Það eru óveðursský á lofti. Hernaði Rússa í Úkraínu linnir ekki, friðarviðræðum miðar hægt og brjálaðir menn með kjarnorkuvopn halda heiminum í heljargreipum. Það er full ástæða til að ræða öryggi þjóðarinnar, ekki bara varnir gegn hernaði heldur líka fæðuöryggi hennar. Hver er staða fæðuöryggis okkar ef allt fer á versta veg og styrjöld brýst út í Evrópu?
Í ljósi sögunnar
Undir lok fyrri heimsstyrjaldar var landlægur skortur á nauðsynjum. Þar spilaði inn í að spænska veikin reið yfir heiminn og frostaveturinn mikli lokaði á sama tíma siglingaleiðum til Íslands. Þrengingarnar lýstu sér ekki eingöngu í skorti á matvælum heldur einnig kolum og öðru eldsneyti.
Í síðari heimsstyrjöld var mannfall mikið þegar kafbátar nasista sökktu bæði fiskveiðiskipum og flutningaskipum. Þrátt fyrir það voru afleiðingarnar blessunarlega ekki slíkar að fæðuöryggi Íslendinga hafi verið ógnað.
Þessi yfirvofandi ógn um einangrun og hungursneyð er þó ekki séríslensk. Í styrjöldum síðustu aldar réðust herir líka á landflutningaleiðir nágrannaríkja okkar og óttinn við skort var jafn raunverulegur þar og hann var hér. Öll lönd eru háð flutningum og engin Vesturlandaþjóð er sjálfri sér næg.
Innlend framleiðsla er háð öruggum flutningum
Ef vöruflutningar til Íslands myndu stöðvast til lengri tíma er nær öruggt að við þyrftum að þola mikinn vöruskort. Ekki aðeins vegna þess að við gætum ekki flutt inn erlend matvæli heldur vegna þess að bæði landbúnaðurinn okkar og fiskveiði eru háð olíu, tækjum og öðrum aðföngum erlendis frá. Innlend matvælaframleiðsla treystir á stöðuga og örugga flutninga milli landa.
Án opinna flutningaleiða myndu olíubirgðir þjóðarinnar að endingu tæmast. Traktorar stæðu kyrrir á heimreiðum og togarar við bryggju. Við gætum verið heppin og átt 90 daga birgðir eða óheppin með birgðastöðu í lágmarki. Við gætum verið sérstaklega óheppin og misst stóran hluta heyskaparins.
Þrátt fyrir allt tal um hvað stuðningur við íslenska matvælaframleiðslu sé mikilvægur til að tryggja fæðuöryggi okkar þá er raunveruleikinn sá að henni væru allar bjargir bannaðar ef flutningar til landsins legðust af.
Þar af leiðandi getum við fullyrt að verndartollar, ríkisstyrkir og höft gera lítið til að tryggja fæðuöryggi okkar. Það sem helst áorkast með þeim er að hækka hér matarverð, öllum neytendum til óhags.
Hvaða framleiðsla hefur burði til að vera sjálfbær?
Ef markmið stjórnvalda er að auka hér fæðuöryggi þá þarf að horfa til þeirrar matvælaframleiðslu sem er raunverulega sjálfbær. Ylrækt á grænmeti og prótínframleiðsla úr jurtaríkinu getur mettað margfalt fleiri íbúa en hefðbundin kjöt- og fiskframleiðsla ef Ísland einangrast frá umheiminum.
Augljóslega er matjurtaræktun einnig háð tækjum og aðföngum erlendis frá. Eins og staðan er núna treystir hún mjög á innfluttan tilbúinn áburð. Án hans áætlar Matvælastofnun að uppskera minnki strax á fyrsta ári um 25-35%. Aftur á móti eru spennandi nýsköpunarverkefni í gangi sem geta gert það að raunhæfum möguleika að framleiða áburð heima á búum.
Ef stuðningur við matvælaframleiðslu er undir formerkjum fæðuöryggis þá er augljóst að það ætti að færa hann allan til þeirrar framleiðslu sem nýtir rafmagn en ekki olíu og hefur burði til að vera sjálfbær til lengri tíma.
Hlutverk Evrópu
Til allrar hamingju er ólíklegt að vöruflutningar til Íslands stöðvist. Gríðarlegar samgöngubætur hafa orðið á síðustu 100 árum og nær óhugsandi að skortur eins og þjóðin upplifði 1918 muni endurtaka sig.
Þess vegna verður fæðuöryggi þjóðarinnar best tryggt með frjálsum og haftalausum viðskiptum milli ríkja. Besta verkfæri okkar í þeim efnum er í dag samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Hann er hornsteinn í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og tryggir okkur greiðan aðgang að erlendum mörkuðum með matvæli og aðrar nauðsynjar. Hann er líka aðgöngumiði okkar að Evrópusambandinu og umfangsmiklum aðgerðum þess til að stuðla að auknu fæðuöryggi í heiminum.
Erlendis snýst umræðan um fæðuöryggi nefnilega minna um það hvernig hver þjóð geti þreytt þorrann óháð öðrum. Hún snýst fyrst og fremst um það hvernig stuðlað verði að uppbyggingu á þeim svæðum sem búa við skort og hvernig sé hægt að tryggja örugga flutninga á neyðartímum. Evrópsk samvinna skiptir hér lykilmáli.
Ef allt fer á versta veg er hið minnsta ljóst að meiri hluti umræðunnar um fæðuöryggi hér á landi hefur verið á villigötum.
Höfundur er aðstoðarmaður þingflokks Viðreisnar.