Á síðasta ári tóku 47 manns á Íslandi eigið líf. Áætla má að sú vanlíðan og þjáning sem leiddi til sjálfsvíganna hafi verið mikil, auk þess harms sem atburðurinn sjálfur olli aðstandendum og samfélagi þeirra. Fá minnisblöð hafa verið skrifuð, engir markvissir fundir verið haldnir þrátt fyrir þann mikla sársauka og kostnað sem sjálfsvíg hafa í för með sér fyrir samfélagið. Hið opinbera telur eflaust að betra sé að ræða ekki málin um of af ótta við að tíðni sjálfsvíga aukist með aukinni umræðu. Með þessu er málaflokkurinn sveipaður ákveðinni hulu og skömm sem löngum hefur fylgt sjálfsvígum. Sjálfsvígin eru hins vegar staðreynd og það er líka staðreynd að þeim fjölgaði úr 39 árið 2019 í 47 árið 2020 eða um 20,5%. Sjálfsvígum kvenna fjölgaði úr 7 í 15 eða um 114%.
Geðheilbrigðismál munu að öllum líkindum verða enn meira í deiglunni eftir því sem athyglin á Covid minnkar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út strax í upphafi faraldursins að eftirköst hans yrðu ekki síst tengd geðheilsu fólks. Einangrun, atvinnumissir, fjárhagslegt óöryggi, ótti við veiruna o.fl. er eitthvað sem flestir upplifðu með einum eða öðrum hætti á sl. 18 mánuði. Afleiðingarnar koma ekki endilega í ljós alveg strax og því þurfum við sem samfélag að undirbúa okkur þannig að við getum leyst þung og erfið verkefni tengdum geðheilsu þjóðarinnar á næstu misserum.
Samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að fé til almannaþjónustu ríkis og sveitarfélaga verður af skornum skammti næstu misserin en allar líkur eru á að þörfin fyrir þjónustuna aukist. Nú er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti og vörn í þeirri merkingu að bæta viðbragðskerfi okkar. Við verðum því að forgangsraða og horfa með gagnrýnum augum á það hvernig okkur hefur tekist sl. ár og áratugi og vera tilbúin að skoða nýjar hugmyndir.
Alla tölfræði, s.s. lýðheilsuvísa þarf að endurskoða og stórauka áherslu á geðheilsu. Tölur um sjálfsvíg eru ákveðinn mælikvarði en við þurfum að ná að meta geðheilsu með mun betri hætti en nú er gert. Með því að taka upp geðráð þar sem saman kæmu helstu hagsmunaaðilar, auk þess sem öll gögn og tölfræði væru fyrir hendi, mætti útbúa einskonar mælaborð geðheilsu. Það myndi einfalda og auðvelda stjórnvöldum ákvarðanatöku og leiðir á hverjum tíma.
Covid gæti verið tækifæri fyrir okkur sem samfélag að hverfa af braut raskana og taka upp nýja hugmyndafræði sem byggir meira á heilbrigði og forvörnum. Það er ljóst að gamla hefðbundna leiðin hefur beðið ákveðið skipbrot. Miðað við það umfang sem gera má ráð fyrir að geðheilbrigðismál munu verða á næstu árum í kjölfar faraldursins er ljóst að við höfum hreinlega ekki efni á því sem samfélag að nota sömu hugmyndafræðina. Horfum því til orsakaþátta fremur en afleiðinga og snúum viðbrögðum kerfisins sem í dag spyr hvað hrjáir þig og spyrjum frekar:
hvað kom fyrir þig?
Höfundar eru varaformaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar.