Af og til vakna á ný umræður um tækifæri Íslendinga í siglingum milli heimsálfa um Norður-Íshaf og yfir Norðurskautið.
Á árinu 2005 gaf utanríkisráðuneytið út skýrslu sem hét „Fyrir stafni haf – Tækifæri tengd norðurslóðum“. Þar var gengið út frá því að tækifæri lægju í því að nota hafnir á Íslandi til að umskipa gámum sem kæmu með sérbyggðum skipum eftir Norðausturleið, sem liggur frá Austur-Asíu norðan Síberíu, í venjuleg skip til Evrópu, þó að Ísland sé alls ekki í stystu leið til meginlandshafna. Ísland var inni í myndinni vegna þess að með skipunum kæmu líka gámar til Bandaríkjanna sem yrði þá umskipað á Íslandi. Um það leyti höfðu stærstu gámaskip heims rúmlega 8.000 TEU-burðargetu. Nú hafa stærstu skipin nær þrisvar sinnum meiri burðargetu, og kostnaður og útblástur á hverja flutningseiningu er mun minni en áður.
Fljótlega varð ljóst að á þessum skipaleiðum væri ekki dýpi fyrir stærri skip en 5.000 TEU og þær væru því ekki samkeppnishæfar. Síðan hefur eiginlega aðeins eitt alvöru gámaskip farið þessa leið frá Asíu til Evrópu, Venta Maersk, sem ber 3.596 TEU, fór nýtt í gegnum Bering-sund 22. ágúst 2018, og síðan ekki meir.
Þá var sjónum um stund beint að möguleikum á siglingum yfir Norðurskautið þar sem ekki er dýpisvandi. Það eru hinsvegar áratugir í að leiðin verði fær, ef nokkurn tímann. Stærstu skipafélög heims voru sammála um að vegna hættu á umhverfistjóni yrði þessi leið ekki notuð í fyrirsjáanlegri framtíð. Jafnvel þótt hún yrði fær væri hætta á töfum slík að þessi leið kæmi aldrei í staðinn fyrir hefðbundna leið.
Á málþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1. júní 2009 um samgöngur, sérstaklega í Norður-Íshafi, var flutt erindi þar sem niðurstaðan var sú að hagræði við umskipun á Íslandi vegna Norðurskautssiglinga væri nær ekkert og mjög litlar líkur væru á að af yrði. Vitnað var í viðræður við gámaafgreiðslufyrirtækið Dubai World.
Frá 2014 hefur hafnargerð í Finnafirði verið í umræðunni sem umskipunarhöfn fyrir gáma sem koma frá Norðaustur-Asíu um Íshafið, eða yfir norðurskautið, og eiga að skiptast á milli austurstrandar Bandaríkjanna og Evrópu. Hugmyndin þótti ekki afar trúverðug, en af og til er hún vakin upp, kannski til að halda lífi í möguleikum á að gera höfn í Finnafirði. Með í upphaflegri kynningu var umskipun á bílum og hrávöru. Hvers vegna, hvaðan og hvert er óljóst. Hins vegar rekur höfnin í Bremen, sem er að minnsta kosti ráðgjafi við verkefnið, fyrirtaks umskipunar- og flutningaþjónustu fyrir bíla í Bremen.
Í þessa umræðu alla hefur vantað nokkur mikilvæg atriði sem hér verða talin:
- Áhugamenn um þessar siglingar þurfa að skýra hvers vegna viðkoma á Íslandi sé betri kostur en aðrir, þó að landið sé nokkuð úr stystu leið hvort sem farið er um Íshafið eða yfir norðurskautið.
- Hvaða hagkvæmni væri í að umskipa á einhverjum stað, hvort sem höfnin væri á Íslandi, í Noregi, Rússland eða í höfn í Longyearbyen á Svalbarða, 1.300 km frá Norðurskautinu? Umskipun tefur flutning um minnst tvo daga auk tafar vegna siglingar frá og að stystu leið. Finnafjörður er í um 1.000 sjómílna fjarlægð frá Rotterdam, sem er tveggja og hálfs sólarhrings sigling. Ef skipið færi um Noregshaf og Norðursjó beint til Rotterdam kæmi það þangað áður en búið væri að umskipa í Finnafirði. Til að afgreiða tvö MegaMax-skip (eitt af þeim er hið fræga Ever Given, sem ber 20.124 TEU) og fjögur 12 þúsund TEU-skip samtímis þarf 2,5 km langan hafnarbakka og 36 gámakrana ásamt gámavallatækjum. Þetta kostar vel yfir 600 milljónir dollara. Þessi búnaður yrði mjög sjálfvirkur og veitti til þess að gera fáum atvinnu. Fyrir svona mikla fjárfestingu þarf að hafa öruggar tekjur hverja einustu viku í 20 ár.
- Hefur einhver orðið var við áhuga einhvers skipafélags á þessari lausn? Þetta er jú búið að vera í umræðunni í tvo áratugi eða svo. Núna þegar Súes-skurðurinn lokaðist í viku þótti forystumönnum næststærsta skipafélag heims, MSC, rétt að árétta að þeir mundu ekki taka þátt í neinum siglingum um Norðurslóðir. Önnur skipafélög hafa áður sagt það sama.
- Gámaskipið sem lenti í sandi í Súesskurði, Ever Given, er eins og áður segir MegaMax-skip. Þau eru stærri en 18.000 TEU (allt að 24.000 TEU), og 400 metra löng. 100 skip af þessari stærð voru í notkun í ársbyrjun 2020 og er ekki langt í að í þessum flota verði yfir 200 skip. Elstu skipin af þessari stærð eru 8 ára gömul. Síðustu 6 mánuði hafa bæst við smíðapantanir fyrir 29 skip, sem öll eru að minnsta kosti 15% stærri en Ever Given. Þá eru mjög mörg skip með um 15.500 TEU-burðargetu í pöntun. Þau eru um 360 metra löng og komast um Panamaskurð. Þessi floti dugir vel fram undir 2050. Er eitthvað sem bendir til að menn vilji frekar veðja á siglingar með dýrari og orkufrekari skipum norður fyrir Síberíu eða yfir norðurskautið?
- Eru atvik eins og tímabundið strand Ever Given algeng? Svarið er neikvætt. Súesskurðurinn er 193 km á lengd og á yfir 40% skurðarins eru aðskildar siglingaleiðir. Sjálfsagt verður nú lögð áhersla á að tvöfalda lengri hluta leiðarinnar. Áhætta af atviki eins og Ever Given lenti í er vel kunn, og er ein af þremur hlutum leiðanna frá Austur-Asíu til Evrópu og Bandaríkjanna sem talin eru viðkvæm fyrir röskun. Hin eru Panamaskurður og Malakkasund nærri Singapore. Það hafa lengi verið uppi áætlanir um að stytta leiðina milli Austur-Asíu og Evrópu með 102 kílómetra skurði, Kra-skurðinum svokallaða, um Taíland. Hann lægi vel fyrir norðan Malakkasundið, og mundi stytta leiðina milli Austur-Asíu og Evrópu um 650 sjómílur. Það styttir siglinguna um rúman sólarhring.
Hvatinn að verkefninu er að stytta leiðina og losna við áhættu í Malakkasundi. Hins vegar eru allir sem hafa tjáð sig sammála um að hætta á röskun á leiðinni norður fyrir sé svo mikil að ekki sé vit í að leggja vinnu í slíkar pælingar.
Þá komum við aftur að Finnafirði. Talsmenn þessa verkefnis eru enn að tala um að þarna geti orðið umskipun til austurs og vestur. Á undanförnum árum hefur verið unnið stórvirki við að dýpka aðkomu að stærri höfnum á austurströnd Bandaríkjanna. Þær geta brátt afgreitt að minnsta kosti 15.500 TEU-skip og sumar geta afgreitt MegaMax. Af hverju ættu menn að vilja umskipa, væntanlega í minni skip?
Í umræðum um möguleika Finnafjarðar hefur margt verið tínt til, en núna er talað um vetnisframleiðslu.
Ekki hefur enn verið minnst á möguleikann á birgða- og viðgerðarstöð fyrir herskip sem gætu átt leið þar um. Ég vona að mönnum detti ekkert slíkt í hug, þótt með þeim hætti gæti skapast eftirspurn eftir góðri aðstöðu – hugsanlega fyrir einu skipin í sjónmáli fyrir Finnafjarðarhöfn.
Hér með er lagt til að talsmenn þessarar fjárfestingar komi með trúverðuga viðskiptaáætlun áður en nokkrum nýjum fjármunum opinberra aðila verður veitt í verkefnið.
Höfundur er hagfræðingur og sérfræðingur í flutningum.