Í nýlegum Kjarafréttum Eflingar var sýnt að opinber útgjöld til velferðarmála á Íslandi eru óvenju lítill hluti landsframleiðslu í samanburði við OECD-ríkin (sjá hér). Jafnvel þó bætt sé við útgjöldum lífeyrissjóða með skylduaðild er Ísland talsvert fyrir neðan hinar norrænu þjóðirnar. Niðurstaðan er sú, að íslenska velferðarríkið nær ekki máli sem norrænt velferðarríki.
Mestu máli skiptir í þessu sambandi óvenju lág útgjöld hins opinbera til lífeyrisgreiðslna almannatrygginga og að útgjöld vegna heilbrigðismála eru undir meðallagi OECD-ríkjanna, en þessir tveir þættir eru stærstu útgjaldaliðir flestra velferðarríkja. Tekjutilfærslur til heimila vinnandi fólks eru þó einnig lágar hér á landi, einkum barnabætur - og útgjöld vegna húsnæðisstuðnings hafa lækkað stórlega á síðustu árum þrátt fyrir óvenju miklar hækkanir á húsnæðisverði.
Villandi mynd fjármálaráðuneytis af heilbrigðiskerfinu
Fjármálaráðuneytið birti í kjölfar umfjöllunar Kjarafrétta greinargerð og tölur á vef sínum, sem skilja mátti sem tilraun til að véfengja niðurstöðu Kjarafrétta (sjá hér). Þar var að vísu ekki um kerfisbundna umfjöllun um niðurstöður Kjarafrétta að ræða heldur voru tíndir til nokkrir molar sem áttu að vera til marks um að hér á landi væri allt í besta lagi í velferðarmálunum.
Lögð var megin áhersla á sérstaklega matreiddan umreikning heilbrigðisútgjalda með tilliti til aldursdreifingar þjóðarinnar, sem virtist benda til að heilbrigðisútgjöld hér væru þau þriðju hæstu í hópi OECD-ríkjanna, en ekki undir meðallagi þeirra eins og grunntölur OECD fyrir árið 2019 sýna, þ.e. áður en Kóvid-faraldurinn skall á. Þetta er hins vegar mjög vafasöm aðferð hjá ráðuneytinu sem gefur villandi niðurstöðu.
Ráðuneytið er með þessum reikniæfingum sínum að freista þess að segja að hér séu meira en næg útgjöld til heilbrigðismála og annarra velferðarmála, þrátt fyrir að tölur OECD sýni annað.
Vandi heilbrigðiskerfisins
Ráðuneytið er sumsé að segja að hér sé allt í besta lagi í heilbrigðismálunum. En fær það staðist?
Það stangast algerlega á við þá mynd sem nær daglega er dregin upp í fréttum og umfjöllunum fagfólks á Landsspítala og í heilsugæslunni og frásagnir af reynslu almennings. Hér er vissulega gott og öflugt fagfólk í heilbrigðisþjónustu sem gerir kraftaverk á hverjum degi. En aðbúnaður og mönnun í kerfinu er augljóslega ófullnægjandi. Það sjá þeir sem vilja sjá staðreyndirnar (sjá t.d. hér).
Góður mælikvarði á þetta er hve stór hluti fólks með tiltekna sjúkdóma segjast búa við ófullnægða þörf fyrir heilbrigðisþjónustu eða aðgerðir vegna langra biðlista eftir aðgerðum. Samanburð Evrópuþjóða á þessum mælikvarða má sjá á mynd 1, sem byggir á gögnum úr lífskjarakönnunum Hagstofunnar og Eurostat fyrir árið 2019.
Ísland og Lúxemborg eru í efstu sætunum, með langverstu útkomuna. Mun verri en hjá hinum norrænu þjóðunum. Í Noregi eru vandamál vegna biðlista hverfandi. Tölurnar eru fyrir árið 2019. Þessar niðurstöður eru raunar í ágætu samræmi við tölur um útgjöld til heilbrigðisþjónustu sem birtar voru í Kjarafréttum Eflingar, sem sýndu að Ísland var fyrir neðan meðallag OECD-ríkjanna.
Áður en Kóvid-faraldurinn skall á var nýtingarhlutfall á Landsspítala of hátt og því of lítið borð fyrir báru til að taka við aukaálagi vegna Kóvid, sem varð síðan mikið. Þetta þýðir að valkvæðum aðgerðum þurfti að fresta meira en áður hafði verið. Staðan á biðlistunum er því augljóslega mun verri í dag en þessar tölur á mynd 1 benda til. Ísland er væntanlega komið með mun verri stöðu í dag en Lúxemborg sem var efst á skussalistanum árið 2019.
Heilbrigðiskerfið ræður ekki við verkefni sín
Forstjóri Landsspítalans sagði nýlega að sjö þúsund og fimm hundruð manns séu nú á biðlistum eftir skurðaðgerðum, fjögur þúsund fleiri en voru á þessum listum fyrir heimsfaraldurinn (sjá hér).
Pælið í þessu! Um 7.500 eru á biðlistum eftir skurðaðgerðum. Fjöldinn hefur meira en tvöfaldast frá 2019. Aðeins helmingur skurðstofa hefur verið í notkun, meðal annars vegna vegna mikillar manneklu. Staðan er því augljóslega mjög slæm. Heilbrigðiskerfið ræður ekki við verkefni sín svo viðunandi sé.
Þessi gögn sýna að tilraunir fjármálaráðuneytisins til að fegra myndina af stöðu heilbrigðismála, sem og annarra velferðarmála, eru vægast sagt villandi ef ekki beinlínis blekkjandi. Hvernig á að vera hægt að vinna niður biðlistana á næstu misserum? Í Fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fjögurra ára er ekki að sjá nein merki um að taka eigi á þessum uppsafnaða vanda. Þar á bæ er nú talað um að skera niður opinber útgjöld á næstu misserum, sem að stærstum hluta fara til velferðarmála.
Stjórnvöld tala einnig um að „nýta betur starfslið heilbrigðisþjónustunnar“, þ.e. auka álag. En starfsfólkið er úrvinda eftir álag faraldursins og vegna ófullnægjandi mönnunar víða í kerfinu. Enginn nefnir hið augljósa: bjóða þarf starfsliði, einkum hjúkrunarfólki og sjúkraliðum, hærra kaup svo nægur fjöldi fáist til starfa í heilbrigðiskerfinu. Og bæta þarf aðstöðu strax. Þetta kallar á meira fjármagn til heilbrigðismálanna.
Þá tala stjórnvöld einnig um að flytja verkefni frá Landsspítalanum til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Það hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins um árabil. En það mun grafa enn frekar undan opinbera heilbrigðiskerfinu, eins og forstjóri Landsspítalans hefur bent á. Er það kannski markmið stjórnvalda að grafa undan opinbera heilbrigðiskerfinu, til að greiða fyrir einkavæðingu?
Afstaða stjórnvalda boðar því ekki gott í heilbrigðismálum, né í öðrum þáttum velferðarmálanna sem ófullnægjandi eru.
Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.