Fátt segir meira um þroska þjóðar en meðferð hennar á þeim sem minnst mega sín. Ætternisstapi og útburður eru hugtök sem heyra grárri fortíðinni til. Í velferðarsamfélagi verða til hugtök eins og barnabætur og ellilífeyrir, sem byggjast á samstöðu kynslóðanna um framfærslu og öryggi þegar þroska skortir og þrek þrýtur. Á Norðurlöndum verður velferðarkerfið til á millistríðsárunum og á sjöunda áratugnum er bætt við svokallaðri viðbótartryggingu við eftirlaunin. Sömu sögu er að segja frá Íslandi. Tryggingastofnun ríkisins verður til árið 1936. Viðræður um hina svokölluðu viðbótartryggingu á sjöunda áratugnum strönduðu hins vegar á hinu „séríslenska þingræði“, sem byggist á sérplægni þingmanna, ef ekki fyrir sjálfa sig, þá fyrir flokkinn, og til verður núverandi lífeyrissjóðakerfi í allsherjar kjarasamningum á vinnumarkaði frá ársbyrjun 1970. Annmarkar íslenska lífeyriskerfisins hafa verið ljósir lengi en þeir snúa einkum að skattkerfinu og samtengingu þess við almannatryggingar.
Í sem stystu máli snýst ágreiningurinn um það hvort menn greiði 31,45% skatt af tekjum sínum í dag eða 76% við 67 ára aldur. Dómurinn frá 22. desember 2021 átti að leysa þennan ágreining.
Það er tvennt sem vert er að vekja athygli á áður en lengra er haldið. Í fyrsta lagi eru það einstaklingar sem standa í málarekstrinum, en ekki stéttarfélög; nú er það svo að samkvæmt lögum nr. 80/1938 er samningsrétturinn í höndum verkalýðsfélaga, ekki einstaklinga, og vekur það upp spurningar um heilindi verkalýðsfélaga. Afhverju var ekki samið um þetta? Í öðru lagi er það orwellskan í orðanotkun, einkum ríkislögmanns, en hann heyrir beint undir forsætisráðherra. Notað er hugtakið: „skerðingar“ um skatta á laun og lífeyri frá almannatryggingum. Þetta er bein tilvísun í Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseta, upphafsmann sveltistefnunnar sem sagði: „Starve the Beast“. Þegar hins vegar Klemens Jónsson, landritari (1904-1918), talaði um skatta notaði hann hugtökin: að leggja vegi, byggja brýr, auka menntun og bæta heilbrigðismálin; með öðrum orðum, að byggja upp samfélag. Nú telja stjórnvöld skatta vera annað orð yfir skerðingar.
Aðdragandi og stofnun lífeyrissjóða
Mikil uppstokkun varð á ríkisfjármálunum í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar: tekjuskattur var lagður af á svo til öllum launum samhliða aukningu óbeinna skatta. Fjölskyldubætur voru teknar út úr skattkerfinu og stórauknar ásamt miklum endurbótum á ellilífeyriskerfi almannatrygginga. Á þessum árum voru um 15 opinberir lífeyrissjóðir í landinu, en engir fyrir þá sem störfuðu á almennum markaði. Almennir verkamenn neyddust því til að vinna fram í rauðan dauðann og ekki óalgengt að áttræðir menn væru í byggingarvinnu, klifrandi upp stillansa með 50 kílóa sementspoka, eða ynnu við uppskipun. Þetta skóp slysahættu og var dýrt fyrir allt samfélagið.
„Það er fullkomlega tímabært að setja löggjöf um eftirlaunasjóð og eftirlaunatryggingu fyrir allt vinnandi fólk til viðbótar við gildandi lífeyristryggingar. Eftirlaunin séu miðuð við fyrri vinnutekjur og starfstíma, kaupmáttur þeirra tryggður og upphæð þeirra ákveðin með það fyrir augum, að ellibæturnar, þ.e. lífeyrir og eftirlaun samtals, nægi til þess að afstýra tilfinnanlegri kjaraskerðingu að loknu ævistarfi. Jafnframt lít ég svo á, að samtímis þessari lagasetningu þurfi að gera breytingar á gildandi lífeyristryggingum, svo að þær verði hæfilegur grundvöllur og undirstaða eftirlaunatryggingarinnar og lágmarksbætur við hæfi.“
Í kjölfarið stofnaði ríkisstjórnin 5 manna nefnd í apríl 1966 til að semja frumvarp til laga um almennan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn þar sem greinargerð Haraldar var lögð til grundvallar. Þingflokkarnir tilnefndu sinn manninn hver, en formaður var skipaður án tilnefningar Sverrir Þorbjörnsson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Aðrir nefndarmenn voru: Erlendur Vilhjálmsson deildarstjóri, Guðjón Hansen tryggingafræðingur og þingmennirnir Hannibal Valdimarsson og Ingvar Gíslason.
Bæði í Noregi og Svíþjóð hafði verið sett heilsteypt löggjöf um grunntryggingu úr almannatryggingakerfinu ásamt svokallaðri viðbótartryggingu við almannatryggingakerfið, og vann nefndin eftir þeim hugmyndum. Ellilífeyrir almannatrygginga miðaðist við dagvinnulaun verkamanna og nam um 800 þúsund króna á ári á núvirði m.v. árið 1968. Viðbótartryggingin skyldi koma þar ofan á og vera um 77% af grunnlífeyri. Iðgjaldið skyldi vera 10% af launum, sem skiptist milli launþega og atvinnurekenda í hlutföllunum 2/5 og 3/5 af launum. Eftirlaunaaldurinn miðaðist við 67 ár. Ef iðgjöldin yrðu hærri, t.d. 12 eða 15%, mætti annaðhvort hækka greiðslur eða lækka eftirlaunaaldurinn. Nefndin taldi sjóðamyndun heppilegri fyrir íslenskar aðstæður þar sem sparnaðar- og fjárfestingarþörf var mun meiri á Íslandi en víða annarsstaðar. Nú skiptir sjóðurinn öllu máli, en tilgangurinn öllum gleymdur.
Hér er óþarfi að rekja nánar frumvarp um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og þá miklu vinnu sem fór í það. Nefndin skilaði frumvarpinu af sér seint á árinu 1968 þar sem það fór til yfirlestrar hjá þingflokkunum og er þar enn. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn voru allir í góðum lífeyrissjóðum og höfðu enga persónulega hagsmuni af samþykkt þess. Verkamann urðu áfram að vinna fram í rauðan dauðan.
Þó má geta þess að þegar félagsmálaráðherra var minntur á það í fyrirspurnatíma á Alþingi að haustið 1968 hafi flokksþing Alþýðuflokksins samþykkt skilyrði í 8 liðum um þátttöku í ríkisstjórninni og þar er 3. liður svo hljóðandi:
„Ákvörðun um að stofnaður verði lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn eftir tiltekinn tíma og að almannatryggingar verði efldar.“
Ráðherra svaraði þessu svo: „Fyrst og fremst hefur ríkisstjórnin lýst yfir, að hún vildi að þessu vinna. Þær yfirlýsingar liggja fyrir“
Verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur sáu að ekki yrði við unað og sömdu í allsherjar kjarasamningum 1969 um að setja upp atvinnutengda lífeyrissjóði með skylduaðild og fullri sjóðsöfnun frá byrjun árs 1970. Stofnun þeirra byggðist á vinnu við áðurnefnd frumvarp um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Ríkisstjórnin greiddi fyrir gerð kjarasamninganna með yfirlýsingu um að hún myndi greiða lífeyri til aldraðra félaga stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins.
