Miklar breytingar eiga sér nú stað í Evrópu. Styrjaldarástand í Úkraínu kastar ljósi á breytingar sem hafa verið í farvatninu í fleiri ár. Þessar breytingar snerta okkur líka hér í Noregi.
Evrópusambandið og ríki Evrópu eru á hraðri leið með að verða einu aðilarnir sem standa vörð um lýðræði og frjálslynt stjórnarfar á norðurhveli jarðar. Evrópusambandið er í fararbroddi þegar kemur að því að leita lausna við erfiðustu úrlausnarefna samtímans. Ég er því ósammála þeim sem segja að nú sé ekki rétti tíminn til að ræða framtíðar samband Noregs og Evrópusambandsins.
Andstaða bæði til hægri og vinstri hefur ýtt umræðu um Evrópusambandið út úr stjórnarsáttmálum á liðnum árum. En breytingarnar í Evrópu leyfa ekki slíkan lúxus lengur.
Frá pappírsdreka í þungaviktaraðila
Viðbrögð ESB við alvarlegum kreppum á borð við farsóttir og styrjaldir draga fram breytingarnar sem hafa orðið á sambandinu. Viðbrögðin við Covid sýna vel hversu mikilvægt það er að vera hluti af smitvarnarviðbragði ESB. Noregur hefði aldrei náð því að bólusetja sig útúr covid svo fljótt sem raun var án samkomulags við ESB og aðgangs að bóluefni framleiddu innan vébanda sambandsins.
Í viðbrögðum við styrjöldinni í Úkraínu hefur ESB farið frá því að vera pappírsdreki í öryggis- og varnarmálum í að tefla á sama borði og stórveldin. Noregur er eitt af aðildarríkjum NATO, en á tímum mikillar óvissu er rétt að spyrja hvort þær tryggingar í varnarmálum sem aðildinni fylgja séu nægjanlegar. Lýðræði í USA stendur tæpar nú eftir 4 ár með Donald Trump en áður. Það er ekki gefið að hægt sé að taka sem gefinn stuðning USA komi til öryggispólitískra ögrana. Enginn veit hver niðurstaða næstu kosninga í USA verða.
Bólusetning gegn einræðistilburðum í Evrópu
Margir hafa bent á að ógnin sem Pútin og stjórn hans var að bregðast við með innrásinni í Úkraínu hafi ekki síður verið möguleg aðild Úkraínu að ESB en aðildarumsókn landsins að NATÓ. Ógnin fólst í Úkraínu sem stæði styrkum fótum í hópi frjálslyndra, lýðræðislegra ríkja í Evrópu. Ógnin fólst í að bætt lífskjör og virkt réttarríki í Úkraínu myndu standa sem valkostur við það samfélag sem Putin býður þegnum sínum. Það er ekki tilviljun að hörðustu gagnrýnisraddir í Evrópu komi frá Matteo Salvini í Ítalíu og Marine Le Pen í Frakklandi. Þessir aðilar hafa um langt árabil stutt Putin og lýst aðdáun sinni á honum. Evrópusambandið dregur mátt úr einræðistilburðum fólks af þessu tagi.
Hlutverk sem samfélagsskipuleggjandi. Evrópusambandið tekur nú forystu í aðgerðum til að takast á við loftlagsvandann. Markmið ESB í þeim efnum eru mun metnaðarfyllri en Noregs. Framlag ESB á svið loftslagsmálanna, „green new deal“, opinberar þær breytingar sem orðið hafa á stefnumiðum ESB. ESB tekur hlutverk sitt sem samfélagsskipuleggjandi alvarlega með því að ýta undir þróun grænnar starfsemi og atvinnutækifæra.
Hlutverk ESB sem reglugefandi aðili er sífellt mikilvægara. Reglur ESB um persónuvernd, GDPR, General Data Protection Regulation) en þegar hluti af norska regluverkinu.
Stefna ESB í samkeppnismálum er mun virkari en stefna USA t.d. gagnvart alþjóðlegum gagna- og tæknifyrirtækjum. Samkeppnisreglur ESB eru mun meira takmarkandi gagnvart ágengni þessara fyrirtækja og veita þegar norskum neytendum og norskum fyrirtækjum vernd og skjól sem ella væri ekki til staðar.
Lagar sig að breyttum þörfum aðildarríkjanna
Það þarf að ræða Evrópusambandstengingu Noregs vegna þess að Evrópusambandið er í breytingu. Bretar stóðu í vegi framsækinna félagslegra aðgerða á vegum ESB um árabil. Þeir hafa nú horfið af vettvangi. Það veldur bresku verkalýðshreyfingunni miklu angri vegna þess að breskt verkafólk nýtur nú ekki ýmissa réttinda og lagaboða sem áður var því skjól.
Við þurfum að vera opin gagnvart þeim pólitísku möguleikum og pólitísku breytingarmöguleikum sem eru til staðar í ESB. Aðferðafræði fyrir háttvísi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins sem kennd er við Osló mun nú verða tekin upp um allan Noreg. Góðar lausnir sem upphaflega voru þróaðar fyrir eitt bæjarfélag skal yfirfært á allt landið. En þorum við að hugsa í stærri skala? Er ekki hægt að velta fyrir sér yfirfærslu fyrir Evrópu í heild sinni?
Hvaða hindranir eru nú, 2022, í vegi þess að nota ESB sem framsækið verkfæri til að raungera framsækin félagsleg stefnumál? Það er fullt mögulegt að hugmyndin um norræna líkanið verði leiðarljós innan ESB.
Hin svokallaða félagslega vídd hefur verið til umfjöllunar innan ESB síðustu árin. ESB hefur sett sér metnaðarfull markmið á því sviði fram til ársins 2030. Það skapar nýja möguleika. ESB endurspeglar vilja aðildarlandanna og breytist í takt við breytingar á vilja þeirra. Og innan ESB er tekist á um stefnumál og möguleiki fyrir aðildarlöndin að ná fram með áherslumál sín.
Besta viðbragðið við mörgum áskorunum
Við sem stöndum í stafni í stjórnmálum verðum að hafa kjark til að hefja umræðu um mál þegar umræðunnar er þörf. En eins og staðan er núna láta norskir stjórnmálamenn hjá líða að ræða stórar, afgerandi ákvarðanir sem verið er að taka í Evrópu og munu móta Noreg um ókomna tíð. Afsökun stjórnmálamannanna er að Noregur hafi mjög litla möguleika á að hafa áhrif á þróunina. Norskir fjölmiðlar fjalla lítið sem ekkert um umræðuna sem á sér stað í Evrópu um þessi ógnarstóru verkefni.
Við verðum að viðurkenna að Evrópa er að breytast og þróast og Noregur situr á margan hátt á eftir.
ESB er augljóslega besta svarið sem við höfum gagnvart hættum sem steðja að friði og lýðræði. ESB er líka besta svarið sem við höfum gagnvart mörgum þeirra áskorana sem norskt samfélag stendur frammi fyrir og getur ekki leyst eitt og sér.
Vinstriflokkarnir, SV og Rödt (samsvarar VG og Sósíalistaflokknum á Íslandi) hafa sett sér metnaðarfull markmið á mörgum sviðum og tala af hita um alþjóðlegt samstarf. En staðreyndin er að norrænt varnarbandalag sem ekki er til mun ekki tryggja varnar- og öryggismál í því hættulega heimsástandi sem nú ríkir. Sameinuðu þjóðirnar munu ekki leysa loftslagsvandann. Á báðum þessum sviðum er ESB til staðar með virkar lausnir.
Styrjöldin í Úkraínu hefur breytt sýn margra á hvað er mikilvægt í alþjóðasamvinnu og hvað eru raunhæf markmið í því samhengi. Við, í Noregi, verðum að taka tillit til þess að veröldin er breytt, að Evrópa er breytt.
Það eru örugglega margar veigamiklar og góðar ástæður sem hægt er að setja fram til rökstyðja að Noregur eigi ekki að vera meðlimur í ESB. En eru þær ástæður nægjanlega veigamiklar og nægjanlega góðar?
Höfundur er fulltrúi Verkamannaflokksins í borgarstjórn Oslóar. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, þýddi.