Er stærsta peningabóla allra tíma við það að springa?
Árið er 2006 á Wall Street. Mark Baum og félagar fara að kanna af hverju vöndlar af undirmálslánum (rusl fasteignalánum sett saman í skuldabréfavafninga) fengu hæstu einkunn frá matsfyrirtækjunum. Á fundi þeirra með fulltrúa Standard & Poors’s:
Spurning: „Have you ever refused to rate any of these bonds upper tranches AAA?“
Svarið: „If we don’t give them the ratings, They’ll go to Moody’s, right down the block.“
Aðdragandi bankahrunsins 2008 má að stórum hluta rekja til fasteignabólunnar í USA sem svo afhjúpaði eina umfangsmestu spillingu innan fjármálakerfisins í nútíma sögu. Bæði í aðdraganda hrunsins og í eftirmálum þess.
En bólan sem alheims efnahagskerfið stendur frammi fyrir nú er ekki bara fasteignabóla þó fasteignaverð hafi vissulega bólgnað hratt og ískyggilega mikið. Hlutabréf eru í sögulegu hámarki og hafa seðlabankar heimsins séð til þess að keyra bóluna upp og halda henni á lofti með hrárri peningaprentun, magnbundinni íhlutun, dæla peningum inn í hagkerfið án þess að raunveruleg verðmæti skapist á móti. Þeir bæði kaupa verðbréf og sjá til þess að aðgangur að lánsfjármagni sé nægur fyrir fyrirtæki og einstaklinga til verðbréfakaupa, á vöxtum sem eru við núllið, jafnvel neikvæðir ef verðbólga er tekin með.
Aldrei í sögunni hefur hlutabréfaverð verið eins hátt. Og rétt eins og í aðdraganda hrunsins 2008 haga sér allir þannig að verðið á hlutabréfum geti ekki farið annað en upp.
Önnur leið til þess að reikna eðlilegt verð hlutabréfa — þannig að almenn verðbólga í hagkerfinu skekki ekki myndina — er að deila heildarverði allra hlutabréfa í Bandaríkjunum í tölur um þjóðarframleiðslu (þekkt sem Warren Buffett vísbendingin). Sögulega hefur þetta hlutfall verið í kringum 80%, þ.e. öll hlutabréf kosta sem nemur 80% þjóðarframleiðslu. En 28. október 2021 stóð þessi tala í 213% (!!!), sem þýðir á mannamáli að bandaríski markaðurinn er allt of dýr eða í skýjunum í sögulegu samhengi. Í dag er V/H gildi SP-500 vísitölunnar um 28,4 sem er sögulega mjög hátt en til samanburðar var V/H gildi í september 2008 26,23.
Rörsýni
Þrátt fyrir að hlutabréfaverð hafi ekki hækkað jafn mikið og jafn lengi í sögunni virðast fáir gefa þessu gaum. Þó svo að matsfyrirtækin séu ekki eins áberandi og þau voru fyrir hrun eru allskyns sérfræðingar og matsmenn kallaðir til í fjölmiðlum til að segja frá greiningum sínum um hversu mikið markaðurinn átti inni eða hvers virði fyrirtæki eru yfir markaðsvirði, fyrirtæki sem eru jafnvel í mjög áhættusömum rekstri, og hafa skilað gríðarlegu tapi, eru verðmetin í hæstu hæðum og jafnvel metin stórlega undirverðlögð.
Nú spá Burry og fleiri, sem hafa hingað til reynst sannspáir, að blásið sé í mesta hrun allra tíma. Eigum við að hlusta og greina hvort eitthvað sé til í þessu eða loka augunum eins og venjulega og yppa öxlum þegar illa fer og kenna svo minnihlutahópum og almenningi um. Hrunið 2008 var sagt vegna þess að fólkið keypti sér flatskjái. Verður það næsta sagt vegna þess að fólkið keypti heita potta og sólpalla?
Saga Michael Burry er líklega hvað þekktust vegna þess hann veðjaði gegn fasteignalánamarkaðnum í USA sem varð aðdragandinn að einu stærsta efnahagshruni sögunnar, og stórmyndinni „The Big Short”.
Hann veðjaði á að fasteignalánavafningar sem matsfyrirtækin mátu sem fyrsta flokks fjárfestingu væru lítið annað en saman safn af rusli, lánum sem fólk gæti aldrei staðið undir til lengri tíma, lánum sem þúsundum saman var búið að setja í álitlega vafninga sem örugga fjárfestingakosti, AAA vottaða af matsfyrirtækjum, til fjárfesta. Afurð sem í raun voru hrúgur af húsnæðislánum í alvarlegum vanskilum og lánum sem fæstir gátu staðið undir.
Burry veðjaði á að markaðurinn færi að hrynja í ársbyrjun 2007 en spillingaröflunum á Wall Street tókst að teygja lopann lengur en hann gerði ráð fyrir. Lopinn var teygður með fullri vitund fjármálakerfisins sem losuðu sig við stöður og fjárfestingar í þessum sjóðum til grandalausra viðskiptavina sinna, eftirlaunasjóða og annarra sjóða í eigu almennra fjárfesta, sem töpuðu öllu. Stjórnendur fjármálakerfisins nýttu svo stjarnfræðilega björgunarpakka bandarískra stjórnvalda/skattgreiðenda til að greiða sér himinháa bónusa í skjóli fjármálaglæpa sem eiga sér vart hliðstæðu.
Spillingin sem afregluvæðingin í fjármálakerfinu hafði í för með á áttunda áratug síðustu aldar leiddi af sér bólurnar sem á eftir komu. Bólum sem var haldið lengur á lofti en annars mögulegt hefði verið. Og með óbætanlegum skaða fyrir þá sem á endanum greiða reikninginn, sem er almenningur.
Helstu gerendur voru svo leystir út með skaðleysi og bónusgreiðslum sem nema upphæðum sem fæst okkar skilja. Á Íslandi voru dómar felldir en flestir þeirra, er skilgreindir voru gerendur, í íslenska hruninu eru ennþá stórefnamenn í dag og nafntogaðir bakhjarlar stærstu viðskiptablokka landsins.
Þeir sem létu ekki áróður villa sér sýn
En af hverju er ég að skrifa um Burry, Mark Baum eða fleiri sem létu ekki markaðinn eða annan áróður flækjast fyrir sér og sáu í gegnum svikamylluna? Eða Rob Bilott sem fletti ofan af Teflon eitrun og skelfilegum umhverfisglæpum stórfyrirtækisins DuPond, eða Sherron Watkins sem fletti ofan af Enron málinu sem er eitt stærsta einstaka fjársvikamál alheimssögunnar sem einungis Kaupþingsfléttan kemst í samanburð við, og af hverju ekki Jóhannes Björn, höfund bókarinnar Falið vald, en Jóhannes hefur verið sá Íslendingur sem best hefur greint þá sturlun sem fjármálakerfið hefur alið af sér?
Ástæðan er einföld. Allt þetta fólk lét ekki áróður sérhagsmunaafla villa sér sýn og sáu í gegnum blekkingarvefinn. Og það sem mestu máli skiptir, gerðu eitthvað í málunum.
Syndalistinn um skaðsemi fjármálakerfisins er lengri en hægt væri að koma fyrir í margra binda ritsafni þó samfélagslegri gagnsemi og umhverfissigrum fjármálakerfisins og stórfyrirtækja væri hægt að koma fyrir í lítilli vasabók, ritaðri með stórum stöfum.
Margir þeirra sem áður hafa stigið fram og haft kjark í að benda á hið augljósa, hið augljósa sem sjaldan eða aldrei nær augum meginstraums fjölmiðla, hafa bent á yfirvofandi hrun. Sumir ganga svo langt að kalla það hrun allra hruna. Tilefni þessara skrifa er alls ekki að hræða eða vera með dómsdagspár, hvað þá heldur að tala niður markaði eða endurflytja klisjur og samsæriskenningar.
Það sem hér er skrifað eru tölulegar og sögulegar staðreyndir, ekkert annað.
Markmiðið er að upplýsa, hlusta og deila því sem við ekki skiljum til fulls, og okkur er ekki ætlað að skilja. Öðruvísi gæti þetta ekki gengið svo langt sem raunin er. Okkur er ekki ætlað að skilja svo hægt sé að búa til sífellt nýjan farveg ef einn stíflast, farveg fyrir gegndarlausa græðgi og spillingu, misskiptingu auðs og valds.
Fer verðið bara áfram upp?
Þegar netbólan sprakk árið 2000 og fjármálakerfið 2008 mátti greina kerfisbundnar niðursveiflur á milli. Alvarleg hrun hafa orðið á 8 til 10 ára fresti síðustu áratugi og árhundruð. Nú lítur út fyrir að búið sé að blása í stærstu bólu allra tíma, dettandi í fjórtánda árið frá síðasta hruni með tölur sem sýna hæstu verð á hlutabréfum í mannkynssögunni.
Eða fer þetta bara áfram upp?
Hvað segir ráðgjafinn þinn í bankanum? Eða sérfræðingarnir á forsíðum viðskiptablaðanna? Hvað segja greiningadeildir bankanna eða Seðlabankastjóri? Hvað segja fjármála- og forsætisráðherra?
Ég tel mig ekki hafa dýpri skilning á fjármálamörkuðum en almennt gengur og gerist en spyr, svona í ljósi sögunnar, hvort við siglum enn og aftur sofandi að feigðarósi?
Ég velti líka fyrir mér hvort lífeyrissjóðir ætli að bíða af sér sveifluna eða verja sig. Eða er yfirbygging sjóðanna bara þannig að við gætum allt eins geymt fjármuni okkar í vísitölusjóðum og sleppt því að borga rándýrum starfsmönnum fyrir að gera það sama og markaðurinn, sama hvað?
Vill Musk fá að greiða skatta eða losa um eignir?
Úr frétt á Visi.is:
Frumkvöðullinn og viðskiptajöfurinn Elon Musk hefur efnt til skoðanakönnunar á Twitter þar sem hann spyr 62 milljón fylgjendur sínar hvort hann eigi að selja 10 prósent af hlutabréfum sínum í Tesla.
Musk segist á Twitter hvorki þiggja laun né fá greidda bónusa; það eina sem hann eigi sé hlutafé og því sé eina leiðin fyrir hann að greiða skatt að selja hlutaféð og greiða skatt af hagnaðinum.
„Ég mun hlíta niðurstöðum þessarar könnunar, hvernig sem hún fer,“ lofar milljarðamæringurinn sérvitri, sem núna er ríkasti maður heims, eftir að hafa tekið framúr Jeff Bezos, stofnanda Amazon.
Much is made lately of unrealized gains being a means of tax avoidance, so I propose selling 10% of my Tesla stock.
— Lorde Edge (@elonmusk) November 6, 2021
Do you support this?
Ef Musk myndi losa 10% í einu verðmætasta fyrirtæki heims, án sýnilegrar ástæðu, gæti það haft mikil áhrif á markaðinn og mögulega senda skilaboð um að hann hefði takmarkaða trú á eigin félagi, félagi sem virðist í fljótu bragði gríðarlega ofmetið. Er þetta tilraun til að losa gríðarlegar eignir undir þeim formerkjum að vilja, í fyrsta skipti, greiða skatta? Að loksins sjái auðmaður að sér og í tilfinningauppnámi hugsi hann um samfélagsleg gildi á meðan hann klæðir sig úr geimbúningnum. Eða hvað?
Í ársbyrjun 2021 var Tesla metið á 631 milljarða dollara eða meira en 6 stærstu bílaframleiðendur þar á eftir til samans, sem eitt og sér er alveg fáránlegt í öllum samanburði. Í dag er verðmæti Teslu komið yfir trilljón dollara. Er Musk svona umhugað um að greiða skatta eða er honum umhugað að leysa út gríðarlegan hagnað án þess að líta út fyrir að bregða búi, pakka því inn eins og að almenningur ráði því hvað hann geri? Að öllum líkindum verður söluhagnaði komið þannig fyrir að ekki verði greidd króna í skatta. Hann þarf ekki annað en að setja söluhagnaðinn í góðgerðarsjóð, sem hann sjálfur stjórnar, eins og aðrir ríkustu menn jarðar hafa gert.
V/H hlutfall er ein algengast kennitala sem notuð er á hlutabréfamörkuðum. V/H hlutfall segir til um hversu langan tíma það tekur að greiða upp markaðsvirði félags með hagnaði þess. Félag sem hefur markaðsverðmæti 100 milljarða og hagnast um 10 milljarða er með V/H gildið 10. Síðan eru dæmi um félög sem eru með mjög hátt V/H gildi en gildið hjá Teslu er í dag 1.918. Hver þarf hagnaður Teslu að vera í framtíðinni til að standa undir þeirri verðlagningu sem er á félaginu í dag?
„Ég mun hlíta niðurstöðum þessarar könnunar, hvernig sem hún fer,“ lofar milljarðamæringurinn sérvitri Elon Musk, sem nýlega varð ríkasti maður heims og sló gamla met Jeff Bezos, stofnanda Amazon.
Auður Musk var fyrr á árinu metinn á 151 milljarð Bandaríkjadala en Tesla var nýlega sagt vera virði trilljón dala. Musk á 23 prósent í fyrirtækinu og er hlutur hans því nú um 230 milljarða dala virði.
Þegar þetta er skrifað hafa 758 þúsund manns tekið þátt í könnuninni og 55,7 prósent sagt Já en 44,3 prósent sagt nei.
Það má spyrja hvað raunverulega búi að baki? Er þetta fyrsti vísir af því hvernig ríkasta fólkið kemur ár sinni fyrir borð til að forðast það óumflýjanlega? Á meðan almenningur og eftirlaunasjóðir þeirra eru upptekin af því hvernig þessi eða næsta Covid-bylgja þróast og kaupir hlutabréfin af Musk af því honum er svo umhugað að geta borgað skatta. En almenningur veit þó, að við munum ekki bara taka skellinn, heldur líka greiða fyrir björgunarpakkana ofan á þá björgunarpakka sem nú þegar er búið að dæla út með Covid björgunarpökkum ríkisstjórna og seðlabanka heimsins.
Peningaframleiðsla hefur gert ríkasta fólkið miklu ríkara
Jóhannes Björn skrifar þann 1. maí 2021.
“Fólk sem spáir í hagkerfi heimsins með það eina að leiðarljósi að skoða tölur um stöðu hlutabréfa, skuldabréfa og verð fasteigna á eftir að vakna upp við vondan draum. Í fjármálasögu heimsins hafa ALLAR spilaborgir — hagkerfi sem byggja á stöðugt vaxandi skuldum frekar en raunframleiðslu — hrunið. Eini leyndardómurinn í þessu ferli, sem í tímans rás hefur stöðugt verið endurtekið, er hversu lengi er hægt að halda Ponzi-leiknum gangandi. Þetta “lögmál” ríkti í Hollandi 1637 (túlípanaæði), Frakklandi 1720 (John Law bóla), á heimvísu 1929 (hlutabréfabóla), 2000 (tæknibóla) og 2008 (fasteigna/skuldabréfavöndlabóla).
Í dag erum við að upplifa allsherjarbólu, bólu sem aðeins er mögulegt að blása ef helstu seðlabankar heimsins framleiða gífurlegar upphæðir úr lausu lofti, langt umfram það sem framleiðsla vöru og þjónustu segir til um. Allir pappírar — hlutabréf, skuldabréf og meira að segja ruslabréf (junk bonds) — eru komnir til skýjanna. Fasteignaverð er líka víða komið úr öllu sambandi við tekjur venjulegs fólks.
Ef við lítum á mikilvægasta peningamarkað heimsins, Bandaríkjamarkað, þá saug Covid-19 um 800 milljarða dollara út úr hagkerfinu. Viðbrögð stjórnvalda voru að dæla inn 6000 milljörðum dollara!
Þessar tölur eru svo stjarnfræðilegar að flestir átta sig ekki á hvað þær raunverulega þýða, en það er ágætis viðmiðun að hafa í huga að allur kostnaður Bandaríkjanna vegna seinni heimstyrjaldarinnar var á núvirði (þegar tekið er tillit til verðbólgu) um 4000 milljarðar dollara.
Taumlaus peningaframleiðsla (skuldasöfnun) helstu seðlabanka heimsins hefur gert ríkasta fólk heimsins miklu ríkara. Ráðsettir sparifjáreigendur hafa hins vegar tapað gífurlega, því aukið framboð peninga hefur lækkað vexti niður á núllið. Stéttaskiptingin er meiri en hún hefur verið síðan 1929. Þrír ríkustu menn Bandaríkjanna eiga núna meira en 160 milljónir samlanda þeirra.
Þeir sem halda að seðlabankar heimsins hafi fundið upp eilífðarvél peningaframleiðslu, gullgerðarlist eins og menn dreymdi um hér áður fyrr, eiga eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum. Þegar markaðirnir loks heimta hærri áhættuvexti eða svartur svanur (algjörlega óvæntur og háskalegur atburður) mætir á svæðið, þá springur þessi allsherjarbóla og við megum þakka fyrir ef afleiðingarnar verða ekki verri en hrunið 2008.”
Tilvitnun lýkur.
En hvað segja tölurnar?
En hvað segir hlutabréfamarkaðurinn?
Stóra spurningin er ekki hvort heldur hvenær niðursveiflan kemur. Verður hún lítil eða mikil eða mesta hrun allra tíma? Hversu lengi mun vöruskortur, umframeftirspurn og aðgerðir ríkisstjórna og seðlabanka duga til að halda þessu gangandi og hvað þýðir þetta fyrir almenning á Íslandi.
Þurfum við að verja okkur og getum við varið okkur?
Eða eigum við bara að sitja á hliðarlínunni og bíða og sjá hvað gerist og vona það besta þegar kemur að því að deila út björgunarbátum, spenna greipar og vona að hagsmunatengd stjórnvöld setji fólkið í fyrsta sæti, í fyrsta sinn í sögunni?
Eigum við að bíða og vera svo jafn jarmandi hissa á þessu öllu saman, jafn hissa og stjórnmálafólkið og sérfræðingar fjármálakerfisins verða þegar yfirvofandi skellur dynur yfir? Og sætta okkur enn og aftur við að vera sett aftast í röðina eftir björgunarvestum sem verða allt of fá þegar frekasti og ríkasti minnihlutinn hefur tekið sitt?
Höfundur er formaður VR.