Ég var í litlu samkvæmi þegar manneskja ávarpaði mig með þessari spurningu þvert yfir allt herbergið. Ég svaraði engu og fór djúpt inn í mig. Í huga margra eru hús staðfesting á því hvernig hefur gengið í lífinu. Fyrir mörgum er kjallari ekki hátt skrifaður, heldur er einhvers konar myndlíkingin fyrir takmörkuð fjárráð og veika stöðu. Árið 2021 má tala um ansi margt. Hvert tabúið á fætur öðru hefur verið opnað í samfélagsumræðunni til þess að auka sýnileika ólíkra hópa og stuðla að umburðarlyndi. Þó virðist umræðan um þá fátækt og stéttaskiptingu sem óheftur leigumarkaður skapar og viðheldur vera heit kartafla. Hvernig má það vera? Getur verið að við viljum búa í þeirri blekkingu allir hafi það gott hér á landi? Blekkingarleikurinn um að Ísland sé gott fyrir alla og við eigum ekkert að kvarta minnkar sýnileika leigjenda og jaðarsetur þá ennþá meira. Þegar staðan er orðin þannig að við tölum ekki um ákveðið vandamál og horfum bara í hina áttina og neitum það sé til, þá vitum fyrir staðan er ekki aðeins slæm heldur er um að ræða alvarlegt samfélagslegt mein.
Í landi þar sem allir vilja vera leigusalar
Margir sjá ekki hversu staða leigjenda hefur versnað mikið á síðustu árum. Áratugum saman hefur verið rekin séreignastefna á Íslandi og henni fylgir það viðhorf að þú sért ekki maður með mönnum nema eiga húsnæði. Enda er það þannig að enginn sem hefur val hangir á leigumarkaði. Húsnæði er ekki eins og pakkaferð til sólarlanda sem þú velur hvort þú kaupir eða ekki heldur er um að ræða grunnþörf því þú þarft að búa einhverstaðar. Staðreyndin er hins vegar að hér ríkir ekki það kræsilegur markaður að fólk hafi einhverja mikla valkosti. Takmarkað húsnæði og uppsprengt verð gerir að verkum að fólk tekur bara það sem býðst. Allir sem vilja vita gera sér grein fyrir því að leigumarkaðurinn er algerlega farinn úr böndunum og samfélagið hefur gert alltof lítið til þess að breyta málum. Ástæðan er einföld, hagnaðurinn fyrir þá sem eiga efni á því að kaupa og leigja út er of mikill.
Við búum því miður í landi þar sem mjög margir vilja vera leigusalar en enginn vill vera leigjandi. Hvers vegna ætli það sé? Svarið er einfalt, miklir möguleikar skjótum gróða því hér má leigja á hvaða verði sem er og okurleiga nýtur samfélagslegrar viðurkenningar. Nánast hver einasti kjallari, kompa, og kytra er kölluð stúdíó íbúð og leigð á okurverði. Draumur millistéttarinnar virðist ekki lengur vera að eiga sitt eigið húsnæði til að búa í heldur að kaupa upp fasteignir til að leigja út. Það víkkar gjánna milli þeirra sem eiga og hinna sem aldrei ná að klóra sig upp í millistéttina.
Því miður er samfélagið óþroskað á mörgum sviðum. Hér skortir almennilegt regluverk um leigumarkaðinn, hér er hvorki leigubremsa né leiguþak, sem þýðir að hér má leigja á hvaða verði sem og fólk í húsnæðisvanda neyðist til að kyngja því. Leigjendur í þessu landi eru ekki bara ósýnilegur hópur sem er sjaldan ávarpaður, heldur er þetta hópur sem hefur ekkert um markaðinn að segja þó að hann ráði þeirra eigin örlögum. Hér á landi skortir stór opinber leigufélög sem gætu stemmt stigum við þessari óheillaþróun. Þótt ASÍ og verkalýðsfélögin sýni góða viðleitni þá eru fjöldi íbúða hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum á borð við Bjarg aðeins dropi í hafið og geta því ekki haft áhrif á leiguverðið. Þó er barátta þeirra það flottasta sem hefur verið að gerast í leigumálum og okkar helsta von því stjórnvöld gera lítið sem ekkert til að hjálpa undir með leigjendum.
Leigjendasamtökin eru ekkert húsfélag
Samtök leigjenda voru endurvakin nýverið og ljóst er að þau eru ekki eitthvað húsfélag þar sem rætt er um hvort þurfi að færa pottaplönturnar á ganginum heldur vettvangur lífsnauðsynlegrar baráttu. Baráttu fyrir því að ekki verði til enn verri leigumarkaður sem festir ennþá fleiri fjölskyldur í fátækt og skömm. Þar sem foreldrum finnst þeir hafa brugðist börnum sínum af því þau geta ekki veitt börnum sínum öruggt skjól. Leigumál varða hamingju barna og húsnæðisöryggi þúsunda, mál sem varðar geðheilbrigði, heilbrigða sjálfsmynd og lífsafkomu fjölda fjölskyldna. Hér á landi eru um 30.000 heimili á leigumarkaði. Ekki beint lítill hópur en samt nánast ósýnilegur. Það vill enginn vera leigjandi á Íslandi ef hann hefur aðra kosti og margir líta á leigumarkaðinn sem millileik, tímabundið ástand, fremur en stöðu sem skilgreinir þig. Að vera leigjandi er ekki sjálfsmynd sem þú ætlar að klæða þig í því þú vonast til að komast þaðan eins fljótt og þú getur. En eitt af stóru vandamálunum í baráttu leigjenda er að um leið og þú kemst á tungusófann sem eigandi húsnæðis er þetta ekki lengur þín barátta, því þá getur þú farið að skoða húsnæðisverð hækka og fagnað því að hafa sloppið með skrekkinn.
Þegar allt kemur til alls hafa ekki bara leigjendur, heldur allt samfélagið, hag af því að skapa hér heilbrigðan húsnæðismarkað. Það er því einlæg ósk mín að þú sýnir þessari réttindabaráttu lið með því að ganga í samtökin.
Höfundur er formaður Samtaka leigjenda á Íslandi.