Í dag, 1. júní, er alþjóðlegi mjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Framtakinu var hrundið af stað af Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) árið 2001 og er tilgangur þess að vekja athygli á ávinningi mjólkur og mjólkurframleiðslu í matvælakerfum heimsins, hvort sem litið er til efnahags, næringar eða samfélagsins. Í ár er athyglinni beint að aðgerðum innan mjólkuriðnaðarins til að vinna gegn loftslagsbreytingum og draga úr áhrifum iðnaðarins á jörðina.
Ábyrg neysla
Á hverju ári framleiðir Mjólkursamsalan gæðavörur úr um 150 milljón lítrum af mjólk frá íslenskum bændum, sem uppfylla næringarþörf einstaklinga á mismunandi aldursskeiðum. Mjólkin er uppfull af næringarefnum og leitun er að fæðugjöfum sem innihalda fleiri vítamín og steinefni. Þá er hún mikilvægur kalkgjafi og inniheldur einnig joð, en nýjustu rannsóknir sýna að um 80% íslenskra kvenna fá að öllum líkindum ekki nægilegt joð og við erum nú í fyrsta sinn að sjá joðskort hjá ungum konum á barneignaraldri. Því eru mjólkurvörur mikilvægur hluti af mataræði okkar.
Matarsóun hefur lengi verið áskorun í hinum vestræna heimi en talið er að um 1,3 milljón tonn af matvælum fari í ruslið á hverju ári. Það samsvarar um þriðjungi þess matar sem keyptur fer beint í ruslið. Ef við yfirfærum það í krónur þá er talið að hver einstaklingur hendi nýtanlegum mat að virði um 60.000 króna á ári. Í fjögurra manna fjölskyldu gerir það 240.000 krónur á ári. Augljóst er að hægt að nýta þá fjármuni betur.
Til þess að sporna gegn matarsóun hefur Mjólkursamsalan hvatt neytendur til að líta ekki einungis á geymsluþol vara, heldur treysta á lyktarskyn til að athuga gæði vörunnar. Með þetta fyrir augum var tekin upp ný merking á mjólkurfernum þar sem fyrir neðan „Best fyrir“ dagsetninguna stendur „oft góð lengur“. Þá er sérstaklega litið til aukins geymsluþols þegar umbúðir vara eru valdar.
Sjálfbærni eykst í allri framleiðslukeðjunni
Í dag er framleidd mjólk á um 520 bæjum, hringinn í kringum landið með tilheyrandi atvinnusköpun, ekki einungis við framleiðsluna sjálfa heldur einnig hina ýmsu þjónustu og afurðavinnslu. Meðalbúið hefur stækkað um tæp 30% á síðustu 10 árum og með aukinni tæknivæðingu og kynbótum hefur framleiðsla íslensku kýrinnar aukist um 16,5% á sama tíma, sem þýðir að við þurfum færri kýr til að framleiða sama heildarmagn af mjólk og áður.
Mjólkursamsalan hefur ráðist í fjárfestingar í nýjum tækjabúnaði undanfarin ár sem eykur nýtingu afurða, eflir nýsköpun og dregur úr losun. Þar má nefna framleiðslu á próteindufti úr mysu sem áður fór til spillis og fljótlega mun framleiðsla á etanóli úr mjólkursykri og kaseini úr undanrennu fara af stað. Sem dæmi um aðgerð til að draga úr losun var fjárfest í tækjabúnaði við duftframleiðslu sem varð til þess að kolefnisspor þess dróst saman um 95%. Þá hefur fyrirtækið nýlega skipt út bílaflota söluteymis síns fyrir rafmagnsbíla og síðastliðið haust var tekinn í notkun flutningabíll sem keyrir á metani í stað dísel.
Það er mikilvægt að allur iðnaður vinni að því að hámarka framleiðni og draga úr losun, öðruvísi erum við ekki sjálfbær. Með áframhaldandi grænum fjárfestingum og sjálfbærum skrefum, bæði stórum og smáum, sköpum við betri og öruggari framtíð fyrir alla.
Höfundur sérfræðingur á hagsýslu- og samskiptasviði Mjólkursamsölunnar.