Hlutverk peninga er einkum þríþætt, greiðslumiðlun, geymsla verðmæta og eining fyrir bókhald (e. unit of account) eða eins konar mælikvarði á verðmæti. Krónan virkar vel innanlands í hlutverki sínu sem greiðslumiðill. Þeir tímar eru liðnir að skortur sé á peningum; kreditkort og aðrir rafrænir miðlar tryggja að öll viðskipti innanlands ganga snuðrulaust fyrir sig. Sem geymsla fyrir verðmæti fær krónan hins vegar falleinkunn, verðgildi hennar hefur rýnað ár frá ári, yfir 99% samanborið við t.d. danska krónu, allt frá því að landið fór af gullfætinum eftir fyrstu heimsstyrjöldina. Í samræmi við þetta er notagildi krónunnar lítið sem bókhaldseining yfir lengri tíma litið. Þetta endurspeglast í því að mörg fyrirtæki gera upp í evru eða dal. Stórútgerðin sem berst einna harðast gegn því að almenningur njóti stöðugs gjaldmiðils eins og evru notar sjálf evruna í sínu bókhaldi.
Þótt krónan uppfylli augljóslega ekki gæðakröfur sem gerðar eru almennt til gjaldmiðla er mikilvægasta spurningin hvort hún hafi gefist vel sem tæki til hagstjórnar. Ekki er einfalt svar við þessari spurningu enda hefur hagfræðinga löngum greint á um það hvort fast eða fljótandi gengi henti betur til hagstjórnar. Hér á landi er því einkum haldið á lofti að gengisfall hjálpi til við að halda uppi atvinnustigi. Árin 1967 og 1968 varð mikill aflabrestur, gengi krónunnar var lækkað og tvöfaldaðist verð Bandaríkjadals á tveimur árum. Atvinnuleysi jókst en mestu munaði um fólksflótta frá landinu þar sem fjöldi Íslendinga fann sér atvinnu erlendis. Ekki fjölgaði þorskum í hafinu við gengisfellinguna en mikill viðskiptahalli olli áhyggjum enda erfiðara að fjármagna erlendar skuldir á þessum árum. Fljótlega bötnuðu aflabrögð og viðskiptakjör frá árinu 1969 en gengisfellingin sáði fræjum óðaverðbólgu sem átti eftir að herja á landsmenn árum saman og endaði sú hrollvekja ekki fyrr en með þjóðarsáttinni í byrjun tíunda áratugarins.
Eftir ofris og fall krónunnar kringum bankahrunið jókst atvinnuleysi mikið. Gengisfellingin kom ekki í veg fyrir atvinnuleysi vegna fjármálahrunsins. Það birti ekki til fyrr en ferðamenn streymdu til landsins eftir að landið komst í tísku meðal annars vegna þeirrar athygli sem Eyjafjallagosið skapaði ásamt framboði á ódýrum flugferðum. Athygli vekur að ferðamannastraumurinn náði hámarki á árunum fyrir Covid þrátt fyrir mikla hækkun raungengis krónunnar. Í Covid faraldrinum sem er hvergi nærri yfirstaðinn hefur atvinnuleysi aukist en atvinnustig hefur lagast ekki síst vegna sértækra aðgerða stjórnvalda. Gengisfallið í fyrra hafði augljóslega engin áhrif á fjölda ferðamanna.
Hjálpin sem fellst í gengislækkun krónunnar er aðallega tilflutningur á tekjum frá launafólki og fyrirtækjum sem framleiða fyrir innanlandsmarkað til útflutningsatvinnuvega. Það er misskilningur að tekjuöflun (t.d. listamanna) eða framleiðsla fyrir innanlandsmarkað sé minna virði en útflutningur. Það sem skiptir máli er arðsemi framleiðslunnar. Útflutningsatvinnuvegir sem byggja á náttúruauðlindum eru háðir framboðstakmörkunum þar af leiðandi kemur lægri launakostnaður ekki fram í mikilli framleiðsluaukningu. Óhjákvæmilegur fylgifiskur veikingar krónunnar er verðbólga langt yfir því sem evrusvæðið býr við. Nú er verðbólgan nálægt 5% sem kallar á vaxtahækkanir og hækkun verðtryggðra lána.
Tími fyrir breytta peningastefnu
Verðbólgumarkmiðið sem tekið var upp um aldamótin er einfallt kerfi þar sem seðlabanki hefur eitt markmið, verðstöðugleika, og eitt stýritæki til að ná því, stýrivexti. Engin vafi er á því að stýrivextir hafa áhrif á heildareftirspurn og þar með verðlag til lengri tíma litið. Slík peningastefna getur verið skynsamleg í stórum hagkerfum þar sem fjármagnsmarkaðir eru djúpir og fjölbreytt innanlandsframleiðsla. Í örsmáum hagkerfum er innflutningsverð hins vegar afgerandi fyrir verðlag. Myndin verður enn flóknari ef fjármagnsflutningar eru frjálsir. Höft og stýritæki til að hafa stjórn á þeim margvíslegu öflum sem hafa áhrif á verðlag og fjármálastöðugleika eru að hluta til vegna veikleika krónunnar. Að þessu leyti minnir þróun síðustu ára á áætlunarbúskap gamla sovétsins þar sem alltaf þurfti að stýra meiru og meiru uns hagkerfið staðnaði í skriffinsku og alsherjar rugli. Peningastefnan sem nú er við lýði er flókin og dýr fyrir fyrirtæki og almenning. Engin leið er að gera fjárhagsáætlanir fram í tímann, verðbólgan er óbeisluð og traust á gjaldmiðlinum lítið. Þar með er ekki sagt að Seðlabankinn hafi útfært verðbólgumarkmiðið sem slíkt með röngum hætti. Þótt deila megi um ákvarðanir um vaxtabreytingar virðast þær yfirleitt hafa verið vel rökstuddar og tímanlegar. Það er grunnhugmyndin um sjálfstæða örmynt án bakhjarls í evru (eða gullfæti) sem virkar ekki.
Völ er á skilvirkara og einfaldara peningakerfi. Hefðbundið myntráð við evru og síðan innganga í evrusvæðið sparar mikla fjármuni, tryggir stöðugleika ásamt lægra vaxta- og verðbólgustigi en hér hefur verið við lýði. Jafnfram styrkir slíkt peningakerfi virkni markaðarins og frjálsa samkeppni.
Sterk rök mæla með því að Ísland stigi skrefið til fulls inn í Evrópusambandið. Málflutningur andstæðinga evru og inngöngu í Evrópusambandið er rakalaus þar sem fyllt er í göt fáfræðinnar með fordómum. Með aðild að evrópska efnahagssvæðinu og innleiðingu á fjórfrelsinu er íslenskt atvinnulíf nú þegar innan ramma Evrópusambandins. Mikilvægasta breytingin með fullri aðild er að hægt er að taka upp evru, Ísland fær ákvörðunarvald og aðgengi að byggðasjóðum sambandsins. Jafnfram losnar almenningur undan núverandi landbúnaðarkerfi og innflutningshöftum sem hafa rýrt lífskjör þjóðarinnar.
Kosningarnar í haust
Veiti kjósendur núverandi stjórnarflokkum, stóra Sjálfstæðisflokknum, aftur brautargengi er næsta víst að engar efnahagslegar framfarir verða hér næstu fjögur árin og sérhagsmunir stórútgerðarinnar verða festir í sessi. Í stað flokka sem fylgja úreltri stefnu og hafa enga framtíðarsýn er betri valkostur að kjósa Viðreisn sem hefur vel útfærða stefnu sem miðar meðal annars að aukinni Evrópusamvinnu og upptöku evru til hagsbóta fyrir almenning. Viðreisn styður einnig nauðsynlegar og löngu tímabærar breytingar á stjórnarskrá sem er forsenda fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru.