Þegar strandveiðivertíðin í ár var rúmlega hálfnuð fór að heyrast kunnuglegt stef sem er endurtekið árlega. Stefið hljómar þannig að aflaheimildir dugi ekki til og afleiðingin verður stöðvun veiða löngu áður en tímabilinu lýkur. Þannig lauk strandveiðunum í síðustu viku þegar þriðjungur var eftir af veiðitímabilinu. Ár eftir ár þarf strandveiðiflotinn að bíða eftir ákvörðunartöku ráðherra, sem yfirleitt ákveður sig ekki fyrr en á síðustu stundu. Strandveiðarnar – sem eru í grunnin einstaklega gott kerfi – virka ekki sem skyldi þar sem brotalamirnar í kerfinu eru margar. Berskjaldaðir og varnarlausir standa trillukarlar frammi fyrir endalausu skítamixi og reddingum sem einkennir ákvarðanatöku stjórnvalda. Það að gera sig kláran fyrir vertíð sem maður veit ekkert hvernig endar krefst stáltauga enda miklum fjármunum varið í undirbúning.
Þessi óvissa stafar fyrst og fremst af viljaleysi stjórnvalda til að festa kerfið í sessi. Þó er það í raun stórfurðulegt að það hafi ekki þegar verið gert, því strandveiðarnar hafa að sannað gildi sitt og rökin fyrir styrkingu kerfisins eru ótvíræð. Í grunninn eru það fjögur grundvallaratriði sem gera strandveiðarnar að sérstaklega aðlaðandi valkosti:
1. Umhverfissjónarmið
Strandveiðar eru umhverfisvænustu veiðarnar, hvort sem litið er til kolefnisspors (olíunotkun er brot af því sem togarar brenna), röskunar á lífríki sjávar (aðeins 2,5 kílógramma stálsakka snertir botninn), eða plastmengunar (töpuð veiðarfæri einskorðast við stálsökkur og u.þ.b. hálfan metra af nælonspotta, og ef til vill stöku krók). Með smávægilegum breytingum á kerfinu má gera það enn umhverfisvænna. Til dæmis væri hægt að minnka olíunotkun til muna ef landa mætti sama magni á færri dögum og fækka þannig veiðiferðum.
2. Gæðasjónarmið
Afli strandveiða er fyrsta flokks vara sem er afar eftirsótt um allan heim. Þrjú atriði gera aflann sérstaklega verðmætan. Í fyrsta lagi er öllum afla landað samdægurs. Þegar vel þróað kerfi tekur við aflanum í höfn er fullunnin afurð komin á disk neytenda á skömmum tíma, þar með talið í Evrópu og Bandaríkjunum. Verðmæti fisks rýrnar tiltölulega hratt – því ferskari sem hann er, þeim mun verðmætari er hann. Í öðru lagi er meðferð fisksins góð þar sem að hann er ekki kraminn, hann er blóðgaður um leið og hann er dreginn úr sjó, og ekki þarf að frysta hann. Í þriðja lagi þá verður krafan um vistvænar og félagslega ábyrgar vörur æ háværari með hverju ári. Hér vegur umhverfissjónarmiðið þungt, en ekki síður byggða- og sjálfstæðissjónarmiðin. Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, orðar það þannig: „Einyrkinn með gogginn er ljósmynd sem helstu netsölufyrirtæki heimsins á ferskum fiski vilja á heimasíður sínar.“
Með styrkingu kerfisins mætti auka gæði enn frekar. Óheimilt er að veiða á föstudögum, laugardögum, sunnudögum og rauðum dögum. Strandveiðimönnum er því þröngur stakkur sniðinn, og margir freistast til að róa þegar veður er ekki hagstætt. Þá sækja menn frekar mið nálægt landi, þar sem fiskur er oft smærri og verðminni. Eins og segir í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta, þá „geta veður, önnur atvinna, fjölskylduaðstæður og fleiri þættir verið með þeim hætti að mun hagstæðara sé fyrir eiganda fiskiskips að stunda veiðar á þessum dögum. Óþarft virðist að löggjafarvaldið takmarki hvaða daga eigandi fiskiskips nýtir til strandveiða.“ Trillukörlum væri þar með frjálst að róa þegar veður er best og sækja stærsta og verðmætasta fiskinn.
3. Byggðasjónarmið:
Strandveiðar eru mikilvægur liður í því styrkja brothættar byggðir og glæða sjávarpláss lífi á ný. Þær eru engin töfralausn, en eiga hiklaust að leika stórt hlutverk í stefnumótun ríkisins í byggðamálum.
Kosturinn við strandveiðar er að þær eru alfarið sjálfsprottin grasrótarlausn á byggðavandanum.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, hefur sagt að það að treysta byggðir í landinu sé „í sjálfu sér ekki sjálfstætt markmið, og mér finnst það að vissu leiti ósanngjörn umræða þegar þannig er talað að það sé á ábyrgð atvinnugreinarinnar að treysta byggð í landinu, ef að það er ekki gert þá þurfi stjórnvöld einhvern veginn að grípa inn í“. Reynslan sýnir að kvótakóngunum þykir lítið til byggðasjónarmiða koma. Störf og afkoma einstaklinga eru lítið annað en peð á taflborði þeirra. Innan strandveiðikerfisins er það hins vegar fólkið í landinu sem stjórnar för. Strandveiðar eru þar að auki algjörlega sjálfbær liður í því að styrkja brothættar byggðir. Þeim fylgir enginn kostnaður fyrir skattgreiðendur, þar sem að strandveiðiflotinn leggur miklu meira til ríkisins en hann tekur út.
4. Sjálfstæðissjónarmið
Strandveiðar opna dyr fyrir þá sem vilja stunda sjósókn óháð duttlungum stórútgerðarinnar, enda er kerfið sprottið af úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um rétt til atvinnufrelsis og rétt til að velja sér búsetu. Réttur sjómanna til að sækja sjóinn frá sinni heimahöfn er augljóst dæmi um hvernig strandveiðar ýta undir sjálfstæði einstaklinga, en aðrir njóta líka góðs af. Kvótalausir fiskframleiðendur, útflytjendur og þeir sem vinna við hin ótal mörgu afleiddu störf fá þannig fleiri tækifæri til að stunda vinnu í sinni heimabyggð.
Markaðurinn segir „Já takk“ – SFS segir ekki „Ekki séns“
Viðtökur markaðarins segja sína sögu. Ég geri út frá Grundarfirði, og þar hefur þjónustukerfi þróast utan um veiðarnar og fest sig kirfilega í sessi. Fjölmörg fyrirtæki koma að þessari þjónustu og hafa þau komið auga á tækifæri sem má nýta og þjóna þau þannig öll mikilvægum tilgangi í ferlinu.
Strandveiðiflotinn þarf einungis að veiða fiskinn og koma honum í höfn. Þegar þangað er komið tekur við kerfi sem gengur eins og vel smurð vél. Ís og olía eru alltaf til staðar þegar á þarf að halda. Vélvirkjar og iðnaðarmenn eru reiðubúnir til þess að aðstoða við vélarbilanir. Hafnaraðstaða er vel til þess fallin að gera umgjörðina um veiðar eins einfalda og auðið er. Löndun gengur iðulega hratt og vel fyrir sig. Fiskmarkaðurinn sér um hraða og nákvæma vigtun og verðleggur fiskinn samkvæmt markaðsverði ásamt því að finna kaupendur. Öflugt fyrirtæki sér síðan um að flytja fiskinn hratt og örugglega á áfangastað. Svona umgjörð væri ekki til staðar ef afurðin væri ekki gríðarlega verðmæt og allir þessir aðilar sæju hag sinn í því að koma að ferlinu.
Þá vaknar spurningin: Ef rökin fyrir styrkingu strandveiðikerfisins eru eins skýr og afdráttarlaus og raun ber vitni, hvers vegna er það ekki gert? Þá komum við að því að í raun er ómögulegt að skrifa grein um strandveiðar án þess að minnast á þau öfl sem standa fastast í vegi fyrir mannsæmandi kerfi. Á undanförnum dögum og vikum hefur rógburður SFS náð hæstu hæðum, þar sem trillukarlar eru útmálaðir sem gráðugir frekjuhundar á ofurlaunum, þrátt fyrir að landa litlu öðru en ormétnum þorsktittum. Sálfræðingar kalla þetta frávarp, þar sem þú varpar eigin löstum yfir á aðra. En hvaðan kemur þessi óvild stórútgerðarinnar í garð smábátasjómanna?
Getur það virkilega verið að kvótakóngarnir vilji eignast þennan 5,3% pott sem við fáum úthlutað úr og þoli það ekki að einokunarstaða þeirra sé ekki algjör? Þessu hef ég velt fyrir mér. Rökhugsandi einstaklingur myndi fljótlega komast að þeirri niðurstöðu að ágóði SFS af strandveiðikerfinu væri vel þessara 5,3% virði, því með þeim gætu þau keypt sér frið og sagt, „Sjáið bara hvað fiskveiðistjórnunarkerfið okkar virkar vel, allar hafnir landsins iða af lífi!“ Eitthvað annað hangir á spýtunni, og nýlega rann upp fyrir mér ljós. Ég var staddur í stórmarkaði í London og fyrir forvitnis sakir leit ég á fiskborðið. Dýrasta varan þar var ekki ferskur túnfiskur eða skötuselur. Nei, dýrasta varan var þorskhnakkar, „Hook and line caught in Iceland“. Þarna kviknaði á perunni að þetta væri ein af ástæðum og e.t.v. sú sem vegur þyngst fyrir óvild kvótakónganna í garð okkar trillukarla. Við framleiðum vöru í hæsta gæðaflokki, á vistvænan og félagslega ábyrgan máta. Þeir reyna að gera lítið út þeim þáttum þar sem þeir vita að við stöndum styrkum fótum.
Þess ber að geta að þessi meinta ógn við kvótaeigendur og togaraútgerðir er ekki á rökum reist. Enginn trillukarl heldur því fram að strandveiðiflotinn geti eða eigi að veiða allan fisk í íslenskri lögsögu. Við erum einfaldlega að berjast fyrir tilverurétti okkar og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að smábátar og togarar geti lifað saman í sátt og samlyndi.
Smábátaútgerð er atvinnugrein þar sem óvissa er óhjákvæmileg. Veðurfar, vélarbilanir og fiskigengd eru allt þættir sem ekki er hægt að stjórna og geta sett verulegt strik í reikninginn. Þess vegna sætir það furðu að stærsti óvissuþátturinn skuli vera íslensk stjórnvöld. Ég vil skora á Svandísi sem og þingheim allan að festa strandveiðikerfið í sessi með því að tryggja hverjum báti sína 48 daga, trillukörlum og þjóðinni allri til heilla.
Höfundur er trillukarl