Eftirgjöf Sjálfstæðisflokksins í garð fjármögnunar heilbrigðiskerfisins lætur reglulega á sér kræla. Á miðvikudag var mér sagt upp sem starfsmanni einkarekins hjúkrunarheimilis, þar sem ég hef sinnt starfi mínu af einstakri alúð og áhuga undanfarna 2 mánuði eftir langvarandi atvinnuleysi. Ég sakast ekki við hjúkrunarfræðingana tvo sem starfa sem deildarstjórar á minni deild og fengu mig á fund á miðvikudag, þeir fá skipanir að ofan og vildu jafnframt gefa mér meðmæli fyrir starfi á Landspítalanum á komandi vetri. Ég er þakklátur fyrir slíkt framtak. En ég sé á eftir heimilisfólkinu sem ég hef sinnt aðhlynningu og fengið til að brosa og líða vel síðan ég hóf störf. Það hefur reitt sig á mig í tvo mánuði en nú verð ég frá að hverfa, gegn mínum vilja. Það er ekkert víst í því heldur að öruggt sé að ég fái starf á Landspítalanum.
Síðan ég hóf störf á hjúkrunarheimilinu hef ég orðið var við að starfsfólkið er leitt á skerðingunum á þjónustu hjúkrunarheimila og í eitt skipti var til dæmis sagt í gríni að verið væri að spara í mjólkurinnkaupum þegar matarinnkaup mistókust. Hér þarf að auka umræðu í samfélaginu um þjónustu hjúkrunarheimila og gera kröfu um að byrjað verði að setja hagsmuni heimilisfólks og starfsfólks í forgang ofar hentisemi örfárra stjórnenda í rekstri og ríkisstjórnar Íslands. Slíkt væri t.d. hægt að framkvæma með því að breyta lögum og reglum í rekstri hjúkrunarheimila þannig að heimilisfólk og starfsfólk þurfi að vera með í ráðum varðandi rekstur heimilanna sem það á heima á eða vinnur á. Það þætti mér bara mjög eðlileg og rétt breyting. Við þurfum að hefja samtalið um þetta.
Það kom mér þó ekkert sérlega á óvart að fá um brottrekstur minn að vita á miðvikudag því áður en ég réð mig inn á hjúkrunarheimilið í sumar hafði ég verið að skoða málefni einkarekinna hjúkrunarheimila á Íslandi og eftirgjöf ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins í fjármögnun heilbrigðismála, í gegnum stjórnmálaþátttöku mína undanfarin ár. Ég setti mig meðal annars í samband við bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar á Akureyri í vor vegna fjöldauppsagna einkarekins hjúkrunarheimilis þar á þessu ári þar sem tugir starfsfólks misstu vinnu sína vegna skerðingarstefnu fjármálaráðuneytis Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili þingsins í garð heilbrigðismála, stefnu sem hefur haft stór og neikvæð áhrif á fjármál sveitarfélaga landsins. Ég bjóst fastlega við því að það að ráða mig á einkarekið hjúkrunarheimili myndi þýða núll starfsöryggi, ekkert lýðræði á vinnustað og að mér gæti verið sparkað hvenær sem er, líkt og starfsfólk á einkarekna hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri fékk að kynnast í vor þegar því var sagt upp í massavís, líka hinum fastráðnu og reynsluhoknu þar. Þjónusta hjúkrunarheimilanna fer því hrakandi undir fjármálastjórn og einkavæðingu núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins.
Annað sem fær á mig í þessu er að ég þekki það feikivel að búa á stofnun, ólst sjálfur upp á slíkri og þekki einnig hvernig eftirgjöf í fjármögnun þjónustu sem varðar barnavernd eða heilbrigðisþjónustu, þegar einstaklingur býr á stofnun og reiðir sig á þjónustu, hefur skaðleg áhrif á íbúa stofnananna. Einmitt vegna reynslu minnar af slíkum fjármögnunarskorti yfirvalda í barnaverndarkerfinu í æsku hef ég í mörg ár barist fyrir því að fá sjálfur sanngirnisbætur og breyta lögum um sanngirnisbætur vegna þess skaða sem ég varð fyrir sem barn vegna kröfu yfirvalda Reykjavíkurborgar þá um aðhald í rekstri á fósturheimilum í Reykjavík. Vegna reynslu minnar í þessum efnum hóf ég þátttöku í stjórnmálum, en stjórnmálum hafði ég annars lítinn áhuga á. Áhugi stjórnvalda á réttindum fólks í þessum efnum er enginn, stóraukin aðkoma og valdefling fólksins þarf að verða til til þess að mótmæla þeim skemmdarverkum sem hönnuðir kerfisins úr Sjálfstæðisflokknum, flokknum sem hefur farið með stjórn ríkisfjármála í 26 ár af síðustu 30, bera ábyrgð á.
Ég tók strax þá ákvörðun á miðvikudag að greina samstarfsfólki mínu og sérstaklega heimilisfólki frá því að ég hefði verið rekinn. Því að ég veit af eigin reynslu hvað það er að vera upp á einhvern um þjónustu kominn, leggja traust í garð vissra aðila og vera skilinn eftir til að vita ekki um stöðu mála vegna hentisemi annarra. Þannig var mín reynsla á fósturheimili í Reykjavík sem ég ólst upp á sem barn og hef alla tíð síðan mótmælt, í fjölmiðlum og í gegnum stjórnmál. Þess vegna get ég ekki með nokkru móti haldið þessu leyndu frá fólkinu sem ég starfa með eða sinni umönnun. Og viðbrögðin við þessum fréttum voru sannarlega og skiljanlega ekki góð hjá þeim heimilismönnum sem ég ræddi við. Við sem notum þjónustu á einhvern hátt erum nefnilega undir hentisemi annarra komin, fáum ekkert um málin að segja og það er vandamál, því stundum verðum við óheppin og verðum oft undir ýmsu þess vegna. Þessu mætti breyta með því að haga reglum og lögum þannig að heimilisfólk og starfsfólk hjúkrunarheimila verði að fá að taka beinan þátt í ákvörðunum um rekstur þeirra.
Ég mun aldrei sætta mig við svona framkomu þeirra sem fara með stjórn ríkisfjármála eða einkarekinna fyrirtækja í hjúkrunarrekstri og gera kröfur um sparnað á kostnað þjónustu sem við reiðum okkur á. Skömm sé þeim sem stjórna þessum málum á Íslandi í dag og í guðanna bænum kjósið ekki Sjálfstæðisflokkinn. Enga meiri eftirgjöf í fjármögnun heilbrigðisþjónustu landsmanna í næstu ríkisstjórn.