Það er mikilvægt að friður ríki í landinu um sjávarútveginn. Atvinnugreinin á það skilið að almenningur hafi vinsamlega afstöðu til fyrirtækjanna og áhuga á góðum árangri. En almenningur veit fullvel að þjóðin er eigandi sjávarauðlindanna, og fólk hefur sterkar skoðanir á þessum málum.
Því miður nær frumvarp forsætisráðherra um auðlindamál í stjórnarskrá ekki þeim lágmarkskröfum sem gera verður. Frumvarpið kveður ekki á um tímabundinn afnotarétt, en ótímabundinn afnotaréttur jafngildir einkaeign. Í annan stað gerir frumvarpið ekki skýrum orðum ráð fyrir fullu gjaldi fyrir þessi afnot. Frumvarpið er greinilega tilraun til málamiðlunar, en forsætisráðherra hefur teygt sig of langt til að ná stuðningi þeirra stjórnmálamanna sem hræðast afskipti stórútgerðarinnar. Og flest bendir til þess að tillöguna dagi uppi.
Stærsta útgerðarfyrirtæki landsins liggur undir átölum og kærum fyrir misferli og beitir fantabrögðum í skiptum við fjölmiðla. Haldi þetta áfram breytist afstaða þjóðarinnar á versta veg, frá því að styðja útgerðina og fiskveiðistjórnarkerfið yfir í harða andstöðu. En við þurfum að skapa frið, samstöðu og stuðning við sjávarútveginn.
Á Íslandi eru þrjú fiskveiðistjórnarkerfi: byggðakvóti, strandveiðar, almenna kvótakerfið.
Segja má að almenna kvótakerfið skiptist í tvennt: kerfið eins og það birtist úti á miðunum, og hins vegar úthlutunar- og greiðsluþáttur kerfisins. Fiskimiðaparturinn er í stöðugri þróun og aðlögun að aðstæðum og þörfum og hefur mótað hér einhvern árangursríkasta og sjálfbærasta sjávarútveg veraldar.
Margt kemur til skoðunar, þessi atriði meðal annarra:
a) Meginregla verði gegnsæi, jafnræði, aðgengi, og öll viðskipti verði á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi. Meðal annars verða fullkomnar upplýsingar jafnan að liggja fyrir um alla eigendur fyrirtækja og um ráðandi viðskiptatengsl þeirra. Þessa reglu þarf að staðfesta í lögum og öllum framkvæmdarreglum.
b) Aflahlutdeild hefur hingað til verið tengd skipi sem hefur gilt veiðileyfi. Væntanlega vilja langflestir halda þessari reglu, en skoða ber aðstöðu sjávarbyggða til að eignast hlut í skipum, til þess að tryggja byggðina sem best.
c) Hámark aflaheimilda útgerðar og tengdra aðila er nú 12% af heildaraflaheimildum, nánar skipt eftir tegundum. Væntanlega vilja fáir hækka þetta hámark. Hámarkið merkir, í ýktu dæmi, að 9 útgerðir gætu setið einar að öllum aflaheimildum. Aftur á móti er rétt að ræða þetta, meðal annars vegna alþjóðlegrar samkeppnisstöðu. En þrátt fyrir tillit til alþjóðlegrar samkeppnisstöðu verður það að hafa forgang að hindra að fyrirtæki verði of máttugt eða of valdsækið hér heima. Því þurfa heimildir að vera fyrir hendi um uppskiptingu fyrirtækis.
d) Endurskoða þarf reglur um innbyrðis-tengsl útgerðarfyrirtækja, og um tengda aðila. Þau geta meðal annars iðkað samráð í sameiginlegum dótturfyrirtækjum og með eignarhluta í öðrum útgerðum. Og þau geta náð saman í fyrirtækjum á sölusviði erlendis. Brögð hafa verið að þessu öllu, einkum til að seilast eftir meiri aflaheimildum. Ástæður eru til að ætla að ásæknir útgerðarmenn hafi lagt á ráð um að komast framhjá gildandi reglum. Koma verður í veg fyrir slíkt.
e) Skoða þarf hugmyndir um reglur um gegnsætt eignarhald, dreift eignarhald og skráningu á kauphöll, og hvort og hvernig þetta gæti tengst heimildum til stærri aflahlutdeildar.
f) Reglur kveða á um hámark á eignaraðild útlendinga og erlendra fyrirtækja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hámarkið er 25% bein eignaraðild og til viðbótar 24,9% óbein, gegnum annað íslenskt fyrirtæki. Fáir munu vilja hækka þetta hámark, en nýlega birtust fregnir um að Norðmenn hafa lægra hámark. Auk þess hafa Norðmenn reglur sem gera stjórnvöldum kleift að hindra aðkomu fyrirtækja sem hafa áunnið sér illt orðspor. Þetta þarf að skoða hér.
g) En önnur hlið er á þessu máli. Verið getur að íslenskt fyrirtæki eigi í útgerð erlendis. Hvað vita menn þá um ráðandi tengsl? Hvor armurinn ræður yfir hinum? Hvar eru sterkustu hagsmunirnir og fylkingarbrjóst samsteypunnar? Formlega getur það heitið svo að íslenskt fyrirtæki eigi annað fyrirtæki erlendis, og kallar það dótturfyrirtæki, en framleiðsluheildin er sameinuð og þá má svo vera að rekstrareining ytra verði öllu ráðandi í reynd. Þetta þarf að skoða og tryggja nægilega aðgreiningu í slíkri samsteypu. Það er ótækt að erlendir hagsmunir og völd laumist þannig inn í landhelgi Íslands.
h) Ástæða er til að endurmeta reglur um tilfærslur aflaheimilda milli byggða og sveitarfélaga og styrkja þær. Viðurkenna ber og staðfesta þátt fiskveiðistjórnunar í byggðaþróun og byggðarfestu. Skilgreina þarf á ný hagræn tengsl útgerðar við heimahöfn og styrkja þau. Þetta ber að gera með eðlilegu tilliti til strandveiða og byggðakvóta.
i) Setja verður þá reglu að engin lokuð viðskipti útgerðarmanna með aflahlutdeildir sín í millum eigi sér stað. Öll viðskipti verði á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi og lúti reglum um jafnræði um tilboð, um aðgengi og um gegnsæi.
j) Gera verður ráð fyrir að fyrirtæki nýti sjálft allar þær aflahlutdeildir sem því eru fengnar. Engin útleiga aflaheimilda á að eiga sér stað. Allt slíkt á að fara fram á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi með jafnræði, aðgengi og gegnsæi.
k) Greinilega er orðið tímabært að tryggja að aflaheimildir í afnotum útgerðarfyrirtækja verði ekki taldar arfgengar í fjölskyldum útgerðarmanna. Það getur reynst snúið að taka á þessu, en hjá því verður ekki komist. Ef til vill nægir að festa í stjórnarskrá og lögum að afnot aflaheimilda séu tímabundin, en þetta er greinilega þáttur sem þarf rækilega skoðun og málefnalega afgreiðslu. En þetta ýtir enn á eftir því að skýr ákvæði verði sett í stjórnarskrá um eign þjóðarinnar og aðeins tímabundin afnot fyrirtækja af henni.
l) Endurskoða verður reglur um uppgjör og reikningsskil við lok fiskveiðiárs. Allir aðilar verða að sæta sömu reglum á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi, með gegnsæi í augsýn almennings. Almenningur verður að geta séð og metið árangur atvinnvegarins, með sameiginlegri almennri mælistiku. Af þessu kann að leiða kröfur um sérgreiningu síðari áfanga virðiskeðjunnar, að útflutningur og sölustarfsemi verði greind frá. Og þá verða flóknar spurningar um verðlagningu í reikningsskilum fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar. En þetta verður að leysa. Veiðar eru eitt og sölustarfsemi annað. Ef þetta er í einu og sama fyrirtækinu þarf að móta reikningsskilareglur sem aðgreina áfangana með málefnalegum hætti, og gera ráð fyrir nauðsynlegri aðgreiningu deilda. Það er óþolandi að grunur leiki á því að fyrirtæki, ekki síst ef það flytur afurðirnar sjálft út, hafi milliverðlagningu deilda með þeim hætti að arðurinn skili sér að miklu eða jafnvel öllu leyti erlendis, t.d. þar sem skattar eru lægri en hér. Almenningur er farinn að fylgjast með þessu og þetta verður ekki þolað í samfélaginu.
m) Ráðstöfun afnota aflaheimilda til útgerðarfyrirtækja verður að vera ótvírætt og vafalaust tímabundin með skýrum hætti, tiltekin til bundins árafjölda hverju sinni. Samningar um úthlutun aflaheimilda þurfa að miðast við stöðugleika og jafnvægi. Þá er tiltækt að aðeins nokkur hluti heildar-aflaheimilda komi til ráðstöfunar í senn. Tilgreina verður hlutfall aflaheimilda sem koma til innköllunar og endur-úthlutunar á hverju ári.
n) Vera má að nýtilegt hlutfall verði 12,5% aflaheimilda hvers fyrirtækis. Þessar heimildir ganga þá síðan á sameiginlegt opinbert upplýsingatorg á hverju ári, eru þar boðnar aftur út, samkvæmt aðstæðum jafnræðis, aðgengis og gegnsæis.
o) Verði 12,5% að ráði er afnotatími aflaheimilda 8 ár. Þá má álykta að fyrirtækið hafi hverju sinni 6 - 7 ár í öryggi með þær aflaheimildir sem úthlutað hefur verið áður. Þá greiða fyrirtækin fyrir á hverju ári, á verði sem ákvarðað hefur verið með tilliti til tímanlegra aðstæðna. Sveiflur í þessu verða þá tiltölulega minni en ella, og fyrirtækið stendur ekki frammi fyrir óvæntum umskiptum af ástæðum sem það hefur engin tök á eða stöðu til að bregðast við í tíma. Hér er þá tiltölulegur stöðugleiki, fyrirsjáanlegar rekstrarhorfur og svigrúm. Afnot aflaheimilda eru þá samkvæmt eignarhaldi þjóðarinnar, með gegnsæi, aðgengi og jafnræði.
p) En ákvarðanir um fjárhæðir veiðigjalda á hverju ári eru vandasamt og flókið verkefni. Auk kostnaðar við rannsóknir, umsýslu og eftirlit koma margir aðrir þættir að þessu máli. Ýmsar skorður eru við mótun veiðigjalda, sbr. einkum liði b), c), f), og h) hér framar. Og mikilvægt er að gæta þess að í ákvörðun hverju sinni verði nægilegur hvati til framleiðniaukningar, hagræðingar, gæðastjórnunar og frumkvæðis. Ákvarðanir um veiðigjöld verði færðar í áföngum á nokkrum árum yfir í útboð, tilboð fyrirtækjanna og markaðsverð á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi, innan þess ramma sem skorður setja. Vafalaust verður að endurskoða aðferðir og reglur stig af stigi með fenginni reynslu, og þá skiptir máli að hafa samráð við hagsmunaaðila.
q) Þrátt fyrir þessar reglur um aðgengi, gegnsæi og jafnræði verður staða starfandi útgerðarfyrirtækja ævinlega yfirburðasterk á þessu sameiginlega opinbera upplýsingatorgi. Óhjákvæmilegt verður því að setja einhverjar þær reglur sem gera aðgengi annarra, t.d. nýliða, meira en orðin tóm.
r) Framundan eru margs konar ákvarðanir og kostnaðarauki vegna umhverfismála og áhrifa sjávarútvegsins á umhverfið. Þetta verða jafnvel þungar byrðar sem leggjast á útgerðarfyrirtækin. Eðlilega verður að taka tillit til þessa og tryggja metnaðarfulla þátttöku atvinnuvegarins í þessari framvindu.
s) Loks verður að tryggja að viðurlög séu virk við brotum gegn lögum um stjórn fiskveiða, skv. VI kafla laganna nr. 116 frá 10. 8. 2006. Þar á meðal eru ákvæði um sviptingu veiðileyfis.
--- --- ---
Hækkun veiðigjalda er ekki sjálfstætt markmið. Enda þótt veiðigjöld séu aðfangakostnaður, í grunninn tiltölulega fast hrávöruverð, er ekki óeðlilegt að eitthvert tillit verði meðal annars tekið til stöðu atvinnuvegarins, til fjárfestinga og samkeppnisstöðu hans á mörkuðum. Og þetta á að vera tryggt með því að verðið myndist einmitt við útboð og síðan tilboð fyrirtækjanna sjálfra á markaði upplýsingatorgs.
Almenningur verður að geta séð, greint og metið hvernig veiðigjöldin eru ákvörðuð. Það er ótækt fyrir sjávarútveginn að úti um allt þjóðfélagið séu dylgjur og ásakanir um auðsöfnun, rentusókn og forréttindi í afnotum af auðlindum þjóðarinnar. Smátt og smátt grefur slík óánægja um sig og verður aðeins til ills.
Ennþá verra er að fótur sé fyrir illmælinu. Það er óþolandi fyrir atvinnuveginn að því sé almennt trúað að stórútgerðarmenn hafi nýtt sér rentuna af auðlindum þjóðarinnar til eignasöfnunar, meðal annars í fyrirtækjum á öðrum sviðum atvinnulífsins. Sjávarútvegsfyrirtækin eiga að greiða eðlileg veiðigjöld þannig að ekki verði um neinn ofurhagnað, auðlindarentu, að ræða, þegar sveiflur milli ára eru metnar saman. Útgerðin á að geta tryggt sér sambærilegan og jafntraustan fjárhag sem önnur vel og skynsamlega rekin fyrirtæki. En þjóðin á að njóta milliliðalaust alls þess sem umfram verður.
Ef málefnalega verður tekið á þeim þáttum sem hér eru nefndir verða breytingarnar sjávarútveginum til eflingar, styrkja og treysta stöðu fyrirtækjanna, með gegnsæi, aðgengi og jafnræði á sameiginlegu opinberu upplýsingatorgi. Þá verða líka virkar varnir gegn misbeitingu valds sem stafar af auðlindum sem eru eign þjóðarinnar en ekki stórútgerðarmanna og auðmanna.
Þá verður friður og almennur stuðningur við atvinnugreinina og áhugi þjóðarinnar vex á velgengni glæsilegra og vel rekinna sjávarútvegsfyrirtækja.
Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.