Það bar til tíðinda í þessari viku að erlendir sérfræðingar á sviði lífeyrismála, Mercer og CFA Institute, birtu samanburð á gæðum lífeyriskerfa í heiminum, eins og þau hafa gert um árabil, undir nafninu Mercer CFA Global Pension Index.
Í ár var íslenska lífeyriskerfið í fyrsta sinn tekið inn í samanburðinn. Skemmst er frá því að segja að Ísland fór beint upp á topp og er þar með Danmörku og Hollandi sem öll teljast vera í meistaradeild lífeyriskerfa. Þjóðirnar þrjár búa við þriggja stoða lífeyriskerfi (almannatryggingar, lífeyrissjóðir og séreignasparnaður), þar sem mikil sjóðasöfnun í lífeyrissjóðum vinnumarkaðarins og þokkaleg afkomutrygging í almannatryggingum skiptir mestu.
Ég hef orðið var við að margir spyrja sig að því hvernig Ísland geti verið með eitt besta lífeyriskerfi í heimi þegar mikil óánægja ríkir með kjör lífeyrisþega hér á landi, eins og allir þekkja.
Svarið við því er einfalt.
Skýrsla Mercer og CFA sýnir hvaða kjörum lífeyriskerfið mun skila fólki sem er að hefja starfsferil sinn í dag eftir að þau hafa klárað minnst 40 ára starfsferil og greitt 15,5% af launum í lífeyrissjóði, ásamt séreignasparnaði, allan tímann. Þetta eru sem sagt þau lífeyriskjör sem eiga að vera í gildi eftir árið 2055.
Þetta segir hins vegar lítið um það hvernig kjör núverandi lífeyrisþega eru eða hver verða kjör þeirra sem fara á lífeyri á t.d. næstu 10-20 árum.
Staðreyndin er sú að ekki eru allir enn með næga uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóðum, af ýmsum ástæðum. Mest munar um það að þeir sem hafa starfað á almennum markaði allan sinn starfsferil hafa búið við lakari lífeyrisréttindi frá lífeyrissjóðum sínum en opinberir starfsmenn. Þeir hafa einungis átt rétt til 56% af meðalævitekjum sínum á meðan opinberir starfsmenn fá 76%. Þar munar miklu. Þá hafa konur oft minni uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóðum vegna rofa í starfsferli í tengslum við barneignir og nám á fyrri árum.
Það var ekki fyrr en á árunum 2016 til 2018 að iðgjöld starfsfólks á almennum markaði voru hækkuð úr 12% í 15,5% til að jafna þennan réttindamun við opinbera geirann. En það mun því miður taka rúm 40 ár frá 2018 að sú réttindajöfnun skili sér til fulls í greiddum lífeyri. Það verður því ekki fyrr en eftir 2055 að þeir sem hafa unnið allan sinn feril á almennum markaði fá meira en 70% af meðalævitekjum sínum í lífeyri frá lífeyrissjóði sínum. Starfsmenn í opinbera geiranum búa hins vegar nú þegar við slík lífeyriskjör.
Í því þriggja stoða lífeyriskerfi sem við búum við (og sem alþjóðlegar efnahagsstofnanir hæla sem besta fyrirkomulagi lífeyrismála) kemur það í hlut almannatrygginga (TR) að greiða uppbót á lífeyrinn frá lífeyrissjóðum ef hann er of lágur. Því minna sem menn hafa úr lífeyrissjóðum þeim mun meira eiga þeir að fá úr almannatryggingum - upp að vissu þaki. Lakari réttindi kvenna eiga að skila sér í hærri greiðslum til þeirra frá almannatryggingum (TR). Þannig á kerfið að virka.
Í Danmörku er samskonar skipan lífeyrismála og hér en þar tryggja almannatryggingar öllum viðunandi lífeyri þegar réttur í lífeyrissjóðum er ófullnægjandi.
Vandinn sem við er að glíma á Íslandi er sá, að þessi uppbót frá TR er of lítil og hefur lengi verið. Fyrir því eru einkum tvær ástæður:
- Upphæðir lífeyris TR eru of lágar.
- Skerðingar lífeyris TR eru alltof miklar. Þær byrja við of lágar tekjur frá lífeyrissjóðum og skerðast því of hratt þó tekjur frá lífeyrissjóðum séu enn mjög lágar.
Þessi galli á almannatryggingum hefur komið til á löngum tíma, með því að ríkið hefur gengið sífellt lengra í skerðingum og jafnframt tregast við að láta óskertan lífeyri TR fylgja lágmarkslaunum á vinnumarkaði að fullu (raunar ætti hann að vera heldur hærri en lágmarkslaun).
Allt var þetta gert til að spara ríkisútgjöld til almannatrygginga. Sá sparnaður er orðinn svo mikill að í dag eru útgjöld íslenska ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna ein þau allra lægstu sem þekkjast í hópi OECD-ríkjanna (sjá um þetta í nýrri skýrslu minni og Stefáns Andra Stefánssonar hagfræðings um Kjör lífeyrisþega). Í Danmörku leggur almannatryggingakerfið mun stærri hlut ofaná tekjur frá lífeyrissjóðum en hér er gert.
Afleiðingin af þessu er sú, að heildartekjur lífeyrisþega á Íslandi eru of lágar fyrir marga og um þriðjungur lífeyrisþega glímir við umtalsverðan lágtekjuvanda. Auknar tekjur frá lífeyrissjóðum skila sér ekki nægilega vel í bættum ráðstöfunartekjum vegna ofurskerðinga hjá TR og síðan leggst tiltölulega hár tekjuskattur á lífeyrinn. Skerðingar og skattur samtals nema allt að 70-80% af viðbótartekjum frá lífeyrissjóðum á þeim tekjubilum þar sem flestir lífeyrisþegar eru. Skiljanlega er viðvarandi óánægja og jafnvel gremja meðal lífeyrisþega vegna þessa, ekki síst í ljósi síendurtekinna loforða um alvöru úrbætur sem svo hafa ekki skilað sér.
Það er sem sé almannatryggingakerfið sem ríkið ber ábyrgð á sem er bilaði hlutinn í lífeyriskerfinu og skilar ekki sínu. Lífeyrissjóðir skila fólki lífeyri í hlutfalli við iðgjöld sem greidd hafa verið í sjóðina af launum á starfsævinni. Vegna þess að iðgjöld voru of lág framan af og vegna lakari réttinda á almennum markaði, sem nefnd voru hér að ofan, þá eru margir enn sem komið er að fá mjög lágar upphæðir úr lífeyrissjóðum. Til dæmis fá ellilífeyrisþegar nú að meðaltali rétt rúmlega 200.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðum.
Tímabundinn vandi – og lausn hans
Rétt er að líta á þennan vanda í lífeyriskerfinu sem tímabundinn. Við erum með gott kerfi lífeyrissjóða sem munu skila góðum lífeyrisréttindum eftir árið 2055, þegar réttindaávinnsla er komin fram til fulls. Þangað til þurfa almannatryggingar að skila meiru til lífeyrisþega en nú er, líkt og tíðkast í Danmörku. Þegar dregur nær árinu 2050 mun framlag almannatrygginga svo lækka sjálfkrafa, að óbreyttu kerfi.
Einfalda leiðin til að laga þessa bilun er að draga úr skerðingum hjá TR. Það er best gert með hækkun frítekjumarks gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum. Það þyrfti að hækka úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Að draga úr skerðingum vegna lífeyrissjóðstekna skiptir flesta lífeyrisþega mestu máli og bætir haginn mest, bæði í lægri og milli tekjuhópum lífeyrisþega. Einnig þarf að hækka grunn lífeyris TR, að minnsta kosti til jafns við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
Einnig væri sjálfsagt að hækka verulega frítekjumark gagnvart atvinnutekjum, enda kostar það ríkið lítið sem ekkert, því á móti koma auknar skatttekjur sem myndu fylgja því að úr skerðingum vegna atvinnutekna væri dregið.
Málið er því tiltölulega einfalt. Laga þarf það sem bilað er í almannatryggingakerfinu, með einföldum lagabreytingum. Vilji stjórnvalda er allt sem þarf. En þann vilja hefur lengst af skort. Í staðinn hafa menn farið í bútasaum og brellur til að friða lífeyrisþega, sem oftast hafa virkað þannig að bætt hefur verið úr á einu sviði en skert enn meira á öðru. Nettó útkoman hefur svo gjarnan verið að lítið hefur breyst í kjörum lífeyrisþega.
Verkefnið er því að laga lífeyriskjör milli-kynslóðarinnar, það er þeirra sem eru þegar á lífeyri og einnig þeirra sem koma á lífeyri á allra næstu áratugum, með auknum greiðslum frá almannatryggingum. Í skýrslunni Kjör lífeyrisþega er útfærð slík umbótaleið sem kostar ekki meira en um 30 milljarða í auknum útgjöldum ríkisins til almannatrygginga. Síðan fær ríkið minnst þriðjung af því til baka í auknum skatttekjum, þannig að nettó-kostnaður þarf ekki að vera meiri en um 20 milljarðar.
Ef þetta er ekki gert þá verður megn óánægja lífeyrisþega viðvarandi í samfélaginu, allt þar til lífeyrissjóðirnir skila nægum réttindum – sem verður þó ekki fyrr en eftir árið 2055.
Án ofangreindra lagfæringa á almannatryggingakerfinu mun íslenska lífeyriskerfið í heild ekki rísa undir nafni, sem eitt af bestu lífeyriskerfum heimsins, fyrr en eftir 2055.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.