Björn Pálsson, sá snjalli skörungur, varaði við þessari þróun, einkum hinni miklu sjóðamyndun hinna nýju lífeyrissjóða á þingi árið 1971 og sagði m.a.:
„Viðurkenna ber, að fyrrverandi ríkisstjórn fór kænlega að, sé miðað við áhuga hennar við að stofna sjóði, með því að láta forráðamenn í samtökum stéttarfélaga og bænda fallast á eða óska eftir stofnun lífeyrissjóða. Sú beita var notuð að láta atvinnuleysistryggingar, stofnlánadeild og ríkissjóð greiða örlitlar fjárhæðir til þeirra öldruðu fyrstu 15 árin. Nema þær fjárhæðir sennilega 5-10% af iðgjöldum til líf- eyrissjóða. Þetta er hliðstætt því, þegar fiskimenn láta síldarbita á öngla, þegar veiða skal ýsu, þorsk og keilu. ... Á nokkrum áratugum hefur safnast stórfé í þessa sjóði, sé löggjöfin óbreytt. Þetta fé verður lánað til einstaklinga og atvinnufyrirtækja og braskað með það á ýmsan hátt. Sjóðir þessir mun því eiga verulegan hluta af eignum landsmanna eftir nokkra áratugi, hliðstætt því, sem kaþólska kirkjan átti fyrir siðaskiptin. Hér er á ferðinni meiri sósíalísering en áður hefur þekkzt hér á landi, því að ríkisvaldið mun vilja ráða yfir þessum sjóðum og þeirra starfsemi að meira eða minna leyti. Þetta þýðir því meira ríkisvald, en minna efnalegt sjálfstæði einstaklinga. Alþingi þarf að breyta þessari óviturlegri löggjöf, gera kerfið einfalt og afnema framlög til hinna mörgu lögbundnu lífeyrissjóða.“
Björn bætti svo við þetta almennri vitneskju um hina nýstofnuðu lífeyrissjóði árið 1971: „Félagar í stéttarfélögum og bændur eiga að fá tvöfaldan lífeyri, þ. e. frá almannatryggingum og hinum lögboðnu lífeyrissjóðum, þegar þeir taka til starfa.“
Það er þó ekki fyrr en árið 1974 að sett eru lög á grundvelli þessara samninga sem skylduðu alla launamenn og atvinnurekendur þeirra til að greiða a.m.k. 10% af iðgjöldum til lögbundinna eða viðurkenndra lífeyrissjóða. Með lögum frá 1980 náði þessi skylda einnig yfir sjálfstætt starfandi einstaklinga og árið 1986 var síðan samið um að greidd væru iðgjöld af öllum launum, ekki aðeins af dagvinnulaunum. Núverandi lög um lífeyrisjóði tóku gildi 1998.
Fjármögnun lífeyristrygginga
Hér má rifja upp hvernig sjúkrasamlagið var fjármagnað þar sem það kemur ekki skýrt fram í dómnum, heldur er látið að því liggja að réttindi skapist eingöngu með lögheimili en í fyrstu var notað við ríkisborgararétt og lá hann lengi til grundvallar. Hið rétta er að réttindi voru að stærstum hluta fjármögnum með iðgjöldum, sem voru frádráttarbær frá tekjuskatti. Iðgjald veitir hins vegar ákveðin réttindi, sem dómurinn horfir fram hjá:
Þegar opinber sjúkrasamlög komu fyrst til sögu i hreppum landsins samkvæmt lögum um alþýðutryggingar, nr. 26/1936, voru árlegar tekjur hvers samlags ákveðnar þannig, sbr. 34. og 35. gr. laganna:
- Iðgjöld samlagsmanna 4/6
- Framlag ríkissjóðs 1/6
- Framlag sveitarsjóðs 1/6
Þetta hélst óbreytt til ársins 1943, en með 42. og 47. gr. laga nr. 104/1943 voru tekjur ákveðnar þannig:
- Iðgjöld samlagsmanna 3/5
- Framlag ríkissjóðs 1/5
- Framlag sveitarsjóðs 1/5
Næst var þessu breytt með 21. gr. laga nr. 13/1960 og tekjur ákveðnar þannig:
- Iðgjöld samlagsmanna 10/26
- Framlag ríkissjóðs 11/26
3. Framlag sveitarsjóðs 5/26
Þessi skipun var látin haldast, þegar sett voru lög nr. 40/1963, sbr. 54 og 55. gr. þeirra, eins og þær voru upphaflega, en með 9. og 10. gr. laga nr. 83/1967 var þessum greinum breytt og tekjur ákveðnar þannig:
- Iðgjöld samlagsmanna 20/87 hlutar
- Framlag ríkissjóðs 50/87 hlutar
- Framlag sveitarsjóðs 17/87 hlutar
Þessi skipan hélst til laga nr. 67/1971, sbr. 20. gr.
Útgjöld lífeyristrygginganna skulu eftirtaldir aðilar bera, og skulu framlög og iðgjöld þeirra ákveðin með það fyrir augum, að kostnaðurinn skiptist í þeim hlutföllum, er hér greinir:
Með lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald rann iðgjald lífeyristrygginga inn í tryggingagjaldið ásamt fjórum öðrum gjöldum: launaskatti frá 1965, lífeyristryggingagjaldi, slysatryggingargjaldi frá 1971, vinnueftirlitsgjaldi frá 1980 og atvinnuleysistryggingargjaldi frá árinu 1981. Allt var þetta sameinað í eitt gjald.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 100/2007 eru lífeyristryggingar almannatrygginga fjármagnaðar með tryggingagjaldinu.
Um dóminn
Aðdragandi að stofnun lífeyriskerfisins á almenna markaði kemur ekki alveg nógu skýrt fram í dómnum frekar en fjármögnun almannatrygginga, en hvað um það. Stefnandi bendir á að tvenns konar eignarréttindi séu skert, sem í báðum tilvikum njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu þótt með ólíkum hætti sé.
- Annars vegar sé skertur réttur stefnanda til ellilífeyris sem stefnandi öðlaðist á grundvelli laga nr. 100/2007 [...] 2009 þegar hún varð 67 ára eftir að hafa búið á Íslandi í a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 ára aldri.
Ríkislögmaður fellst ekki á að skyldubundnir lífeyrissjóðir séu viðbótartrygging við almannatryggingar og byggir í reynd vörn sína á þessari makalausu sérplægni þingmanna um að klára ekki málið. Hann segir m.a. um samkomulagið á vinnumarkaði í vörn sinni: „Þótt með samkomulaginu væri miðað að stofnun skyldulífeyrissjóða hafi engar forsendur verið því samfara hvernig um frádrátt eða skerðingu færi til frambúðar, enda ekki á valdi aðila kjarasamninga að ákveða þar sem ellilífeyrir sé ákveðinn með lögum.“ Ríkislögmaður bætir svo við: „Þá séu málsástæður um skattlagningu greiðslna úr lífeyrissjóði einnig málinu óviðkomandi. Sama sé að segja um skattlagningu eftir lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.“ Hann hnykkir svo á því með því að segja: „Eins og fram hafi komið sé ellilífeyrir úr almannatryggingakerfinu ekki áunninn réttur með iðgjöldum eða beinu framlagi lífeyrisþegans. Réttur til ellilífeyris sé því ekki meiri en löggjafinn skilgreini á hverjum tíma.“
Hér fer ríkisvaldið ekki með rétt mál, en eins og vikið var að hér á undan eru lífeyristryggingar almannatrygginga fjármagnaðar með tryggingagjaldinu, sbr. lög nr. 113/1990. Um þetta atriði segir dómari„... þá hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar ekki verið tekin afstaða til þess hvort lífeyrisréttindi sem fjármögnuð voru [með] skattfé og án þess að gagngjald lífeyrisþega hafi áhrif á réttindin falli undir vernd 72. gr. stjórnarskrárinnar.“ Að öðru leyti fjallar dómari ekkert um samband tryggingagjalds og trygginga. Það hefði þurft að skoða þennan þátt miklu betur. Hér hefði t.d. mátt fjalla um eignahluta hreppasjúkrasamlaganna, en forfeður okkar stofnuðu alþýðutryggingar í miðri heimskreppunni 1936 og þá varla til að afhenda útgerðinni eignarhlutann, eða hvað? Samkvæmt bréfi ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytis 1971 runnu þau inn í ný sjúkrasamlög. Ráðuneytisstjórinn segir m.a.:
Í frumvarpi til laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er sagt að eyður og númer laga hafi raskast. Hér hefði dómari mátt taka tillit til ábyrgðar stjórnsýslunnar þegar réttindi og þekking glatast, en í frumvarpinu segir m.a.:
„Gildandi lög um almannatryggingar, nr. 67/1971, gengu í gildi 1. janúar 1972. Lögunum hefur á liðnum tveimur áratugum verið breytt liðlega sextíu sinnum. Þótt ýmsar þessar breytingar hafi verið allumfangsmiklar hafa lögin aldrei verið endurútgefin á þessu tímabili. ... Fljótlega kom hins vegar í ljós að við síendurteknar breytingar höfðu eyður myndast í lögin og jafnvel að númer greina hefði raskast. Niðurstaðan varð því sú að nauðsynlegt væri að fella lögin saman og leggja þau þannig fyrir Alþingi ásamt þeim breytingum sem gera þyrfti á þeim vegna aðildar Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Á 116. löggjafarþingi var lagt frumvarp sem var annars vegar samfelling laganna og hins vegar nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins. Jafnframt voru ýmis ákvæði laganna, sem í raun voru orðin úrelt vegna eldri breytinga, felld niður.“
Almennt trúir fólk að tryggingagjöld veiti tryggingu. Að menn tryggi ekki eftir á. Nema stjórnvöld hafi verið að fífla fólk. Láta það halda að það væri að greiða tryggingagjald til að sætta það við hærri skatt síðar. Það mætti a.m.k. ætla í dag.
Að öðru leyti fellst dómari ekki alveg á rök ríkislögmanns en þó næstum því, og segir m.a.:
„Í samræmi við það sem að framan er rakið telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að réttur stefnanda til ellilífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007 njóti stjórnskipulegrar verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, eins og það ákvæði verður skýrt með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu og túlkun Mannréttindadómstólsins á því ákvæði, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 391/2016 ... Dómurinn getur ekki fallist á með stefnanda að reglur laga nr. 100/2007 um áhrif greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði á útreikning ellilífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007 hafi í för með sér að þau eignarréttindi sem felast í lífeyrisréttindum stefnanda í almennum lífeyrissjóðum séu þar með skert. Þá verður heldur ekki talið að stefnandi hafi á grundvelli samkomulags aðila vinnumarkaðarins árið 1969, og eftir atvikum síðari breytinga sem byggðust á því samkomulagi, eignast réttmætar og lögverndaðar væntingar til þess að ekki yrði hróflað við fyrirkomulagi almannatrygginga um áhrif lífeyrisgreiðslna 40 árum frá því að upphaflegt samkomulag var gert. Verður því að hafna málsástæðum stefnanda að því marki sem þær byggjast á því að réttindi hennar úr almennum lífeyrissjóðum hafi verið skert.“
- Hins vegar sé lífeyrisréttindi sem stefnandi aflaði sér með iðgjaldagreiðslum í skyldubundna atvinnutengda lífeyrissjóði á árunum 1970-2011 skert.
Dómurinn hljóðar svo:
„Dómurinn getur ekki fallist á með stefnanda að sá greinarmunur sem er gerður á greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og öðrum greiðslum sem stefnandi notar til samanburðar byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum sem séu andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrár eða, eftir atvikum, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta viðauka sáttmálans. Þótt skoðanir geti vissulega verið skiptar um fyrirkomulag og réttmæti þeirra skerðinga sem viðhafðar eru á útreikningi ellilífeyris á grundvelli 16. gr. laga nr. 100/2007 er einsýnt að þær ganga jafnt yfir alla sem þiggja lífeyrisgreiðslur úr atvinnutengdum sjóðum.“
Með öðrum orðum fellst dómari á röksemd ríkisvaldsins að heimilt sé að skattleggja greiðslur úr lífeyrissjóðum um 76% á meðan aðrar launatekjur eru skattlagðar um 31,45% og annar sparnaður s.s. séreignarsjóður og bankainnstæða ekki skattlagt um þessi 45%.
