Samtök atvinnulífsins héldu ársfund sinn um daginn í Borgarleikhúsinu (sjá hér). Þetta var hugsað sem samstöðufundur atvinnurekenda í aðdraganda kjarasamninga. Viðburðurinn var settur upp eins og nokkurs konar leiksýning eða „show“, hannað af auglýsingastofum.
Salurinn var þéttsetinn og spenna í lofti. Ljósin dofnuðu og ísmeygileg og taktföst tónlist tók að streyma úr hátölurunum. Sýningin var að byrja. Ég hélt að Mick Jagger myndi fyrstur stökkva inn á sviðið og rafmagna salinn – en nei, það var Halldór Benjamín sem tók sveifluna. Stundum þarf sá næstbesti að duga!
Þetta var allt mjög flott og nútímalegt yfirbragð, skreytt myndaklippum af elskulegum atvinnurekendum á litlum vinnustöðum sem sögðust vilja vera vinir starfsmanna sinna, enda samveran oft upp í 10 stundir á dag. Góður fílingur…
En svo kom boðskapurinn frá Halldóri Benjamín og Eyjólfi Árna. Þá hvarf nútímalega yfirbragðið og gamlar og úr sér gengnar lummur tóku við. Hver annarri kjánalegri. Hér skulu þær helstu nefndar og leiðréttar.
Lært af hagsögunni: 1850% launahækkun án kaupmáttaraukningar?
Það var klifað á nauðsyn þess að læra af hagsögunni. „Hagsagan lýgur ekki“, sagði Halldór Benjamín. En það er einmitt það sem gerist þegar ranglega er farið með staðreyndir úr henni – þá lýgur hún. Og það heldur betur í meðferð Halldórs.
En þetta er eins rangt og nokkuð getur verið. Einkaneysla jókst að raunvirði um 23% á áratugnum frá 1981 til 1990 og það gerist ekki án aukins kaupmáttar. Á áratugnum fyrir þjóðarsátt jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 2,2% á ári að meðaltali, eða jafn mikið og á áratugnum eftir þjóðarsátt. Almennt jukust bæði kaupmáttur ráðstöfunartekna og einkaneysla hátt í helmingi meira á ári að jafnaði á þremur áratugum fyrir þjóðarsátt og varð á þremur áratugum eftir þjóðarsátt, þrátt fyrir mikla verðbólgu vegna tíðra gengisfellinga á fyrra skeiðinu.
Þetta voru því staðlausir stafir hjá Halldóri Benjamín. Hann þarf að kanna hagsöguna betur.
Heimsmet í hækkun kaupmáttar?
Síðan kom fullyrðing um að kaupmáttur launa hafi aukist um 57% síðastliðin tíu ár. Langt umfram launahækkanir á hinum Norðurlöndunum.
Þetta fær nú ekki staðist, samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar (rúmlega 40% virðist nær lagi). Og þá er að auki horft framhjá því að í kjölfar hrunsins lækkaði kaupmáttur launa hér um 12% (2008 til 2010) og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna fór niður um 26-28%, áður en þessar miklu kauphækkanir komu á uppsveiflunni.
Ekkert slíkt gerðist á hinum Norðurlöndunum. Þar þurfti ekki að vinna til baka óvenju mikið hrun kaupmáttar eins og hér varð 2009 og 2010. Það er því eðlilegt að laun hafi hækkað meira hér sl. 10-12 ár.
Næst hæstu laun í heimi – en samt metfjölgun nýrra starfa?
Allt þetta tal var upptaktur að þeim boðskap að laun væru orðin alltof há hér á landi, „þau næst hæstu í heimi“, var sagt. Það sæi hver atvinnurekandi að slíkt gæti ekki gengið…
En ég segi að slíkt geti vel gengið ef við erum með næst hæsta verðlag í heimi – sem er raunin. En þetta er ekki einu sinni rétt, því við erum nær því að vera með sjöundu hæstu ráðstöfunartekjur í heimi, en ekki þær næst hæstu.
Síðan vildi Halldór Benjamín aðeins fríska upp á salinn eftir þetta niðurdrepandi tal um að launin væru orðin alltof há og benti á að þrátt fyrir allt hefði góður árangur náðst í sköpun nýrra starfa. Alls hefðu um 30.000 ný störf orðið til á Íslandi á þessum sama áratug og kaupmáttur átti að hafa hækkað um 57% og skilað okkur á þennan stað „alltof hárra launa“. Raunar sýnist mér að fjöldi starfandi á landinu hafi aukist úr 180.000 í um 220.000, eða um nær 40.000 á sl. 10 árum. Það er mjög mikið.
Þarna gengur dæmi SA-manna hins vega ekki upp. Vinnumarkaðshagfræðin kennir að þegar laun eru orðin of há þá hætta fyrirtæki að bæta við starfsfólki. Ný störf verða ekki lengur til. En sú hefur sem sagt ekki verið staðan á Íslandi. Hér eru slegin met í fjölgun nýrra starfa, þannig að flytja þarf inn vinnuafl í þúsundum til að manna þau.
Launin geta því ekki verið of há í þeim aðstæðum sem ríkja á Íslandi. Það er augljóst.
Úrelt vinnulöggjöf – en fín stjórnarskrá?
Þá kom Eyjólfur Árni á sviðið og sigldi föðurlega yfir málefnin. Honum var sérstaklega ofarlega í huga að vinnulöggjöfin væri orðin úrelt og þyrfti að endurskoða hana hressilega. Sem dæmi um það var nefnt og hneykslast á að gera þyrfti mörg hundruð kjarasamninga, allt niður í einn samning á mann! Þrengja þyrfti að félags- og samningsréttinum og takmarka samninga við stærri og færri hópa.
Síðan er þetta tal um mikinn fjölda kjarasamninga hálf spaugilegt. Þegar búið er að semja við stærstu félögin á almennum markaði fá aðrir meira og minna sama samning. Frávik eru smávægileg (fleiri vinnuvettlingar hér en þar og matartími 10 mínútum fyrr hér en þar, o.s.frv.). SA-menn gætu alveg látið tölvur sínar eða Sáttasemjara um að ganga frá megninu af þessu og sjá síðan um rafræna undirritun. Þannig hagræða menn.
Höfrungahlaupið
Og svo var það gamli slagarinn um höfrungahlaupið. Hann sló aldeilis í gegn á árum áður. Þeir forsöngvararnir í rokkóperu kjarasamninganna í Borgarleikhúsinu voru meira að segja með myndræna framsetningu á höfrungahlaupinu, þar sem einn kassi stökk yfir þann næsta til að fá meiri launahækkun en þeir sem á undan komu. Þessu yrði að linna, sögðu þeir félagar. Þetta væri uppspretta alls óstöðugleika í samfélaginu og of mikilla launahækkana.
En þarna hitti lumman söngvarana sjálfa fyrir. Þeir hafa ekki kynnt sér það að Lífskjarasamningurinn vann einmitt sérstaklega vel gegn höfrungahlaupi hjá almennu launafólki, með áherslu á sömu krónutöluhækkun upp launastigann. Helsta frávikið frá þessu snerti einmitt hálaunahópana, forstjóra og kjörna fulltrúa á þingi og í ríkisstjórn. Það fólk kom á eftir og fékk miklu fleiri krónur í launahækkun en almennt starfsfólk á vinnumarkaði.
Þetta hafði raunar einnig gerst í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1990 þegar allir áttu að fá sömu hækkanir í sameiginlegu átaki gegn verðbólgunni. Hátekjuhóparnir fundu sér þá nýja leið til kjarabóta (fjármagnstekjur sem veittu mikil skattfríðindi umfram launatekjur) sem skildi almennt launafólk eitt eftir með byrðarnar af baráttunni við verðbólguna. Hætta er á að það verði endurtekið nú þegar verðbólgan er aftur komin á kreik. Það er sameiginleg krafa SA-manna og Seðlabankans.
Gætum við fengið flottari atvinnurekendur?
Mér fannst þetta hálf sorglegur endir á samkomu sem byrjaði svona vel og nútímalega. Þegar upp var staðið var boðskapurinn á skjön við staðreyndir og bundinn við gamlar og úreltar lummur. Það hefði verið meira hressandi að heyra að verðmætasköpunin væri ekki bara búin til af útsjónarsömum atvinnurekendum heldur einnig af fólkinu sem vinnur verðmætaskapandi störfin – oft með miklum erfiðismunum fyrir lág laun.
„Minna verði meira“, sögðu þeir að yrði áherslan í komandi kjarasamningum. Eru atvinnurekendur sjálfir að fara eftir þeim boðskap? Nei, þeir hafa nú þegar siglt framhjá því með ríflegum launahækkunum toppanna, auknum bónusum og rýmri réttum til að nýta kaupauka til milljónatuga gróða. Svona er höfrungahlaup toppanna í framkvæmd.
Í upphafi árs spáðu sérfræðingar á fjármálamarkaði því að arðgreiðslur út úr fyrirtækjum sem eru í kauphöllinni yrðu minnst 200 milljarðar á þessu ári. Önnur fyrirtæki eru líka að skila miklum hagnaði og arðgreiðslum. Peningarnir flæða út úr fyrirtækjunum. Enda er hagvöxtur áranna 2021 og 2022 með ólíkindum góður. Árleg hækkun launa til þorra vinnandi fólks á tíma Lífskjarasamningsins á almennum markaði kostaði fyrirtækin ekki mikið meira en 50 milljarðar. Það er mjög lítið í samanburði við væntar arðgreiðslur nú.
Sjá menn ekki samhengið? Það er augljóslega gott svigrúm til að umbuna launafólki og skila því hluta sínum af hagvextinum. Launahækkanir þurfa nú að bæta upp bæði tapaðan kaupmátt vegna verðbólgu og vaxtahækkana – og fyrir hagvöxtinn að auki. Annars mun hlutur launafólks af þjóðarkökunni minnka, sem væri óeðlilegt.
Nútímalegri atvinnurekendur myndu sjá þetta, taka undir og uppskera góðan anda á vinnustöðum og í samfélaginu.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.