Fjármál sveitarfélaganna hafa verið mjög til umræðu að undanförnu, raunar sem endranær. Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust var afkoma þeirra í brennidepli meðal annars vegna kostnaðar sveitarfélaganna af málefnum fatlaðs fólks en raunvöxtur útgjalda vegna þess málaflokks hefur verið 7% á ári frá 2016. Í þessari grein mun ég reyna að varpa ljósi á nokkrar staðreyndir um þessi mál.
Ef við lítum fyrst á tekjur og gjöld sveitarfélaganna (eins og Hagstofa Íslands birtir þau á s.k. þjóðhagsgrunni) þá hafa þau farið vaxandi á undanförnum árum. Þetta sést vel á mynd 1.
Frá árinu 2010 þegar tekjur og gjöld urðu lægst hafa tekjurnar vaxið að raungildi um 3,9% á ári að meðaltali meðan gjöldin hafa vaxið um 4,0% á ári. Þannig hefur myndast vaxandi bil á milli gjalda og tekna eins og sjá má og sveitarfélögin hafa vakið athygli á. Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað og tekjur sveitarfélaga á mann voru árið 2021 2,0 % lægri að raungildi en þær voru 2018. Gjöld á hvern íbúa voru 0,6% lægri á hvern íbúa árið 2021 en þau voru 2017 þegar þau voru mest. Á myndinni má sjá að útgjöld sveitarfélaga taka mikið stökk upp á við árið 2016. Frá þeim tíma hafa útgjöldin í heild vaxið um 3,1% á ári að raungildi til á sama tíma og útgjöld vegna fatlaðs fólks hafa vaxið um 7,1% á ári eins og áður er getið. Útgjöld sveitarfélaga vegna fatlaðs fólks námu 7,3% af heildarútgjöldum þeirra árið 2021 og því er ljóst að útgjaldaaukning til þess málaflokks er ekki eina skýringin á versnandi afkomu sveitarfélaga.
Staða sveitarfélaganna er afar mismunandi. Hér á eftir er byggt á gögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og þau eru birt á vef sambandsins. Þar er um að ræða hefðbundna framsetningu ársreikninga sveitarfélaganna. Greiningin byggir einvörðungu á A-hluta starfsemi sveitarfélaga[1].
Eins og sjá mátti á mynd 1 hafa tekjur sveitarfélaganna farið vaxandi undanfarin ár en þær hafa ekki vaxið jafnmikið hjá þeim öllum. Á mynd 2 er hins vegar sýnt hvernig rekstrarniðurstaðan hefur þróast.
Á myndunum má sjá annars vegar fjölda þeirra sveitarfélaga sem hafa sýnt jákvæða eða neikvæða niðurstöðu á rekstrarreikningi og hins vegar þann fjölda landsmanna sem býr í sveitarfélögum sem þannig er ástatt um. Þarna skiptir að sjálfsögðu meginmáli hvort Reykjavíkurborg sýni jákvæða eða neikvæða niðurstöðu. Frá árinu 2016 hefur þeim sveitarfélögum fjölgað sem sýna neikvæða niðurstöðu en íbúafjöldinn sem í þeim býr var ekki mikill fyrr en árið 2020 þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tóku að sýna neikvæða niðurstöðu og árið 2021 er svo komið að það á við um þau öll og þar með er mikill meirihluti landsmanna búsettur í sveitarfélögum sem rekin eru með tapi.
Á yfirstandandi ári hafa tekjur sveitarfélaga haldið áfram að vaxa. Ef miðað er við tölur sem Hagstofan hefur birt um afkomu hins opinbera eftir ársfjórðungum hafa tekjur sveitarfélaganna í landinu vaxið um 2,6% að raunvirði miðað við vísitölu samneyslu á fyrra árshelmingi yfirstandandi árs meðan gjöldin hafa vaxið um 0,2%. Fjárfesting sveitarfélaga hefur dregist saman um 6,1% að raunvirði miðað við fyrra árshelming 2021 og þar með hafa önnur gjöld þeirra vaxið um 1,0%. Afkoma sem í heild er áfram neikvæð hefur batnað frá því á fyrra árshelmingi 2021. Þá var hún neikvæð um meira en 30 milljarða en á fyrra árshelmingi í ár er hún samtals neikvæð um 18,8 milljarða. Rétt er að vekja athygli á því að tölur Hagstofunnar eru á s.k. þjóðhagsgrunni sem mælir umsvif á hverjum tíma.
Ef miðað er við gögn um tekjur sveitarfélaga af staðgreiðslu ( þ.e. stærsti hluti útsvarsteknanna sem jafnframt eru lang stærsti tekjustofn þeirra flestra) þá voru þær 12% hærri eftir 11 mánuði á þessu ári en þær höfðu verið á sama tímabili árið á undan sem er raunaukning um u.þ.b. 3%. Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir jólaleyfi var hlutur sveitarfélaga í skattlagningu tekna einstaklinga (annarra en fjármagnstekna) hækkaður enn til að bæta fjárhagsstöðu þeirra og í þeim tilgangi að kosta málefni fatlaðs fólks. Undanfarin ár hefur meira en helmingur álagðra skatta á almennar tekjur einstaklinga farið til sveitarfélaga í formi útsvars en það hlutfall fór í 58,1% árið 2021, en álagður tekjuskattur ríkissjóðs lækkaði að krónutölu um 2,4% frá fyrra ári meðan útsvarstekjur sveitarfélaganna uxu um 7,6%. Í raun er hlutur sveitarfélaga af almennum tekjuskatti enn hærri en þetta vegna þess að ríkissjóður greiðir útsvar hinna tekjulægstu og stór hluti fjármuna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á einnig uppruna sinn þar.
Niðurstaðan er því sú að í heildina hefur afkoma sveitarfélaganna farið versnandi þrátt fyrir mikla tekjuaukningu. Mikill vöxtur á kostnaði þeirra vegna málefna fatlaðs fólks er ekki eina skýringin á þeim mikla vexti útgjalda sem þau hafa staðið fyrir.
Höfundur er skipulagsfræðingur.
Heimildir:
[1] A-hluti merkir aðalsjóð sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.