Formanni VR stærsta stéttarfélags landsins, Ragnari Þór Ingólfssyni, er ákaflega létt eftir að hafa tekið ákvörðun um að ganga út af þingi ASÍ í síðustu viku. Ekki vegna þess að honum sé ekki annt um sambandið heldur vegna þess að ASÍ er orðið óbærilegur vinnustaður. „Ég vaknaði í morgun sem frjáls maður,“ sagði hann í ítarlegu viðtali á Samstöðunni í kjölfarið af því að hann, Sólveig Anna og Vilhjálmur Birgisson yfirgáfu þing ASÍ eftir að hafa fengið gjörsamlega nóg af samkundunni.
Mikið skil ég vel að þau skyldu ganga út. Hvernig í veröldinni geta það verið hagsmunir launafólks að foringjar verkalýðsfélaga eyði orku í endalausar illdeilur og niðurrifsstarfsemi? Hvernig í ósköpunum á framsækið fólk í baráttunni fyrir brauðinu að láta bjóða sér upp á að koma laskað út af fundum innan ASÍ vegna þess hversu sjúk samskiptin eru þar innanborðs?
Sólveig Anna mætti líka í viðtal á Samstöðinni, sama dag og þau gengu út og aftók að bjóða sig fram til embætta þar á ný. Vilhjálmur Birgisson sá sig knúinn til að biðja launafólk afsökunar á því hvernig ASÍ væri orðið.
Eftir þessa atburði hefur hver silkihúfan á fætur annarri tjáð sig um átökin og meðal annars fullyrt að þau séu ekki um málefni heldur fyrst og fremst um fólk. Þetta er alrangt. Grunnur átakanna er nefnilega málefnalegur. Mismunandi áherslur um hvað og hvernig eigi heyja baráttuna. Um hvort endurreisa eigi og efla verkalýðshreyfinguna eða hvort halda eigi áfram sömu stefnu sem hafði mallað þar í tugi ára. Þess vegna varð til Vor í Verkó árið 2018, þegar nýtt forystufólk kallaði á að verkalýðshreyfingin yrði öflugt baráttutæki launafólks fyrir frelsi, réttlæti, jöfnuði og virðingu fyrir öllu launafólki. Þetta nýja forystufólk er hvorki meira né minna en formenn langstærstu stéttarfélaga á Íslandi. Það er svo sannarlega eftirspurn eftir þessum nýju áherslum. Og Vilhjálmur Birgisson sem áður barðist nánast einn innan kastalaveggja ASÍ fyrir kraftmeiri baráttu, hafði nú fengið nýja og öfluga liðsmenn.
Ef menn halda í alvörunni að hægt sé að breyta eins stórum heildarsamtökum eins og ASÍ með um 135 þúsund félögum án átaka þá vaða menn í villu. Enda hafa átökin staðið yfir í nokkurn tíma og mikið um þau fjallað í fjölmiðlum. En þremenningarnir vonuðu það besta, ákváðu að gera lokatilraun til að bjarga sambandinu en það tókst ekki. Þú voru úthrópuð strax á fyrsta degi þingsins og nokkrir lögðu mikið á sig til að leggja stein í götu þeirra. ASÍ er orðið ormagryfja. Launafólk á betra skilið en að forystufólk í verkalýðsfélögunum séu að eyða dýrmætri orku í annað eins og þvílíkt. Kjarasamningar framundan og afkoma fólks á erfiðum tímum í húfi.
Í fyrrnefndu viðtalið á Samstöðinni talaði Ragnar Þór um að mynda breiðfylkingu stéttarfélaga fyrir komandi kjaraviðræður. Að félög sem vilja starfa saman á uppbyggjandi hátt sameinist í baráttunni. Slíkt afl gæti verið mjög sterkt að mínu mati. Það var reyndar mynduð svona breiðfylking fyrir Lífskjarasamninginn. Sólveig Anna, Vilhjálmur og Ragnar Þór unnu saman, ásamt nokkrum minni félögum, og teiknuðu upp Lífskjarasamninginn. Þarna var hinn endurreista forysta með sínar nýju áherslur sem dró vagninn.
ASÍ, af því bara, af því að það er meira en 100 ára, gengur ekki upp. Tímarnir breytast. Mörgum þykir vænt um þessa fjöldahreyfingu verkafólks sem svo sannarlega vann sitt verk vel hér fyrr og árum, verkafólki til heilla. En þegar sambandið er orðið svo sjúkt að það stendur baráttunni fyrir þrifum, er mál að linni. Meðvirkni með slíku bitnar á endanum bara á launafólki. Það er merki um heilbrigði og góða dómgreind að stíga úr úr svona samskiptum. Ég óska hinni nýju og endurreistu verkalýðshreyfingu góðs gengis í baráttunni framundan. Lifi Vorið í Verkó.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og með MA í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands.