Það þarf ekki mikið út af að bregða í framkvæmd kosninga, til að úr verði afdrifarík breyting varðandi niðurstöðu sömu kosninga. Þetta sýna dæmi úr kosningum til Alþingis síðasta haust og dæmi úr nýafstöðnum kosningum til sveitastjórna.
Ferskar eru enn í minni, þær miklu sviptingar sem áttu sér stað eftir kosningar til Alþingis síðasta haust, eftir endurtalningu urðu miklar hrókeringar og ansi ólíkar niðurstöður frá því sem fyrri tölur gáfu. Eftir fyrri talningu voru konur í meirihluta á þingi, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, sem hefði verið einsdæmi í Evrópu. Þær voru 33 talsins. Miðað við fyrri tölur færi inn á þing yngsti þingmaður nokkru sinni til að ná kjöri, Lenya Rún Taha Karim frá Pírötum, þá tuttugu og eins árs gömul. Eftir endurtalningu duttu fimm frambjóðendur út af þingi og fimm aðrir komu inn. Endurtalningin hafði þannig áhrif á stöðu tíu frambjóðenda. Konur voru ekki lengur í meirihluta á þingi og yngsti þingmaðurinn var ekki lengur inni.
Ýmislegt miður heppilegt fór að koma í ljós varðandi meðhöndlun á kjörgögnum og umfjöllunin sem birtist í fjölmiðlum næstu daga og framvinda málsins öll var hálf ótrúleg og ljóst fór að verða að rof hafi orðið á þeirri keðju trausts sem ríkja á milli þeirra sem standa að framkvæmd kosninga og kjósenda sjálfra. Kjörgögnin höfðu ekki alltaf verið varin samkvæmt lögum og reglugerðum og ekki hafði alltaf verið faglega staðið að málum.
Utankjörfundaratkvæði og niðurstöður kosninga í Garðabæ
Við nefnum hér síðastliðnar kosningar til Alþingis sem dæmi um kosningar þar sem framkvæmd hefði getað verið betri og dæmi um það þegar framkvæmd kosninga leiðir síðar af sér gjörbreytta niðurstöðu. Nú eru sveitarstjórnarkosningar nýafstaðnar og aftur stöndum við frammi fyrir því að betur hefði getað verið staðið að framkvæmdinni og að framkvæmdin sjálf hefur jafnvel haft áhrif á niðurstöðu þeirra. Um er að ræða utankjörfund í Holtagörðum og Garðabæjarlistann í Garðabæ.
S+P+V eru G, en S eru ekki talin til G
Í Garðabæjarlistanum er fólk úr Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og óháðum. Garðabæjarlistann vantaði einungis 12 atkvæði til að ná þriðja bæjarfulltrúa inn í bæjarstjórn. Nokkrir umboðsmenn listanna skoðuðu atkvæðin sem höfðu verið úrskurðuð ógild. Samtals voru það um 40 atkvæði, í þeim bunka voru 23 utankjörfundaratkvæði, þar af voru 14 þeirra merkt bókstafnum S, 6 atkvæði merkt bókstafnum V og 3 atkvæði merkt bókstafnum P. Því var þriðjungur ógildra atkvæða utankjörfundaratkvæði greidd S, sem ekki var í framboði.
Í kjölfarið fór fram endurtalning í Garðabæ vegna þess hve litlu munaði á atkvæðafjölda. Umboðsmaður Garðabæjarlistans lagði fram bókun við endurtalningu og vakti athygli á því og sagði að það kæmi til álita að atkvæði merkt S, V og P yrðu talin til Garðabæjarlistans en formaður kjörstjórnar sagði ógerlegt að gera það. Niðurstaða endurtalningar var sú sama og í fyrri talningu og leiddi í ljós óbreytta talningu atkvæða.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir oddviti Garðabæjarlistans sagði í viðtali við fréttastofu Rúv að þetta væri auðvitað mjög svekkjandi, en að þetta væri miklu stærra mál en að það snúi bara að úrslitum í Garðabæ. Hún sagði að Garðabæjarlistinn legði áherslu á að verklaginu yrði breytt og að þetta yrði í lagi næst þegar kosið yrði.
