Þann 16. október síðastliðinn viðraði forsætisráðherra þá skoðun sína að rétt væri að aflétta sóttvarnaraðgerðum innanlands en sagði á sama tíma að hún „telji skynsamlegt að viðhalda þeim á landamærum“. Í kjölfarið var áætlun um afléttingar innanlands tilkynnt. Eins og oft áður í faraldrinum sá fréttamaður ekki tilefni til þess að ganga frekar á ráðherrann og krefjast þess að hún rökstyðji sitt mál og útskýri frekar hvaða skynsemi búi að baki því að halda í sóttvarnaraðgerðir á landamærum. Þess vegna spyr ég eftirfarandi spurninga:
Er skynsamlegt að öllum sem lenda í Keflavík á sama tíma sé hrúgað inní sama rými ofan í hvern annan og gert að bíða þar eftir að starfsmenn stjórnvalda skoði einhverja pappíra í nafni sóttvarna?
Er skynsamlegt að setja þær íþyngjandi kröfur á fólk sem ferðast til íslands að fara í rándýr próf erlendis til að sanna að það sé ekki með veiru sem 90% Íslendinga eru bólusettir fyrir?
Er skynsamlegt að mismuna bólusettum og óbólusettum þannig að óbólusettir eru sviptir frelsi við komuna til landsins þegar það er vitað að bólusetning kemur ekki í veg fyrir smit?
Er skynsamlegt að sólunda fjármunum skattgreiðenda í þessar aðgerðir þegar ógnin af veirunni er ekki meiri en raun ber vitni, fjármunum sem væri betur varið í heilbrigðiskerfinu sem aðgerðunum er ætlað að vernda?
Er skynsamlegt að stjórnvöld dragi úr áhuga ferðamanna á að koma til íslands vegna óþarfra og íþyngjandi takmarkana á landamærum og auki þar með atvinnuleysi og hallarekstur ríkissjóðs?
Er skynsamlegt að hunsa ráðleggingar alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, um að viðhafa ekki takmarkanir á landamærum því gagnsemi þeirra er lítil sem engin eftir að veiran hefur numið land en skaðsemin ofboðsleg?
Er skynsamlegt að viðhalda takmörkunum á landamærunum þegar við vitum að einungis sé um örfá smit að ræða sem hafa hvorki áhrif á smitstuðul veirunnar né vöxt faraldursins innanlands?
Svarið við þessum spurningum er augljóslega nei.
Þegar málið er skoðað af yfirvegaðri skynsemi þá er augljóst að sóttvarnaraðgerðir á landamærum eru illa rökstuddar. Aðgerðirnar auka atvinnuleysi, verðbólgu og hallarekstur ríkissjóðs. Þær grafa undan fjármögnun grunnstoða samfélagsins og draga úr lífsgæðum þjóðarinnar. Með hverjum degi sem líður stækkar reikningurinn sem börnin okkar þurfa að greiða. Það er ekki forsvaranlegt að hefta ferða- og atvinnufrelsi þjóðarinnar fyrir eins lítinn ávinning og raun ber vitni. Þess vegna biðla ég til ráðherra ríkisstjórnarinnar að sjá sóma sinn í því að fella tafarlaust niður allar þær takmarkanir sem settar hafa verið á landamærin og treysti því að vel verði tekið í þessa bón enda um að ræða skynsamt fólk.
Höfundur er nemi.