Hjúkrunarheimili – tekjur, eignir og erfðir

Indriði H. Þorláksson kemur með tillögur um úrbætur á rekstri hjúkrunarheimila.

Auglýsing

Hug­leið­ingar og áform um grein kvikn­aði við að lesa athygl­is­verðri skýrslu Gylfa Magn­ús­sonar o.fl. um rekstur hjúkr­un­ar­heim­ila og að heyra við­brögð við henni. Ég lét þó kyrrt liggja þar til mér mál­kunn­ugur mað­ur, Jón Hjart­ar­son fyrrum skóla­stjóri á Kirkju­bæj­ar­klaustri, hafði sam­band við mig og lýsti skoð­unum áþekkum mínum á efn­inu sem hann hafði reynt að koma á dag­skrá á öðrum vett­vangi með minn­is­blaði. Sam­talið við hann og minn­is­blaðið sann­færði mig um að hug­leið­ingar mínar væru ekki bara mín eigin sér­viska og varð kveikjan að því sem á eftir fer. Minn­is­blað Jóns er í lok grein­ar­inn­ar.

Skýrsla heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins um stöðu hjúkr­un­ar­heim­il­anna, unnin af Gylfa Magn­ús­syni pró­fessor o.fl., vakti athygli á fjár­hags­legum vanda þeirra. Nið­ur­stöður hennar komu ekki á óvart. Þröngur fjár­hags­rammi þeirra hefur verið í fréttum á síð­ustu miss­erum og er talin ógnun við þjón­ustu rík­is, sveit­ar­fé­laga og félaga­sam­taka, sem byggja vilja upp mann­sæm­andi aðstæður fyrir aldr­aða og veik­burða sem gæti opnað smugur fyrir pils­falda­kap­ít­alista til að hagn­ast með þjón­ustu­skerð­ingu.

Við­brögð við skýrsl­unni voru að því leyti von­brigði að flestir sem hana ræddu sáu ekki í henni annað en venju­legan bar­lóm ein­hvers þáttar rík­is­bú­skap­ar. Engin grein­ing var gerð á ástæðum vand­ans eða leiðum til úrlausna en vikið að því að hugs­an­lega mætti draga úr vand­anum með ódýr­ari úrræðum svo sem heima­hjúkr­un. Það er góðra gjalda vert að styrkja og efla aðstoð við aldr­aða utan sjúkra­stofn­ana en það leysir ekki vanda hjúkr­un­ar­heim­ila og getur ekki komið í stað þeirra. Lýð­fræði­leg þróun og lækn­is­fræði­legar fram­farir hafa leitt til þess að þeim sam­borg­urum fjölgar að til­tölu sem á síð­ustu ævi­ár­unum eru ekki sjálf­bjarga um dag­legar athafnir og þurfa aðhlynn­ingu og aðstoð allan sól­ar­hring­inn umfram getu fjöl­skyldu og heim­il­is.

Auglýsing

Þessi hópur er all­stór og fer vax­andi á næstu árum. Á það er bent í skýrsl­unni og um það vitna biðlistar eftir hjúkr­un­ar­vistun og frá­flæð­is­vandi sjúkra­húsa. Hann á eins og aðrir hópar rétt á heil­brigð­is­þjón­ustu og félags­legri aðstoð í sam­ræmi við þarfir sín­ar. Opin­berir aðilar og einka­stofn­anir sem helgað hafa sig þjón­ustu við þennan hóp hafa sýnt að hana er hægt að veita með góðum árangri. En hún kostar mikið fé og gott skipu­lag. Verk­efni stjórn­valda í þessum mála­flokki er að koma á skil­virku skipu­lagi og finna fé til að sinna þessum sam­borg­urum sem vert er. Umræða um þetta mál er áskorun til stjórn­mála­flokk­anna í aðdrag­anda kosn­ing­anna. Stjórn­mál eiga ekki að vera sand­kassa­leikur með slag­orð heldur raun­hæfar aðgerðir til almanna­heilla.

Félags­legar og fjár­hags­legar for­sendur elli­ára

Fyrir hund­rað árum bjuggu um 70% íbúa lands­ins í sveitum eða smá­þorpum en um 30% á stærri stöð­um. Sam­býli tveggja til þriggja kyn­slóða var ríkj­andi fjöl­skyldu­form. Stór­fjöl­skyldan sá um fram­færslu með­lima sinna með þeim tekjum sem hún afl­aði og eignir hennar nýtt­ust öllum frá vöggu til graf­ar. Fram­færsla á vegum hins opin­bera var lít­il. Fimm­tíu árum síðar höfðu töl­urnar snú­ist við, 70% lands­manna bjuggu í þétt­býli, stór­fjöl­skyldan hafði klofnað í ald­ursein­ing­ar, eldri for­eld­rana ann­ars vegar og upp­vaxin börn þeirra hins veg­ar, fram­færslu­keðjan innan fjöl­skyld­unnar hafði rofnað og fram­færsla á vegum hins opin­bera hafði vax­ið. Fram­færslu­eyrir aldr­aðra og óvinnu­færra var líf­eyrir almanna­trygg­inga, sjálfsaflafé og eignir sem safn­ast höfðu upp fyrst og fremst í íbúð­ar­hús­næði.

Öðrum fimm­tíu árum síðar er sviðið enn gjör­breytt. Innan við 10% þjóð­ar­innar búa í strjál­býli og skil í lifn­að­ar­háttum eftir búsetu eru hverf­andi. Með­al­ævi­lengd hefur auk­ist og í stað stór­fjöl­skyldu eða tveggja kyn­slóða eru komnar þrjár fjár­hags­lega aðgreindar ald­ursein­ing­ar. Gamla fólkið á líf­eyr­is­aldri, börn þess komin yfir miðjan aldur og að lokum barna­börn þess á miðju starfs­aldri. Engin form­leg fram­færslu­tengsl eru milli þess­ara ald­ursein­inga en lág­marks­fram­færsla aldr­aða og óvinnu­færa er orð­inn skylda hins opin­bera vel­ferð­ar­kerf­is. Ber­andi þættir í fram­færslu­kostn­aði aldr­aðra eru greiðslur úr líf­eyr­is­sjóðum og nýt­ing á eignum þeirra einkum eigin íbúð­ar­hús­næði meðan aðstæður leyfa eða sölu­and­virði þess.

Þessi sam­fé­lags­breyt­ing hefur haft góð áhrif á aðbúnað og heil­brigð­is­þjón­ustu við þá sem þurfa aðhlynn­ingu umfram það sem heim­ili og aðstand­endur geta veitt. Hins vegar hefur ekki tek­ist að ganga frá fjár­hags­legum for­sendum þeirrar þjón­ustu með við­un­andi hætti, etv. vegna þess að ekki er bara um að ræða heil­brigð­is­þjón­ustu, almennt við­ur­kennt sam­fé­lags­verk­efni, heldur einnig fram­færslu og per­sónu­lega þjón­ustu, þ.e. eitt­hvað sem almenn­ingur þ.m.t. aldr­aðir utan stofn­ana greiða af tekjum sínum eða eign­um. Núver­andi fyr­ir­komu­lag á greiðslum fyrir dval­ar­kostnað á hjúkr­un­ar­heim­ilum tekur ekki nægi­lega mið af þessu. Visst til­lit er tekið til skatt­skyldra tekna vist­manns en alveg er litið fram hjá öðrum tekjum og eignum hans og makans sem deilir fjár­hag með honum en þessir atriði hafa oft meiri áhrif á afkomu aldr­aðra en þær tekjur sem birt­ast á skatt­skýrslu þeirra.

Reglur um þátt­töku vist­manna í kostn­aði við dvöl hjúkr­un­ar­heim­ili

Sjúkra­trygg­ingar leggja mat á þann kostnað sem áætlað er falli til vegna vist­unar manns á stofnun við hæfi við­kom­andi aðila og er hjúkr­un­ar­heim­il­inu greidd sú fjár­hæð. Hluti hennar er greiddur af vist­mann­inum með hlið­sjón skatt­skyldum tekjum hans en þó þannig að hann heldur eftir ákveð­inni lág­marks­fjár­hæð til ann­arra per­sónu­legra nota. Það sem á vantar greiðir hið opin­bera. Vist­menn hjúkr­un­ar­heim­ila hafa jafnan ekki atvinnu­tekjur og skatt­skyldar tekjur eru því nær ein­göngu líf­eyrir og skatt­skyldar eigna­tekjur sem eru metnar að hálfu.

Reglur þessar virð­ast fljótt á litið rök­réttar og benda til þess að þeim hafi verið ætlað að meta greiðslu­getu vist­manna með það fyrir augum að hver og einn greiði þann dval­ar­kostnað sem tekjur hans duga til en það sem umfram er sé greitt úr sam­eig­in­legum sjóði lands­manna. Við nán­ari skoðun vakna þó spurn­ingar um rétt­mæti þess­ara reglna og hvort þær þjóni til­gangi. Efinn stafar fyrst og fremst af því að við­mið­un­in, skatt­skyldar tekj­ur, er ekki góður mæli­kvarði á greiðslu­getu vist­manna þ.e. á það sem við­kom­andi hefði haft úr að spila hefði hann ekki þurft að dvelja á hjúkr­un­ar­heim­ili. Ef nei­kvæður munur er á reikn­aðri greiðslu­getu skv. regl­unum og raun­veru­legri greiðslu­getu, hverfur sá munur ekki. Hann er greiddur hjúkr­un­ar­heim­il­inu með sköttum á almenna borg­ara en rennur í reynd til aðstand­enda vist­manns­ins, þ.e. maka hans og síðar arf­taka. Nokkur atriði og dæmi skulu nefnd til að skýra þetta.

Afkoma aldr­aðra eftir að starfsævi lýkur ræðst ekki ein­göngu af þeim skatt­skyldu tekjum sem þeir hafa, þ.e. líf­eyri og skatt­skyldum fjár­magnstekjum svo sem vöxt­um, arði, leigu og sölu­hagn­aði verð­bréfa. Aðrar tekjur þeirra og eignir skipta ekki síður máli. T. d. á eig­andi íbúðar að verð­mæti 80 m.kr. kost á því að búa í henni meðan það hentar honum eða selja hana og hefur þá 80 m.kr. skatt­frjálsar tekjur til ráð­stöf­un­ar. Séu skatt­skyldar tekjur hans hinar sömu og hjá eigna­lausum ein­stak­lingi er báðum þó gert að greiða hið sama í dval­ar­kostnað en skatt­frjálsu tekj­urnar og eign­irnar renna til erf­ingj­anna þegar þar að kem­ur.

Vist­maður á hjúkr­un­ar­heim­ili sem á veru­legar eignir eða hefur skatt­frjálsar tekjur er sjaldan í færum til að nýta þær sjálfur til eigin fram­færslu eins og hann hefði gert að öðrum kosti og hefur oft lít­inn rétt hjá líf­eyr­is­sjóði. Mestur hluti dval­ar­kostn­aðar hans verður því greiddur af hinu opin­bera á sama tíma og eignir hans og skatt­frjálsar tekjur renna til maka og erf­ingja.

Líf­eyr­is­tekjur hjóna er yfir­leitt mis­háar og munar oft miklu vegna kyn­bund­ins launa­munar og minni atvinnu­þátt­töku kvenna. Verði annað hjóna að dvelja á hjúkr­un­ar­heim­ili skiptir það máli fjár­hags­lega hvort þeirra það er. Sé það tekju­hærri mak­inn kann svo að fara að dval­ar­kostn­að­ur­inn verði að fullu greiddur af líf­eyr­is­tekjum hans en tekju­lægri mak­inn situr í búinu með skert fram­færslu­fé. Dvelji tekju­lægri mak­inn á hjúkr­un­ar­heim­il­inu, greiðir hann lítið í dval­ar­kostnað en tekju­hærri mak­inn situr í búinu með létt­ari fram­færslu en áður en nær óbreytt fram­færslufé og sam­eig­in­legar bús­eignir sem hann getur ráð­stafað án þess að það hafi áhrif á fjár­hags­stöðu makans. Núver­andi reglur mis­muna þannig hjónum inn­byrðis þeim maka í óhag sem lægri tekjur hef­ur.

Fleiri dæmi um galla á gild­andi reglum mætti telja upp. Í flestum til­vikum er ekki við regl­urnar sjálfar að sakast en miklu fremur við rangar for­sendur um fram­færslu- eða greiðslu­getu vist­manna sem þær mið­ast við. Skatt­skyldar tekjur eru ónot­hæfur mæli­kvarði í því efni.

Ólík­legt er að það fyr­ir­komu­lag sem lýst er hér að framan end­ur­spegli afstöðu aðstand­enda vist­manna á hjúkr­un­ar­heim­il­um. Þeir vita öðrum betur hve mik­il­vægt er að aðbún­aður og þjón­usta við vist­menn sé með sem bestum hætti og gera sér grein fyrir því hve miklu þarf til að kosta. Óhætt er að full­yrða að vilji þeirra flestra sé að allar tekjur og eignir við­kom­andi ein­stak­lings séu nýttar honum til fram­færslu og auk­inna lífs­gæða svo lengi sem þær duga til en eftir það taki hið opin­bera vel­ferð­ar­kerfi við. Frá­leitt sé að sér­hags­munir í erfða­málum hafi áhrif.

Eignir og erfðir kyn­slóð­anna

Eigið fé eftir aldurshópum.

Ein afleið­ing núver­andi reglna um dval­ar­kostnað á hjúkr­un­ar­heim­ilum er að veru­legir fjár­munir sem undir venju­legum kring­um­stæðum hefði nýst vist­manni til fram­færslu gera það ekki eftir að hann hefur verið vistaður á hjúkr­un­ar­heim­ili heldur renna til maka og síðar sem arfur til ann­arra erf­ingja. Þessi yfir­færsla eigna milli kyn­slóða sam­ræm­ist etv. mynstri stór­fjöl­skyld­unni sem sá um fram­færslu aldr­aðra fyrir 50 - 100 árum og jafn­vel tveggja kyn­slóða fjöl­skyld­unum áður en fram­færsla aldr­aðra varð hluti af skyldum opin­berra aðila. Í fjöl­skyldu­mynstri nútím­ans þar sem hver kyn­slóð er sjálf­stæð fjár­hags­leg ein­ing án form­legrar fram­færslu­skyldu út fyrir hana er þessi yfir­færslu eigna í mót­sögn við þá meg­in­reglu að hver og einn sjái um sína fram­færslu af eigin aflafé og eign­um. Við það er því að bæta að ríkj­andi við­horf í erfða­málum einkum varð­andi erfða­fjár­skatt eru í ósam­ræmi við efna­hags­legar og félagslegar aðstæður í sam­fé­lag­inu og þjóna litlum til­gangi öðrum en þeim að byggja upp eignir hjá þeim sem mikið hafa fyrir og þurfa lítt á meiru að halda.

Taflan hér til hliðar sýnir eigið fé, þ.e. eignir að frá­dregnum skuld­um, íslenskra fjöl­skyldna í árs­lok 2019 miðað við aldur elsta fjöl­skyldu­með­lims. Hún sýnir einnig með­al­tal eigin fjár miðað við heild­ar­fjölda í hverjum ald­ursár­angi og hlut­fall eigin fjár af heild í hverju ald­urs­bili. Tafla sýnir að nærri 40% eigin fjár er hjá fólki sem er 67 ára eða eldra. Önnur 40% eru hjá þeim sem eru 50 til 66 ára. Rest­in, 20%, dreif­ist á þá sem eru á aldr­inum 25 til 50 ára. Í krónum er eign elsta hóps­ins um 46 millj­ónir króna að jafn­aði á fjöl­skyldu en fer lækk­andi niður að með­al­tali heild­ar­inn­ar, um 21 milljón króna, hjá þeim sem eru 50 - 54 ára og lækkar svo enn frek­ar. Tekið skal fram að dreif­ing eigin fjár innan ald­urs­hópanna er mjög mik­il, einkum innan eigna­meiri hópanna auk þess sem að eigið fé er van­metið m.a. vegna verð­skrán­ingar á eign­ar­hlutum í félög­um.

Þessi eigna­dreif­ing kemur ekki á óvart. Hún end­ur­speglar fjár­hags­legan feril flestra, sem koma snauðir eða skuldum vafnir inn á vinnu­mark­að. Myndun eigin fjár er hæg framan af á meðan fjöl­skyldu­út­gjöld eru há vegna barna­upp­eld­is, náms­lána, hús­næð­is­kaupa eða leigu o.s.frv. Um miðjan aldur verður breyt­ing hér á. Útgjalda­þörfin minnkar þegar börnin eru farin að heiman, fast­eigna­lán að fullu greidd eða skipt hefur verið í minna hús­næði. Þegar að starfs­loka­aldri kemur hefur eig­in­fjár­staðan enn batnað veru­lega og neyslu­þörf og neyslu­geta dreg­ist sam­an. Fjár­hags­legu meg­in­ein­kennin eru að eldra fólkið á mikið eigið fé og hefur hóf­legan fram­færslu­kostn­að, mið­aldra fólkið er dável sett eign­ar­lega og komið yfir erf­ið­asta hjall­ann en unga fólkið á í basli, stendur í barna­upp­eldi og hús­næð­is­kaup­um.

Þau lög­mála sem gilda um yfir­færslu eigna milli þeirra þriggja kyn­slóða­ein­inga sem ein­kenna fjöl­skyldur nú til dags, eldra fólks­ins, mið­aldra fólks­ins og unga fólks­ins eru einkar athygl­is­verð í ljósi þess­arar fjár­hags­stöðu kyn­slóð­anna. Sam­kvæmt erfða­reglum gengur arfur eftir lát­inn ein­stak­ling fyrst til maka og barna. Eðli­lega eru dauðs­föll algeng­ust í þeim hópi sem kall­aður er aldr­aðir hér að framan og við getum miðað við að séu yfir 80 ára gaml­ir. Eignir þeirra ganga við and­látið til maka sé hann er til staðar og barna sem gera má ráð fyrir að séu á aldr­inum 50 til 80 ára, þ.e. til­heyra mið­aldra og eldra fólki sem er vel statt eign­ar­lega og er komið yfir tíma­bil mik­ils fram­færslu­kostn­að­ar. Unga kyn­slóðin sem glímir við hátt hús­næð­is­verð, barna­upp­eldi og mik­inn fram­færslu­kostnað situr hjá uns að arfi eftir for­eldra þess kemur en þá er það lík­lega komið úr fjár­hags­legum þreng­ing­unum og hefur safnað nokkru fé.

Afleið­ingar af þessu kerfi eru marg­vís­leg­ar. Erfðafé rennur ekki þangað sem það kemur að mestu gagni til fram­færslu aldr­aðra eða ungu kyn­slóð­ar­innar eins og áður var en byggir upp eignir þeirra sem þegar eru vel stadd­ir. Þrátt fyrir þessa aug­ljósu stað­reynd er lækkun erfða­fjár­skatts vin­sælt lof­orð lýð­skrumara en áhrif af lækkun hans yrðu þau að eigna­yf­ir­færsla innan og milli þeirra kyn­slóða sem best eru staddar myndi aukast en allir aðrir yrðu verr sett­ir. Upp­söfnun fjár í höndum fárra og sam­þjöppun eigna myndi vaxa. Minni tekjur af erfða­fjár­skatti leiðir einnig til þess að við sömu útgjöld vegna vel­ferð­ar­mála verða aðrir skattar hærri og þeir lenda hvað helst á kyn­slóðum sem í mestri fram­færslu­þörf eru, þ.e. yngri kyn­slóð­un­um.

Eign­ir, erfðir og fram­færslu­kostn­aður aldr­aðra

Stefna og stefnu­leysis í erfða­málum á brýnt erindi í umræðu um fjár­mál hjúkr­un­ar­heim­ila m.a. vegna:

 • Reglur um greiðslu vist­manns á kostn­aði við dvöl hjúkr­un­ar­heim­ili eru mein­gall­aðar og gefa ranga mynd af greiðslu­getu við­kom­andi þannig að veru­legur hluti af þeim tekjum og eignum ein­stak­lings sem gengið hefðu til fram­færslu hans eru ekki nýttar í þeim til­gangi eftir að vistun á hjúkr­un­ar­heim­ili hefst.
 • Ef sá hluti skatt­skyldra tekna vist­manns sem fer til að greiða dval­ar­kostnað á hjúkr­un­ar­heim­ili nægir ekki til að greiða þann kostnað að fullu er mis­mun­ur­inn greiddur af almennu skatt­fé. Á sama tíma safn­ast aðrar tekjur vist­manns­ins upp hjá maka hans eða börnum og ganga að lokum ásamt öðrum eignum hans til þeirra sem arf­ur.
 • Erfða­reglur og skatta­reglur um arf leiða til þess að eignir yfir­fær­ast að mestu sem lágt skatt­aðar tekjur til þeirra sem litla þörf hafa fyrir við­bót­ar­tekjur og eignir en skattur á tekjur almenn­ings hafði verið not­aður til að kosta fram­færslu arf­gjafa á hjúkr­un­ar­heim­il­um.

Það að leita ann­arra úrræða fyrir þann hóp sem dvelur á hjúkr­un­ar­heim­ilum kann að draga eitt­hvað úr þörf á dval­ar­rýmum en horfast verður í augu við þá stað­reynd að eftir sem áður verður til fólk sem þarfn­ast hjálpar allan sól­ar­hring­inn umfram það sem unnt er að veita á einka­heim­ilum og verður að njóta umönn­unar fag­fólks. Hvort sá hópur er minni eða stærri en breytir því ekki að hann á rétt á búa við góða aðstöðu eins og sem betur fer er að finna á flestum hjúkr­un­ar­heim­ilum í dag. Þessi réttur má þó ekki vera ein­hliða á kostnað ann­arra en vist­manns­ins leyfi aðstæður hans það. Við­brögð við skýrsl­unni verða að vera þau að finna sann­gjarna lausn í sam­spili einka­hags­muna og sam­fé­lags­hags­muna í þessu efni með það að leið­ar­ljósi að tryggja vel­ferð og lífs­gæði vist­mann­anna eftir því sem unnt er á erf­iðu skeiði á ævi þeirra. Til þess verða menn að vera reiðu­búnir til að ýta til hliðar tabúum í eigna- og erfða­málum og blása á hentifræði og popúl­isma varð­andi erfðir og skatta.

Meg­in­at­riði í slíkri lausn er að tekjur og eignir þeirra sem vista þarf á hjúkr­un­ar­heim­ilum gangi fyrst og fremst til að tryggja vel­ferð þeirra og fram­færslu. Ekki er sann­gjarnt að gera þá kröfu að sam­fé­lagið beri fjár­hags­lega ábyrgð á vel­ferð þeirra ef þeir fjár­munir sem áttu að standa undir fram­færslu þeirra eru not­aðir í öðrum til­gangi og látnir koma öðrum til góða. Fjár­hags­legar aðstæður vist­manna eru hins vegar mjög mis­jafnar svo ekki verður ekki hjá því kom­ist að afla einnig rekstr­ar­fjár með skatt­heimtu. Hana þarf að ákveða með hlið­sjón af því að eignir ein­stak­linga til trygg­ingar á afkomu eru mis­jafnar af ýmsum fjár­hags­legum og félags­legum ástæðum auk þess sem sam­fé­lagið hefur gert eigna­söfnun auð­velda fyrir suma en hindrað aðra. Skatt­heimta til rekstrar hjúkr­un­ar­heim­ila á að jafna fjár­hags­lega aðstöðu þeirra sem þarfn­ast vist­un­ar.

Án þess að um sé að ræða mót­aðar til­lögur um úrbætur á fjár­hags­legum for­sendum fyrir rekstur hjúkr­un­ar­heim­ila má benda á nokkur skref sem taka mætti til skoð­un­ar:

 1. End­ur­skoða reglur um greiðslu dval­ar­kostn­aðar á hjúkr­un­ar­heim­ilum þannig að í stað þess að miða greiðslu­skyldu íbúa ein­göngu við skatt­skyldar tekjur þeirra verði lagt sam­ræmt mat á fram­færslu­getu vist­manns með hlið­sjón af öllum tekjum hans og eignum þ.m.t. hjóna­bandseignum og duldum eignum í félög­um, verð­bréfum o.fl.
 2. Lög um erfðir verði end­ur­skoðuð m.a. verði réttur maka til setu í óskiptu búi tak­mark­aður í tíma og einnig með til­liti til getu við­kom­andi til að stýra búinu. Erfða­réttur sam­býl­is­maka verði gerður skýr­ari
 3. Lög um erfða­fjár­skatt verði end­ur­skoð­uð, skatt­leys­is­mörkin mið­ist við hvern lög­erf­ingja um sig en skatt­hlut­fallið hækkað veru­lega og verði þrepa­skipt eða etv. látið ráð­ast af heild­ar­tekjum hvers arf­taka. Hluti af tekjum af skatt­inum verði eyrna­merktra rekstri hjúkr­un­ar­heim­ila.
 4. Það sem á vantar að dval­ar­kostn­aður í rekstur hjúkr­un­ar­heim­ila sé að fullu greiddur sam­kvæmt I og III hér að framan verði brúað með skatti á eignir umfram há frí­eigna­mörk og verði hluti tekna af honum eyrna­merktur rekstri hjúkr­un­ar­heim­ila í fjár­lögum hvers árs.
 5. Ábyrgð á rekstri hjúkr­un­ar­heim­ila verði hjá rík­inu sem reki þau eða feli sveit­ar­fé­lög­um, félaga­sam­tökum eða góð­gerða­sam­tökum rekstur hjúkr­un­ar­heim­ila með samn­ingi og því skil­yrði að þau séu rekin sem sjálfs­eign­ar­stofn­an­ir.

Fjár­hæðir og ítar­efni

Til að auð­velda fjár­hags­legt mat á þessum hug­myndum skulu dregnar fram upp­lýs­ingar um nokkrar hag­stærðir sem máli skipta í því sam­hengi.

Tekjur og gjöld hjúkr­un­ar­heim­ila

Sam­kvæmt skýrslu Gylfa o.fl. voru hjúkr­un­ar­heim­ili sem aflað var upp­lýs­inga um 40 tals­ins með 2.100 til 2.200 rými. Tekjur hjúkr­un­ar­heim­il­anna 2020 voru um 32,3 millj­arðar króna þar af komu um 29 millj­arðar (90%) frá rík­inu, kostn­að­ar­þátt­taka íbúa var um 1,4 millj­arðar (4%), frá sveit­ar­fé­lögum komu um 0,9 millj­arðar (3%) og aðrar tekjur um 0,8 millj­arðar (3%). Rekstr­ar­gjöld stofn­an­anna á árinu 2020 eru talin um 33,7 millj­arðar króna, þ.e. 1,4 millj­örðum hærri en tekjur þeirra voru en um 2,3 millj­örðum hærri séu fram­lög sveit­ar­fé­laga ekki talin til tekna. Hall­inn þannig reikn­aður er því um 7%. Í skýrsl­unni kemur einnig fram að nokkuð vantar á að hjúkr­un­ar­heim­ilin nái lág­mark­s­við­miðun Land­lækn­is­emb­ætt­is­ins um ummönn­un­ar­tíma og mönn­un. Til þess að ná þeim við­mið­unum er áætlað að kostn­að­ur­inn myndi aukast um 3,7 millj­arða til við­bót­ar. Til þess að eyða halla og afnema fram­lög sveit­ar­fé­laga ásamt því að ná lág­mark­s­við­mið­unum Land­læknis þyrftu tekjur að öðru óbreyttu að aukast um 5 millj­arða króna.

Hlut­deild íbúa í dval­ar­kostn­aði

Kostn­að­ar­greiðslur íbúa voru um 4,1% af tekjum heim­il­anna eða um 1,3 millj­arðar miðað við árið 2020. Sé miðað við 2.100 vist­menn eru það að með­al­tali um 52 þús. kr. á mán­uði sem lýsir mjög lágum skatt­skyldum tekjum vist­mann­anna, þ.e líf­eyri og fjár­magnstekj­um. Með­al­tekjur eftir skatt sam­kvæmt þessu virð­ast hafa verið um 160 þús. kr. á mán­uði. Kostn­að­ar­greiðsla íbúa skv. regl­unum er að hámarki um 454 þús. kr. á mán­uði. Miðað við það er sá kostn­aður sem íbúum er ætlað að taka þátt í um 11 millj­arðar króna eða um þriðj­ungur af heild­ar­rekstr­ar­kostn­aði heim­il­anna. Með­al­greiðsla vist­manna er nú um 11% hámarks­greiðslu. Óraun­hæft að ætla að end­ur­skoðun tekju­við­mið­unar fyrir dval­ar­kostnað dugi til að eyða halla­rekstri stofn­an­anna en ekki er ólík­legt að þátt­taka íbúa í dval­ar­kostn­aði gætu tvö til þre­fald­ast ef eðli­legt til­lit væri tekið til eigna og óskatt­skyldra tekna.

Erfða­fjár­skattur

Tekjur rík­is­sjóðs af erfða­fjár­skatti hafa verið 4 - 5 millj­arðar króna á ári síð­ustu ár. Skatt­stofn­inn, þ.e. eignir búa sem til skipta voru hefur verið 40 - 50 millj­arðar króna. Án erfða­fjár­skatts væru þessar fjár­hæðir skatt­lagðar sem almennar tekjur arf­þega og myndu vænt­an­lega skila ríki og sveit­ar­fé­lögum 12 til 15 millj­örðum króna í skatt­tekj­ur. Erfða­fjár­skattur er lágur hér á landi og nýlega hafa komið fram hug­myndir um að hækka skatt­hlut­fallið með vax­andi arfi hvers arf­þega en hækka jafn­framt frí­tekju­markið og miða það við hvern arf­taka um sig. Slík breyt­ing er studd sann­girn­is­rökum og væri liður í að stemma stigu við söfnun auðs á fáar hend­ur. Hún gæti einnig leitt til veru­legs tekju­auka fyrir rík­is­sjóð.

Auð­legð­ar­skattur

Þegar auð­legð­ar­skattur var síð­ast lagður á skil­aði hann rík­is­sjóði 12 - 15 millj­örðum í tekj­ur. Skatt­inn greiddu þó langt innan við 5% fram­telj­enda þar sem eignir venju­legs fólks voru undir frí­eigna­mark­inu. Dreif­ing eigna er afar mis­jöfn eins og áður eins og með­fylgj­andi tafla sýnir og má ætla að tekjur af auð­legð­ar­skatti nú gætu numið tvö­faldri þeirri fjár­hæð sem þá var ef miðað væri við svip­aðar álagn­ing­ar­regl­ur.

Fram­an­greindar fjár­hags­legar upp­lýs­ingar benda til þess að unnt væri að skjóta traustum stoðum undir rekstur hjúkr­un­ar­heim­ila án þess að auka kostnað hins almenna skatt­greið­anda. Um leið yrði fjár­mögn­un­ar­kerfi hjúkr­un­ar­heim­ila gert eðli­legra og rök­rétt­ara og skatt­kerfið í heild sann­gjarn­ara.

Minn­is­blað Jóns Hjart­ar­sonar

Smá vanga­veltur pen­sjónista!

Hrein eign eftir tíundum.

Pen­sjónist­inn hefur fylgst með umræð­unni um rekstr­ar­vanda hjúkr­un­ar­heim­ila og hvernig rekstr­ar­að­ilar krefj­ast auk­ins fram­lags úr rík­is­sjóði inní rekst­ur­inn. Heil­brigð­is­ráð­herra mætir þessum kröfum á mál­efna­leg­ann hátt, segir að greina þurfi betur bæði þjón­ustu og kostn­að­inn sem fylgi eðli­legri hjúkr­un­ar­þjón­ustu.

Í sinni ein­föld­ustu mynd finnst pen­sjónist­anum að staðan sé svona:

 1. Eft­ir­launa­tíma­bilið hefst við 67 ára aldur og 70 ára hætta flestir reglu­bundnum störf­um.
 2. Flestir búa áfram heima hjá sér og reka heim­il­is­haldið á eigin reikn­ingi og njóta venju­legrar þjón­ustu heil­brigð­is­kerf­is­ins eins og áður.
 3. Sumir til­einka sér fram­boð félags­þjón­ust­unnar sveit­ar­fé­lags­ins, greiða smá­vegis fyrir og sem betur fer eru fyrri hluti eft­ir­launa­ár­anna góður og gef­andi tími fyrir marga.
 4. Svo kemur að því að heilsan brestur og fólk þarf að fara á elli­heim­il­i/hjúkr­un­artheim­ili og greiðir þar dval­ar­kostnað í sam­ræmi við þau eft­ir­laun sem það hefur (ákveð­inn hluti eft­ir­launa fer í greiðslur til við­kom­andi stofn­unn­ar). Aðrar eignir við­kom­andi, hús­næði, banka­inni­stæð­ur, hluta­bréf ofl falla í hlut erf­ingja í fyll­ingu tím­ans, eins og happ­drætt­is­vinn­ing­ur, án veru­legrar skatt­lagn­ing­ar.
 5. Pen­sjónist­inn spyr: Hvers­vegna ekki að hækka efða­fjár­skatt á fast­eign­um, banka­inni­stæðum og allskyns verð­bréfum í 50 -60% og eyrna­merkja þennan skatt öldr­un­ar­þjón­ust­unni, Elli- og hjúkr­un­ar­heim­il­um, og skapa þannig fastan tekju­stofn til að mæta kostn­aði vegna þessa rekst­urs? Pen­sjónist­anum finnst hvorki skyn­semi né sann­girni í því að sam­fé­lagið í heild sinni standi straum af öllum kostn­að­in­um, meðan erf­ingj­arnir hirða arf­inn án þess að hafa nokkuð til þess unn­ið.

Hvers vegna á ég, í fyll­ingu tím­ans, að leggj­ast inn á heim­ili á kostnað sam­fé­lags­ins, ger­ast þurfa­mað­ur, meðan eignir mínar fara nær óskatt­lag­aðar í vasa erf­ingj­anna, sem ekk­ert hafa unnið til þessa happ­drætt­is­vinn­ings?

Stór hluti lands­manna á tölu­verðar eignir og því er alls ekki óeðli­legt að við and­lát þá skatt­leggi sam­fé­lagið þessar eignir sér­stak­lega, til þess að standa undir þjón­ustu við eldri borg­ara sam­fé­lags­ins og svo það sem enn vanti upp á komi svo úr sam­eig­in­legum sjóði sam­fé­lags­ins. Auð­vitað þarf vand­aða og mjög skot­helda lög­gjöf í kringum svona ákvörð­un, en með nútíma tækni og þekk­ingu ætti bæði vera hægt að semja lög­gjöf og eft­ir­lits­kerfi sem haldi.

Það er alls ekk­ert við svona skatt­lagn­ingu að athuga, fyrir henni er hægt að færa fram mörg góð og sterk rök, bæði efna­hags­leg og félags­leg, öll sann­gjörn.

Hvað segir fólk!?

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar