Þrátt fyrir að launafólk telji á sér brotið, sé mjög ósátt við kjör sín, réttindi, framferði atvinnurekenda á vinnumarkaði og ástandið í þjóðfélaginu þá gerist það lögbrjótar ef það mótmælir með vinnustöðvun eða verkföllum. Ef kjarasamningur hefur verið samþykktur og er í gildi, jafnvel í mörg ár, þá setur það bæði beisli og múl á hinar vinnandi stéttir. Það er nefnilega friðarskylda. Launafólk verður bara að sætta sig við nánast allt sem gerist á milli kjarasamninga. Þetta á líka við um atvinnurekendur en það reynir lítið á það. Því hvenær fara atvinnurekendur í verkföll? Ef það hefur komið fyrir þá er það svo sjaldgæft að ég efast um að einhver muni eftir því.
Verkalýðshreyfingin hefur sætt sig við þetta í áranna rás. Þegar hreyfingin var hætt að vera raunverulegt baráttutæki fyrir launafólk og í tengslum við þjóðarsáttarsamningana árið 1990 var fundið upp þetta nafn Friðarskylda til að merkja þetta valdaleysi launafólks með fallegum stimpli.
Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar núna í framhaldi af Covid hafa ekki spornað við því að þúsundir manna hafa misst vinnuna, búa við slæm lífsskilyrði og fátækt. Ég hef spurt verkalýðsforingja hinna ýmsu stéttarfélaga hvort verkalýðshreyfingin verði ekki að beita sér. Líka vegna þess að berlega hefur komið í ljós hversu verkalýðshreyfingin er valdalaus og höfð út á túni þegar teknar eru risastórar ákvarðanir sem varða afkomu launafólks. En svarið er að nú séu í gildi kjarasamningar og því friðarskylda og lítið hægt að beita sér.
Afstaða Alþýðusambandsins gagnvart friðarskyldu virðist jákvæð sem kemur mér á óvart. Á heimasíðu ASÍ segir: „Með kjarasamningum semja menn um kaup og kjör vinnandi fólks á hverjum tíma. Eitt mikilvægasta hlutverk þeirra er að skapa frið á vinnumarkaði og setja niður kjaradeilur. Kjarasamningar hafa stundum verið kallaðir friðarsamningar, og vísar það heiti sem festist við heildarkjarasamningana í febrúar 1990, þjóðarsáttarsamninganna, til þessa hlutverks.” Og á heimasíðu Ríkissáttasemjara er svipaður texti og sagt að friðarskyldan sé eitt mikilvægasta hlutverk kjarasamninga. Hugsið ykkur að þetta skuli standa á vef Ríkissáttasemjara. Maður skildi ætla að mikilvægasta hlutverk kjarasamninga sé að semja um kaup og kjör.
Eldgömul lög
Í 14. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur frá því 1938 er fjallað um heimildir til verkfalla og verkbanna. Þetta eru eldgömul lög og löngu tímabært að skoða hversu vel þau eiga við vinnumarkað samtímans. Atvik á vinnumarkaði síðustu ára, undirboð, launaþjófnaður, mannsal, vændi, húsnæðismál og fleira hafa sýnt að mjög erfitt er að verja kjör og réttindi sem þó hefur verið samið um.
Launagreiðandi getur jafnframt svipt launamann grundvallarréttindum með því að skapa ótta um röskun á ráðningarsambandi og jafnvel hótað brottrekstri. Því miður eru allt of mörg dæmi um svo slæma framkomu gagnvart launafólki að vart er hægt að túlka það öðruvísi en ofbeldi af hálfu eigenda og stjórnenda fyrirtækja og stofnanna. Bæði andlegt og líkamlegt. Það er ekkert til í regluverkinu sem veitir launafólki vörn gegn slíkri framkomu. Þetta er auðvita óþolandi ástand og verkalýðshreyfingunni til hnjóðs að hafa ekki gripið í tauma í þessu máli í þágu launafólks.
Ef upp koma ágreiningsmál meðan að kjarasamningur er í gildi er málum vísað til Félagsdóms. Þá er alveg heiglum hent hvernig niðurstaðan verður og venjulega er það svo að málin sem tekin eru fyrir, eru mál þar sem launafólk á að hafa brotið af sér. Friðaskyldan virðist því virka nær alfarið einhliða og verkalýðshreyfingin hlýtur að krefjast þess að hún verði endurskoðuð þannig að eitthvað réttlæti fáist fyrir launafólk. Enda byggir hún á hundgömlum lögum sem ætti að vera búið að endurskoða frá grunni fyrir löngu síðan eins og áður segir.
Atvinnurekendur með allan rétt
Ef atvinnurekandi stundar launaþjófnað gagnvart sínum starfsmönnum þá brjóta starfsmennirnir lög ef þeir neita að vinna við þær aðstæður og leggja niður vinnu. Atvinnurekandinn hefur allan rétt sín megin. Hann getur byrjað á því að beita ofbeldinu: „Ég segir þér upp starfinu ef þú vogar þér að vera með vesen og klaga í stéttarfélagið.“ Oft er það svo að heilu fjölskyldurnar vinna hjá sama atvinnurekandanum og eru jafnvel í húsnæði sem hann útvegar, þannig að staða starfsmannsins eru mjög veik og þarna er atvinnurekandinn að beita ofbeldi og kúgun ofan á launaþjófnaðinn. Og þó að starfsmaðurinn manni sig upp í að láta stéttarfélagið vita af launaþjófnaðinum þá gengur atvinnurekandinn sem sigurvegari frá borði því hann þarf í mesta lagi að greiða launaskuldina en ekkert meir. Engar fjársektir eða refsingar. Þetta þrífst allt í nafni friðarskyldu. Og þetta er bara eitt dæmi af ótal mörgum.
Að vísu mætti túlka þetta öðruvísi. Starfsmennirnir geta mætt til vinnu án þess að vera með neitt vinnuframlag en vera samt til taks, sem er nokkurs konar setuverkfall og gæti verið löglegt. Þetta er þó allt mjög loðið og alls óvíst að slíkt væri dæmt starfsmönnum í hag. Á vef ASÍ stendur: „Um þetta kunna þó að vera skiptar skoðanir en þar sem hér er ekki um verkfallsaðgerð að ræða heldur einungis að vinnuframlag er fellt niður verður að uppfylla aðrar skyldur. Sé einungis deila um einhvern hluta launa eða orlof verður að fara með þann ágreining eins og annan réttarágreining.” Og það stendur líka: „Sé aðeins óverulegur hluti launa ógreiddur er ekki heimilt að beita vinnustöðvun.” Oftast er launaþjófnaður einmitt um einhvern hluta af launagreiðslum.
Launafólk er í fjötrum friðarskyldu og verkalýðshreyfingin hefur samþykkt þetta fyrir sitt fólk með aðgerðaleysi sínu og viljaleysi til krefjast þeirra breytinga sem þarf til að frelsa fólk úr þessu fangelsi.
Höfundur er atvinnulífsfræðingur og félagi í Sósíalistaflokki Íslands.