Þessi texti er ekki fyrir þá sem trúa því að mannkynið geti bjargað sér frá loftslagsbreytingum, heldur fyrir skoðanasystkini mín, sem eru búnir að komast að þeirri rökréttu niðurstöðu að við erum dauðadæmd. DAUÐADÆMD! Ég er ekki að reyna að breyta þeirri skoðun, heldur ætla ég að fara yfir hvernig mér finnst réttast að lifa á tímum fimbulvetrar.
Einhverjir gætu kallað mig svartsýnan, þannig að ég ætla að byrja á því að fara yfir hvers vegna ég hef tekið upp dómsdagstrú. Mat mitt á endalokum mannkynsins byggist á pöddum og stólum. Ég fatta að það er undarlegt, en gefið mér smá séns áður en þið sendið tölvupóst á Nemendavernd MA varðandi geðveikan námsmann.
Pöddutengingin heitir í raun framrúðufyrirbærið (e. Windshield phenomenon) og snýst um framrúðuþrif eftir utanbæjarakstur. Ég er ekkert búinn að vera langtímagestur hérna á Hótel Jörð, en man samt skýrt eftir því að það voru fleiri pöddur á framrúðunni á fyrsta áratug þessarar aldar þegar pabbi var að keyra en eru hjá mér í dag eftir svipaðan langtímaakstur. Einhver með betra minni sem nær lengur í tímann hlýtur að geta staðfest svipaða þróun. Framrúðufyrirbærið er eitt áþreifanlegasta dæmið um þá óafturkræfu fjöldaútrýmingu á lífverum sem við höfum valdið á undanförnum áratugum.
Hinn undirstöðustólpi heimsendatrúar minnar er skrilljónstólakenningin. Hún snýst um að í hvaða rými sem er og hvaða viðburð sem er, er alltaf hægt að redda auka stól. Hvað eru margir stólar til ef það er alltaf hægt að finna nóg af stólum? Hvernig er það hægt? Það er vegna þess að nútíma framleiðsluhættir snúast ekki um að fullnægja þörfum einstaklings, heldur um stanslausa aukningu í framleiðslu og sölu hjá fyrirtækjum og endalausa neyslu hjá einstaklingum.
Mannkynið þarf að skipta um framleiðsluhætti sem fyrst, til dæmis hætta sköpun á gagnslausum munaðarvörum, einhverjir tala í því samhengi um jurtajafnaðarstefnu (e. Ecosocialism), en það er kerfið sem tæki við af nútíma kapítalisma. Flestir sjá fyrir sér hrun mannkyns miklu betur en hrun kapítalisma, þannig að ég er búinn að samþykkja það að börnin munu ekki erfa jörðina, heldur Svenbertil stólar frá IKEA.
Hvað á maður þá að gera? Gefast upp? Nei, en það skaðar ekki að breyta um hugarfar. Það er minnsta mál í heimi að hugsa vel um umhverfið, eiga plöntu, nota hampvörur (þessar löglegu, ekki það að það sé mál að redda hinu) og hugsa almennt vel um allt og alla. Svo þegar það byrjar að styttast í heimsenda (núna) skaltu bara byrja að djamma og hafa gaman. Langtímafjármál skipta ekki máli rétt fyrir heimsenda. Hámarkaðu hedónisma og slæma siði. Farðu svo í messu bara svona ef það skildi vera karl á tunglinu. Gerðu allt sem þú getur til þess að deyja með bros á vör án eftirsjár, því það er fátt annað í stöðunni.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.