Það er komið að því, nú gengur íslenskur almenningur hnarreistur og spengilegur til kosninga. Raunar er fólki svo mikið í mun um að koma vilja sínum í kjörkassann að atkvæði utan kjörfundar Íslandsmetið frá 2017 er því fallið.
Þá er vert að rifja upp kjörtímabilið í grófum dráttum. Það hófst á því að Vinstri græn, þrátt fyrir ítrekuð loforð um hið gagnstæða, köstuðu sér í fang Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Eftir töluverða málefnaþurrð framan af, fóru sígildar hugmyndir að sveima um sali Alþingis. Mál eins og varanleg úthlutun makríls til örfárra forréttindapésa. Enda höfðu stórar útgerðir stefnt íslenska ríkinu fyrir úthlutunina á þessum takmörkuðu gæðum. Málið féll síðan niður af þeirra undirlagi, það sem hefði þurft til að koma í veg fyrir að það ætti sér stað til að byrja með, var að breyta lögunum.
Í öllum þeim kosningum til Alþingis sem á undan hafa gengið hefur stærsta mál þjóðarinnar fallið milli stafs og bryggju, eignarhald á kvótanum er því enn þá samkvæmt öllum hægristjórnum frá hruni í höndum réttra aðila.
Þær ríkisstjórnir innihalda Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn, Vinstri græn og Viðreisn. Um það verður ekki deilt. Samt sýna nýlegar kannanir að aðeins 14% þjóðarinnar eru ánægð með núverandi útfærslu kvótakerfisins og að 70% þjóðarinnar séu hliðholl breytingum í sjávarútvegi.
Íslenska stjórnarskráin er ófrávíkjanleg krafa til þess að Píratar gangi í stjórnarsamstarf með nokkrum flokki, róttækar breytingar í sjávarútvegi er krafa númer tvö. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá er róttækasta breyting á Íslandi frá stofnun lýðveldisins. Á því stranda allar tilraunir til þess að koma vilja þjóðarinnar fram. Það er minnisvert þegar starfsmenn sjávarútvegsráðuneytis Kristján Þórs Júlíussonar afmáðu veggjakrot í bakgarði sínum í vænisjúkum tilraunum til að breyta sögunni.
Núna er rekið mál fyrir héraðsdómi þar sem kumpánlegur landsfaðir vorrar þjóðar situr fyrir ósanngjörnum og nærgöngulum spurningum um smávegis mistök í Afríku. Ætli fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi slegið á línuna til hans aftur til að stappa í hann stálinu?
Við Píratar höfum ekki fengið tækifæri. Við gerum okkur grein fyrir því að trúverðugleika tekur áratug að byggja og einn ríkistjórnarsamning að eyða. Vægi okkar í samningum er í beinu hlutfalli við niðurstöðu kosninga.
Atkvæði greitt okkur er atkvæði til nýs auðlindaákvæðis.
Atkvæði greitt okkur er atkvæði til sanngjarna breytinga í sjávarútvegi.
Atkvæði greitt okkur er atkvæði til lýðræðis - ekki kjaftæðis
Atkvæði greitt okkur er atkvæði gegn áframhaldandi ægivaldi Samherja.
Eða er kannski bara best að kjósa Samherja?
Álfheiður Eymarsdóttir er oddviti Pírata í Suðurkjördæmi og Gunnar Ingiberg Guðmundsson skipar annað sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.