Þeir eru vaknaðir … nei … þetta á ekki að orða svona því þeir sofa aldrei; þeir eru á varðbergi. Og eru í Varðbergi, félagi sem á heimasíðu heitir Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Eðlilega eru þeir óttaslegnir vegna yfirgangs Pútíns í Úkraínu og hugsanlegra afleiðinga þess ofbeldis á heimsbyggðina. Og þeir, Varðbergsmenn, eru með í breiðri samstöðu félaga og hreyfinga á Íslandi og vítt um heim sem mótmæla yfirgangi Pútíns og leita leiða til þess að stöðva hann.
En.
Hræðsla virkar á marga vegu og vekur ýmsar kenndir svo sem varnarhug og sókndirfsku. Varnarhugur getur hvatt til samvinnu við aðra til að hrinda voðanum. Sókndirfskan espar hins vegar til ráðagerða um að fita sjálfan sig, efla sig heitir það víst; að efla sjálfan sig.
Einn öflugasti Varðbergsmaðurinn, Björn Bjarnason, fyrrverandi hitt og þetta skrifar í einni af daglegum ritgerðum sínum á bjorn. is um nauðsyn þess að „hér verði til hugveita eða fræðilegur vettvangur „sem sinnir rýni á öryggis- og varnarmálum“ svo að vitnað sé í orð Óla Björns Kárasonar ( formanns þingflokks sjálfstæðismanna). „Til verði þekkingarsetur á þessu sviði þar sem nýtt sé menntun sérmenntaðra manna. Friðrik Jónsson sem sinnt hefur öryggis- og varnarmálum innan utanríkisþjónustunnar sat í Dagmála-þætti Morgunblaðsins með Óla Birni og tók undir þessi orð hans.”
Hinn ágæti fræðimaður, Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skrifar um fælingarmátt, og hefur visir.is eftur honum í dag, 06.03.´22:
„Mikilvægi fælingarstefnunnar gleymdist en hún var lykillinn að sigri vestrænna ríkja í kalda stríðinu. NATO-aðildin, varnarsamningurinn við Bandaríkin og föst viðvera varnarliðs var ætíð hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands. Fæla skyldi óvininn frá því að ráðast á landið og bregðast við þegar í stað ef kæmi til innrásar. Nú hefur rússneski björninn vaknað úr dvala. Það kallar á að látið verið af þeim tepruskap sem einkennir umræðuna um varnarmál hér á landi. Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands.“
Þeir eru sumsé komnir á fulla ferð, hræddu karlarnir í NATO, og leiða konu til vitnis um mátt orða sinna. Og vilja bjóða öllum að vera með sér. Fá her í landið. Öðlast fræðslu. Þeirra fræðslu. Broslegt er að þetta er sama aðgerð, að fræða almúgann, sama aðferð og Pútín brúkar núna eystra.
Af tilefninu skal þetta sagt:
Þegar mikið liggur við getur fólk unnið með nánast hverjum sem er að sameiginlegum mannúðar- hagsmuna- og áhugamálum. Jafnvel fólki sem því er í nöp við og er upp á kant við. Og það getur náð árangri, sameiginlega, þetta ólíka fólk. En það merkir ekki að þessar sömu mannverur ættu að búa saman, sofa saman og vakna saman, því þá rumskar oftar en ekki tortryggi af mörgum sökum, tillitsleysi, gremja og úlfúð, og vísast að þá vinnist ekki sigrar í neinum málum.
Látum því hvorki hræða yfir okkur heilaþvottaræður Varðbergs né fælingarmátt ameríska hersins með sínu hermangi og tvístraðri þjóð.
Höfundur er rithöfundur.