgrætt á síðustu mánuðum.
Sömuleiðis kynnti norska ríkisstjórnin hækkun skatta á orkufyrirtæki og laxeldisfyrirtæki um svipað leyti. Gahr Støre, forsætisráðherra landsins, sagði að skatttekjurnar yrðu nýttar í að fjármagna velferðarkefið, en samkvæmt honum er nauðsynlegt að þeir sem grætt hafa mest á síðustu árum þurfi nú að borga meira.
En sértæk og tímabundin skattlagning á vel stæð fyrirtæki er ekki einungis sanngirnismál. Á þessum verðbólgutímum er hún líka góð hagstjórn. Aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, Philip Lane, kallaði eftir því að ríkisstjórnir á Evrusvæðinu myndu auka skattheimtu á rík heimili og fyrirtæki til að geta fjármagnað aðgerðir fyrir tekjulága. Að mati Lane hefðu slíkar skattahækkanir minni áhrif á verðbólgu heldur en aukinn hallarekstur ríkissjóðs.
Við þetta má svo bæta að skattlagning hefur minni neikvæð áhrif á fjárfestingu í fyrirtækjum ef hún er tímabundin. Hvalrekaskatturinn ætti ekki að fæla marga langtímafjárfesta frá ef þeir vita að ríkið mun lækka skattana aftur þegar verðbólgan kemst í eðlilegt horf.
Skattur á fjármagn og sjávarútveg
Hér á landi hafa sumir atvinnuvegir grætt mun meira en aðrir vegna utanaðkomandi aðstæðna. Líkt og Gylfi Zoega nefndi í grein sinni í Vísbendingu í byrjun mánaðarins hefur Úkraínustríðið og verðbólgan sem henni fylgir bætt viðskiptakjör hérlendis, þar sem verð á útfluttum sjávarafurðum hefur hækkað. Þannig hafi styrjöldin orðið til þess að flytja tekjur frá neytendum til sjávarútvegsfyrirtækja, samkvæmt Gylfa.
Fjármagnseigendur hafa einnig hagnast mikið á því efnahagsumhverfi sem heimsfaraldurinn bjó til síðustu tvö árin. ASÍ bendir á það í síðustu mánaðarskýrslunni sinni, en samkvæmt henni jókst ójöfnuður hér á landi í fyrra vegna mikillar aukningar í fjármagnstekjum.
Nú hefur þingflokkur Samfylkingarinnar gefið út þingsályktunartillögu um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Þar eru lagðar fram tímabundnar leiðir til að komast til móts við tekjulága næstu 18 til 24 mánuði sem yrðu fjármagnaðar með tímabundinni skattlagningu á fjármagnstekjur og sjávarútvegsfyrirtæki.
Þessar hugmyndir ríma vel við áðurnefndar ákvarðanir ríkisstjórna í Evrópusambandslöndunum og Noregi. Þær eru einnig í góðu samræmi við ummæli Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra frá því í febrúar, þar sem hún sagðist vilja skattleggja „ofurhagnað“ sjávarútvegsfyrirtækja og bankanna og bætti við að hún hefði stuðning Framsóknarflokksins í þeim málum. Reynist það rétt er mögulegt að meirihluti náist á þingi fyrir þessum aðgerðum.
Ný þjóðarsátt
Það er næstum því orðið klisjukennt að tala um þjóðarsátt í tengslum við kjaramál. En til að komast út úr núverandi verðbólgu verða verkalýðsfélögin, atvinnurekendur og stjórnvöld að vera samstíga.
Slíkt samkomulag felur að sjálfsögðu í sér töluverðar málamiðlanir. Stéttarfélög verða að sætta sig við hóflegar launakröfur svo að stjórnvöld geti tekist á við verðbólguna með aðhaldssamri peningastefnu. Um leið gætu fyrirtækin sem hafa hagnast á atburðum síðustu mánaða borgað sérstakan hvalrekaskatt, sem stjórnvöld gætu innheimt á sama tíma og þau skuldbinda sig til að ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem hafa lægri tekjur.
Það er erfitt að ímynda sér að stéttarfélög myndu sætta sig við kaupmáttarrýrnun eigin félagsfólks í nafni verðstöðugleikans í næstu kjarasamningum. Með hjálp stjórnvalda væri hins vegar hægt að koma í veg fyrir hættuna á frekari þenslu án þess að hún bitni á þeim verst settu. Boltinn er hjá þeim.
Höfundur er hagfræðingur.