Eina leiðin til að fá úr skorið hvort nægjanlega öruggt megi telja að kjósendur sem ætluðu sér að kjósa Þorbjörgu og Garðabæjarlistann og settu S á kjörseðilinn, teljist til atkvæða Garðabæjarlistans eins og 2002, er að fá úrskurð úrskurðarnefndar kosningamála. Umboðsmaður Garðabæjarlistans sendi Landskjörstjórn fyrirspurn fyrir helgi, en kærufrestur rann svo út síðastliðin sunnudag og hafði honum þá enn ekki borist svar.
Ekki var farið eftir reglugerð við framkvæmd utankjörfundar. Líklegt er að það hafi haft áhrif á niðurstöðuna í Garðabæ
Þegar kjósandi mætti til utankjörfundar í Holtagörðum blasti við í kjörklefa val af stimplum með öllum bókstöfum framboða sem buðu fram á landinu. Viðkomandi kjósandi hefði því þurft að skoða upplýsingar varðandi þau framboð sem velja mátti milli í hans kjördæmi, svo gæti hann þá gengið inn í kjörklefann og stimplað inn bókstaf sem samsvaraði því framboði sem hann veldi að kjósa. En hafði kjósandinn aðgang að réttum upplýsingum?
Bent hefur verið á að framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu hafi ekki verið í samræmi við reglugerð. Umboðsmaður Pírata, sem einmitt er annar höfunda þessarar greinar, er á meðal þeirra sem gert hafa athugasemd við að upplýsingar um framboðslista og frambjóðendur héngu ekki uppi í kjörklefum eins og kveðið er á um í reglugerð. Hann birti nýverið grein sem titluð er Fyrirmælum reglugerðar ekki fylgt við kosningu utan kjörfundar þar sem fram kemur að á utankjörfundarstað í Holtagörðum, en þaðan komu nær öll utankjörfundar atkvæðin, hundsaði kjörstjóri lengst af að hengja upp lista yfir framboð allra sveitarfélaga þrátt fyrir margendurteknar ítrekanir umboðsmanna. Listinn kom fyrst upp nokkrum dögum fyrir kjördag. Þannig áttu kjósendur mjög erfitt með að vita hvaða framboð væru í boði, til dæmis í Garðabæ.
Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmenn fengu, þegar þeir spurðu út í það hvað starfsmenn kjörstaðarins hefðu gert þegar kjósendur spurðu þau út í það hvaða listar væru í framboði, var kjósendum sagt að "gúggla" framboðin. Ef fólk „gúgglaði þá“, og nú, rétt eftir kosningar er það enn svo: „Framboðslistar í Garðabæ" þá kom fyrst og efst upp síða sem heitir „Framboðslistar í kjöri í Garðabæ" Á þeirri síðu er framboð S-lista auglýst, en þar segir:
„S listi. Listi Garðabæjarlistans, Bæjarmálafélags Garðabæjar.
Þessi síða er frá 2002. Kjósendur sem fara að ráði starfsmanna kjörstaðar og gúggla framboðin í Garðabæ fá því upp S - lista.“
Í 103 gr. nýrra kosningalaga segir um mat á gildi atkvæðis sem greitt er utan kjörfundar.
Atkvæði sem greitt er utan kjörfundar skal meta ógilt ef:
„a. kjörseðill er auður,
b. ekki má með öruggum hætti sjá hvaða framboðslista eða frambjóðanda kjósandi hefur viljað greiða atkvæði sitt.“
Samkvæmt okkar upplýsingum er það svo að ef kjósandi skrifar til dæmis nafn efsta manns listans á utankjörstaðakjörseðilinn þá teljist atkvæðið greitt þeim lista sem nafnið er á.
Nú er spurningin: Dugir stafurinn S á utankjörfundakjörseðli til að sjá með öruggum hætti hvaða framboðslista eða frambjóðanda kjósandi hefur viljað greiða atkvæði sitt eins og segir í 103 greininni? Viðkomandi var væntanlega annað hvort að kjósa Samfylkinguna sem er hluti af framboði Garðabæjarlistans, eða að kjósa Garðabæjarlistann sjálfan með eldri bókstaf fyrir framboðið, áður var framboðið undir bókstafnum S en nú er það undir bókstafnum G.
Við nánari skoðun á fyrri kosningum kom fram að í Alþingiskosningunum 2003 hafi Vinstri Græn haft stafinn U þar sem Kvennalistinn hafði áður haft stafinn V en var þá ekki í framboði. Við utankjörfundaatkvæðagreiðslu komu upp nokkur fjöldi kjörseðla sem voru merktir V. Var ákveðið í öllum kjördæmum landsins að telja atkvæði merkt V sem atkvæði merkt U. Þar er fengið fordæmi sem hefði líklega dugað til að kjósa þriðja bæjarfulltrúa Garðabæjarlista.
Gerum betur næst
Píratar berjast alltaf fyrir bættum ferlum og réttmætu aðgengi að upplýsingum. Í þessu tilviki snýst málið einfaldlega um að fólk hafi upplýsingar um það hvað það er að kjósa, hverjir valkostirnir eru og hvernig skuli réttilega merkja sitt val. Í grunninn snýst þetta um rétt kjósanda til réttra upplýsinga til að geta nýtt lýðræðislegan rétt sinn til að greiða atkvæði.
„Upplýsingar um framboðslista eða forsetaefni skulu vera til staðar þar sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram á þeim stöðum sem tilgreindir eru í 1.-2. Tölul. 1. Mgr. 69. Gr. og 70. Gr. kosningalaga skulu slíkar kosningaleiðbeiningar að jafnaði festar upp á áberandi stað. [...] Upplýsingar um framboðslista eða forsetaefni skal hengja upp á áberandi stað á kjörstað.“
Við köllum eftir breyttum vinnubrögðum og aukinni fagmennsku þegar kemur að framkvæmd kosninga. Við höfum tækifæri til að tryggja eðlilegt aðgengi að upplýsingum á utankjörfundarstöðum í næsta skipti. Að sjálfsögðu yrði það fagnaðarefni fyrir Garðabæjarlistann ef niðurstaðan yrði sú að atkvæði merkt S yrðu talin sem atkvæði greidd Garðabæjarlistanum, en aðal markmið okkar nú er að tryggja rétta framkvæmd næst. Ef tekið hefði verið mark á umkvörtunum umboðsmanna væri tæplega vafi um niðurstöðuna. Ef það eru hnökrar á framkvæmd sem stjórnvöld bera ábyrgð á, ætti kjósandinn að njóta vafans.
Framkvæmd kosninga getur haft áhrif á niðurstöðu kosninga. Það er mikilvægt að almenningur geti treyst því að framkvæmd hinna lýðræðislegu ferla séu viðunandi og þannig sé hægt að treysta niðurstöðum kosninga. Fagleg framkvæmd kosninga er mikilvæg til að tryggja traust kjósenda á ferlinu.
Það er mikilvægt, til að almenningur geti treyst kosningaferlinu og að um það ríki góð sátt, að kjósendur hafi greiðan aðgang að þeim upplýsingum sem eiga að liggja fyrir, áður en inn í kjörklefann er gengið og það er mikilvægt að kjósendur geti treyst því að kjörgögn verði réttilega innsigluð, meðhöndluð og talin og að farið sé eftir reglugerðum og lögum, þó svo að kannski hafi vaninn áður verið annar en sá sem kemur fram í gildandi lögum og reglugerðum. Með auknu trausti og sátt ættum við að fá betri hugarró, sjá aukna kjörsókn og upplifa meiri sátt um störf kjörinna fulltrúa.
Greta Ósk Óskarsdóttir er Pírati sem sat í 7. Sæti Garðabæjarlistans og Indriði Ingi Stefánsson er Pírati og umboðsmaður Pírata í Kópavogi, varaþingmaður Suðvestur kjördæmis og verðandi varabæjarfulltrúi í Kópavogi.