Svíþjóðardemókratar, flokkur þjóðernissinna, sigraði kosningarnar þann 11.september, en enginn flokkur á hægri vængnum er æstur í samstarf. Hægriflokkurinn vinnur að myndun stjórnar.
„Svíþjóðarvinir, eruð þið tilbúin fyrir valdaskipti?“ Þessa spurningu gargaði kampakátur þjóðernissinninn og leiðtogi Svíþjóðardemókrata (SD), Jimmie Åkesson, yfir stuðningsmenn sína á kosningavökunni hjá flokknum aðfaranótt mánudagsins 12. september. Og flokksmenn hans görguðu kampakátir játandi á móti.
Flokkurinn hafði ríka ástæðuna til að fagna, en þá var það orðið ljóst að flokkurinn og Jimmie væru sigurvegarar sænsku þingkosninganna og orðinn annar stærsti flokkur landsins, með 20,5% fylgi. Jafnaðarmannaflokkurinn er þó enn stærsti flokkur Svíþjóðar, fékk um 30,3% fylgi og bætti við sig frá kosningunum 2018.
Hægri blokkin vann þessar kosningar, fékk 176 þingmenn, en sú „rauðgræna“, vinstriblokkin, fékk 173. „Þunnur meirihluti,“ sagði fráfarandi forsætisráðherra, Magdalena Andersson, sem er fyrsta konan til að gegna því embætti, en starfaði aðeins í níu mánuði, tók við af Stefan Löfven, þegar hann lét af embætti í lok síðasta árs.
Jafnaðarmenn tapa völdum
Margt afar undarlegt einkennir þessar kosningar og niðurstöður þeirra. Jafnaðarmannaflokkurinn bætti við sig fylgi, en tapaði völdum. Hægriflokkurinn (Moderaterna) tapaði fylgi en vann forsætisráðherrastólinn, ef þannig má að orði komast.
Meðal annars eru Kristilegir demókratar með í spilinu, en þeir voru að daðra við Jimmie og vini hans í aðdraganda kosninganna. Útkoma þeirra úr þessum kosningum er þó ekki glæsileg, þeir töpuðu fylgi og meira að segja nokkuð miklu fylgi í „biblíubeltinu“ í Svíþjóð, á svæðinu við Jönköping. Það hefur hingað til verið þeirra höfuðvígi. Kristilegir fengu aðeins 5,3% atkvæða.
Grunnt á því góða
Annar smáflokkur, Frjálslyndi flokkurinn, á svo að vera með í væntanlegri hægristjórn. Sá flokkur rétt skreið yfir 4% þröskuldinn, sem þarf til að komast inn á Riksdagen, sænska þingið. Fyrir kosningarnar voru margir sem höfðu afskrifað frjálslynda, en þeir rétt mörðu þetta með nýjum leiðtoga, Johan Persson. Mjög grunnt er á því góða með frjálslyndum og Svíþjóðardemókrötum og eru þeir til sem segja að samstarf þessara flokka sé nánast ómögulegt, t.d. á sviði innflytjendamála. Í raun eru því miklar efasemdir um samstarf þessara flokka.
Í innflytjendamálum vilja Svíþjóðardemókratar algerlega kúvenda um stefnu og í raun vilja þeir flytja fólk úr landi. Árið 2009 skrifaði leiðtoginn, Jimmie, mjög umtalaða grein í Aftonbladet, þar sem hann lýsti múslimum sem „stærstu erlendu ógninni“ sem Svíþjóð stæði frammi fyrir. Hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að vinna gegn þessari ógn. Jimmie telur að innflytjendur hafi breytt Svíþjóð til hins verra og vill nota ströngustu túlkanir á samþykktum og reglum frá ESB til að hindra aðflutning til Svíþjóðar.
Vilja áhrif og „feitar“ stöður
Ljóst er að Svíþjóðardemókratar vilja hafa afgerandi áhrif í næstu ríkisstjórn og ef þeir fá ekki fólk inn í hana, þá vilja þeir að minnsta kosti gera þannig samninga um samstarf að þeirra hjartans mál komist í gegn, eins og til dæmis að nánast hætta að veita þróunaraðstoð. Svíþjóð hefur í gegnum tíðina verið mjög stór aðili í þróunaraðstoð. Þá hafa Jimmie og félagar einnig mikinn áhuga á lykilstöðum í stjórnkerfinu.
Eins og áður sagði bættu jafnaðarmenn við sig fylgi en töpuðu völdum. Hlutskipti jafnaðarmanna verður nú að leiða stjórnarandstöðuna, nokkuð sem flokkurinn er alls ekki vanur að gera. Í viðtali við SVT kom fram ótrúleg tala hjá stjórnmálafræðingnum Tommy Möller, eða þess efnis að á síðustu 90 árum hafa jafnaðarmenn aðeins verið 15 ár í stjórnarandstöðu. Þetta er því hlutverk sem flokkurinn er bara ekki vanur að vera í. Jafnaðarmenn eru vanir stjórna Svíþjóð, enda landið að mörgu leyti „sköpunarverk“ þeirra. Smá plástur fyrir jafnaðarmenn er að þeir náðu aftur völdum í borgarstjórn Stokkhólms.
Hinir tveir flokkarnir í vinstri blokkinni eru Vinstriflokkurinn, sem tapaði fylgi og fékk 6,7% og Umhverfisflokkurinn, sem reyndar bætti við sig og fékk 5,1%. Útlitið var dökkt hjá flokknum fyrir kosningar.
Hörmungar Miðflokksins, formaðurinn flaug
Á miðjunni er svo Miðflokkurinn, sem gekk hörmulega í þessum kosningum og tapaði stórt, fékk aðeins 6,7%, en fékk t.d. um 15% í kosningum árið 1982. Þetta er flokkur sem á rætur sínar á landsbyggðinni, en nú virðist sem Svíþjóðardemókratar hafi höggvið víða í fylgi Miðflokksins í dreifbýlinu.
Þann 15.september sagði formaður flokksins, Annie Lööf, af sér, eftir 11 ára setu. Hér á árum áður vann flokkurinn til hægri með því sem kalla mætti „Bandalagið“ (Alliansen), en þetta kosningabandalag náði að vinna tvennar kosningar, 2006 og 2010 og þá var hægrimaðurinn Fredrik Reinfelt forsætisráðherra.
Kosningarnar 2022 fara ef til vill á spjöld sögunnar helst fyrir þá staðreynd að þá varð flokkur sem í raun byggir á bæði rasískum, fasískum og nasískum rótum, annar stærsti flokkur Svíþjóðar og fékk stuðning 1/5 kjósenda. Það hlýtur að teljast merkilegt fyrir land sem hefur hingað til einkennst af jöfnuði, fjölbreytileika og umburðarlyndi. Er sá tími liðinn? Verður snúið frá þessum gildum?
Lýðhyggjan áberandi
Leiðtogi SD, Jimmie Åkesson, náði að spila út spili lýðhyggjunnar, „popúlismans“, og predika einfaldar lausnir á flóknum vandamálum. Hann náði t.d. líka að spila á hræðslu fólks við glæpi og lofar harðari refsingum vegna glæpa. Glæpir, morð og önnur óáran var eitt aðalefni kosninganna, enda metfjöldi verið skotinn til bana í Svíþjóð það sem af er ári.
Af Jimmie verður heldur ekki tekið að hann er snjall ræðumaður og hann vill gera Svíþjóð „sænska“. Þjóðernishyggja hans á sér engin takmörk. Allt sem minnir nokkuð á það sem var í gangi í Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Þar var „snjöll ræðumennska“ í lykilhlutverki, sem og bullandi þjóðernishyggja. Það fór illa.
Jimmy hefur þó hamast við að reyna að þvo „nasismann“ af flokknum, en það er sennilega verkefni sem mun fylgja honum svo lengi sem hann verður leiðtogi flokksins. Það gengur hins vegar ekki vel, nasískar rætur flokksins munu fylgja honum eins og skugginn og sagan lýgur ekki.
Erfið viðfangsefni
Viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar eru mikil og erfið. Staðan í efnahagsmálum er slæm, verðbólga nálgast 10% og spámenn í málaflokknum spá jafnvel samdrætti í Svíþjóð, kreppu. Þá er í Brussel, höfuðstöðvum NATO, virk umsókn frá Svíum (og Finnum) og það mál þarf að klára. En þar eru Tyrkir með stæla og hóta að hindra inngöngu.
Einnig munu Svíar um næstu áramót taka við stjórn leiðtogaráðs ESB og stjórnun á starfsemi sambandsins. Um 150 fundir eru skipulagðir á því hálfa ári sem Svíar stýra ESB. Gríðarlegar hækkanir á matvöru og orku í Svíþjóð eru einnig viðfangsefni nýrrar stjórnar. Þá hefur skautunin í sænskum stjórnmálum einnig aukist og margir tala um að kosningabaráttan hafi verið óvægin og því aukið skautunina, bilið á milli manna út frá hugmyndafræði stjórnmálanna. Þetta er alþjóðleg tilhneiging sem sést hvað best í Bandaríkjunum.
Ulf Kristerson, leiðtogi hægrimanna, þarf að vera klár með stjórn í lok september. Stjórnarmyndanir hafa undanfarið verið mjög erfiðar í Svíþjóð sökum sérkennilegs ástands í sænskum stjórnmálum, en það tók rúma fjóra mánuði að mynda þá ríkisstjórn sem nú er að láta af völdum.
Allt getur því gerst og Ulf þarf því að beita klókindum, verkefni hans er ekki auðvelt. Hann er hins vegar tilbúinn að bretta upp ermar fyrir land og þjóð. Hverjir verða svo með í „púkkinu“ skýrist ef til vill á næstu vikum.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og var fréttaritari RÚV í Svíþjóð frá 1998-2007.