Þetta er þvert á tilganginn með stofnun lífeyrissjóða eins og hann kom fram hjá Birni Pálssyni hér á undan. Ríkisvaldið segir þennan mun hvetja aldraða til vinnu og stangast það algjörlega á við yfirlýstan tilgang eftirlauna og skattleggur ótæpilega þá sem hafa lægstar tekjurnar og greitt hafa í lífeyrissjóði. Hér má minna á að sérstakir skattar vegna séraðgerða eru í raun ekki til. Það er ekki nóg fyrir stjórnmálamenn að setja sérstakt nafn á skatt til að lýsa honum sem sérstökum skatti, sbr. þjóðarbókhlöðuskatturinn eða tollur á litasjónvörp, sem að nafninu til átti að efla íslenska dagsskrárgerð. Hvorugur þessara skatta rann heill og óskiptur til viðkomandi stofnana. Skattur Tryggingastofnunar á greiðendur í lífeyrissjóði gerir það ekki heldur. Jafnframt má benda á að skattalög gera ekki greinarmun á launagreiðslum úr lífeyrissjóðum eða frá launagreiðendum, frekar en launagreiðslum frá SÍS eða Eimskip. Hvort tveggja eru laun. Eini munurinn er að launþegi geymir ákveðinn hluta launa sinna í eftirlaunasjóði til efri ára, sem viðkomandi greiðir af fullan skatt við útborgun. Skattar miðast við tekjur og því hærri tekjur því hærri skattar. Ríkisvaldið kann hins vegar ráð við þessu. Það færir hluta skattheimtunnar frá fjármálaráðherra til félagsmálaráðherra, þó svo skattgrunnurinn sé sá sami. Félagsmálaráðherra notar ekki tekjuhugtak skattalaga heldur aldur. Allir sem eru 67 og eldri og fóru að lögum um lífeyrissjóði skulu greiða 45% í skatt af ellilífeyrinum. Hvað næst? Skyldi sjávarútvegsráðherra leggja á sérstakan skatt miðað við þyngd landsmanna, og láta Fiskistofu sjá um vigtunina?
Niðurlag
Þrátt fyrir skýrar reglur um skatta, sbr. Jean Bodin og Adam Smith, þar sem sá fyrrnefndi fjallar um fullveldi, skatta og endimörk skattheimtu (1576), en sá síðarnefndi almennar álagningarreglur (1776), þá eru skattar pólitísk ákvörðun. Það er því varla sanngjarnt að ætlast til að dómstólar leysi mál sem stjórnmálamenn hafa ekki getað leyst á síðustu 60 árum. Þetta mál tekur þó til fleiri þátta, einkum almennrar stjórnsýslu og sanngirni og ekki til önnur leið. Dómnum hefur verið áfrýjað. Verði málið hins vegar áfram óleyst getur það haft margskonar afleiðingar í för með sér og ýtt undir vantrú á þingræði, en varla er það æskilegt, og nú er leitun að hugsandi manni sem gæti lýst yfir trausti á Alþingi í nútíð og framtíð. Mikið er rætt um mismunandi mótstöðuafl þjóða gegn illum afleiðingum þingræðis en svo virðist að hér á landi séu alveg sérstök samvalin vaxtarskilyrði fyrir ókosti þess. Eitt af því er sérplægni þingmanna sem fyrr er getið, ef ekki fyrir sjálfa sig, þá fyrir flokkinn.
Þrátt fyrir fjölda yfirlýsinga frá Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, um málefni eftirlaunafólks og öryrkja, er hvergi fjallað um þau í stjórnarsáttmálanum. Þar segir hins vegar: „Löggjöf og regluverk á sviði vinnumarkaðar verður skoðað í samhengi við þróun vinnumarkaðarins og breytinga á ráðningarformi milli launafólks og atvinnurekenda.“ Ríkisstjórnin hefur undirbúið sig vel. Bjarni Benediktsson skipaði Jökul H. Úlfsson, fyrrum framkvæmdastjóra sjóðafyrirtækisins Stefnis, til að sjá um kjaramál ríkisins og Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmann sinn til fjölda ára, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, en Viðskiptaráð var á sérsamningi við fjármálaráðuneyti við samningu skattalaga fyrir Hrunið 2007. Katrín Jakobsdóttir hefur heldur ekki setið auðum höndum og gert sinn „mann“ Höllu Gunnarsdóttur, að framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Um leið hefur hún kallað Henný Hins, fyrrum hagfræðing ASÍ, og Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrum ríkissáttasemjara, til starfa í forsætisráðuneytinu. Jafnframt sem Gylfi Arnbjörnsson, fyrrum forseti ASÍ, er kominn til starfa fyrir ríkisstjórnina. Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrum formaður Eflingar, fékk hins vegar reisupassann þegar hún krafði lífeyrissjóði skýringa á sjálftökunni. Það veit ekki á gott fyrir komandi kjarasamningaviðræður.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur.