Spaðafjarki í Smáranum

Daði Rafnsson spyr í aðsendri grein hvernig viðeigandi sé að knýja fram úrslit í keppnum barna.

Auglýsing

Sum­ar­mótin í yngstu flokkum eru dýr­gripir íslenskrar knatt­spyrnu. Þar fá ungir krakkar að klæða sig í bún­ing félags­ins síns, vera með vinum sínum og spila við aðra, kynn­ast öðrum krökk­um, borða og gista saman og upp­lifa drauma sína í gegnum íþrótt­ina. Þeirra eigið EM. Mótin skipta félögin sem halda þau ekki ein­ungis máli upp á fjár­hag­inn, heldur einnig upp á stemn­ing­una sem mynd­ast í kringum þau.

Und­ir­rit­aður hefur farið á nær öll mót sem þjálf­ari og er að hefja ferða­lagið sem for­eldri. Það er ekki síður spenn­andi hlut­verk. Þó að við heyrum oft­ast sög­urnar af for­eldr­inu sem tognar í skap­inu, er reynsla mín sú að 99,96% for­eldra taki þátt á við­eig­andi for­sendum og eru ómissandi þáttur í íslenskum barna­fót­bolta.

Ýmis­legt hefur þró­ast á betri veg á sum­ar­mót­unum und­an­farin ár. Mörg mót leggja sig fram um að fá fram góða styrk­leika­röðun í byrjun til að fækka ójöfnum leikj­um. Áður fyrr var það ávísun á erf­iða helgi og mikið for­eldra og þjálf­ara­inn­grip ef B liða keppnin reynd­ist of hörð. Í stað­inn er nú víð­ast hvar raðað inn í styrk­leika eftir úrslitum síð­asta dags. Þannig geta lið sem tapa öllum leikjum í A keppn­inni og lið sem vinna alla leik­ina í C keppn­inni á fimmtu­degi mæst í B keppn­inni á föstu­degi. Lík­urnar á að sem flestir krakkar eigi mögu­leika á að upp­lifa að skora mark, verja dauða­færi og vinna leik aukast til muna.

Auglýsing

Það er mik­il­vægt því það skiptir mjög miklu máli fyrir áhuga­hvöt ungra krakka (og í raun og veru allra) að fá jákvæða end­ur­gjöf úr leikn­um. Ef upp­lifunin er nei­kvæð er lík­legra að krakkar gef­ist upp, hætti og snúi sér að öðru. Eitt mark getur gert gæfumun­inn, einn sigur sóttur með félög­un­um. Vegna lík­am­legs og and­legs mis­þroska barna segja úrslit aðeins hluta sög­unnar um hvað býr innra með þeim. Þessi breyt­ing á keppn­is­fyr­ir­komu­lagi ber því íslenskri barnaknatt­spyrnu góða sög­una, því hún miðar að því að gera upp­lifun­ina betri fyrir fleiri. Fyrir utan for­eldrið eða þjálf­ar­ann sem varð sér til skammar er ýmis­legt sem kemur upp í umræð­unni í kringum keppni barna. Þar á meðal hvernig sé best að ná fram úrslitum í jöfnum leikj­um.

Þegar Rósa Hugos sigr­aði Svein­dísi Jane

Svein­dís Jane Jóns­dóttir er ein af okkar allra bestu knatt­spyrnu­kon­um. Hún hefur alltaf verið góð, líka þegar hún mætti á Síma­mótin í Kópa­vogi. Eitt sinn mættum við henni og félögum hennar úr Kefla­vík í úrslita­leik móts­ins. Það var hörku­leikur sem end­aði 0:0 eftir tvær fram­leng­ing­ar. En við unnum mót­ið. Rósa Hugos­dóttir með­þjálf­ari minn var slyng í spila­göldrum og dróg spaða­fjarka sem var hærra spil en full­trúi Kefl­vík­inga. Okkar leik­menn fögn­uðu ákaft meðan Kefl­vík­ingar urðu að lúta í gras. Öll þessi upp­lifun var súr­r­eal­ísk.

Á Síma­móts­fundi skömmu seinna lagði ég fram til­lögu um að ef úrslita­leikir færu 0:0 eftir tvær fram­leng­ingar yrðu bæði lið krýnd meist­ar­ar. Bæði lið áttu sig­ur­inn skil­ið. Bæði voru skipuð skemmti­legum leik­mönnum sem lögðu sig allar fram. Hvor­ugu lið­inu hefði þótt minna til sig­urs­ins koma þótt honum hefði verið deilt á tvo. Þarna voru börn send heim svekkt að óþörfu.

Rokreglan

En hvað með „rok­regl­una“ úr Vest­manna­eyj­um? Þar vinnur liðið sem skorar mark fyrr í öðrum hvorum hálf­leik. Þannig að ef leikur ÍBV og HK endar 1:1 vinnur HK því þeir skor­uðu sitt mark eftir 1:30 mín í seinni hálf­leik en ÍBV skor­aði eftir 1:45 mín í fyrri hálf­leik. Þessi regla var sett á fyrir löngu þar sem lognið á það til að fara hratt yfir Eyjar og því stundum mun betra að sækja á annað mark­ið. Í úrslita­leik eitt árið gegn Val fengum við á okkur mark þegar þrjár mín­útur voru eftir í gull­fal­legu veðri. Leik­menn mínir voru óhugg­andi, vissu að það þyrfti tvö mörk til að sigra. Leik­ur­inn fjar­aði út.

Rokreglan er ekk­ert sann­gjarn­ari en að draga spil? En hvað með víta­keppni eins og á N1 mót­inu? Það er gert á EM og HM og er frá­bær leið til að skera úr um sig­ur­veg­ara. Það sem meira er, þá er vító sam­kvæmt mörgum frá­bær and­legur und­ir­bún­ingur fyrir unga leik­menn.

Allt er undir

Fyrir skömmu átt­ust við Frakk­land og Sviss í 16 liða úrslitum Evr­ópu­móts­ins í knatt­spyrnu. Sviss­lend­ingar unnu Heims­meist­ar­ana í víta­keppni eftir hörku­leik. Einn allra besti leik­maður heims Kylian M‘Bappe skor­aði ekki úr sinni spyrnu. Í kjöl­farið lét móðir ann­ars leik­manns sví­virð­ingum rigna yfir fjöl­skyldu hans í stúkunni. Ein­hverjir stuðn­ings­menn voru með dólg. M‘Bappe sjálfur baðst opin­ber­lega afsök­unar og sagð­ist ekki myndu eiga auð­velt með svefn.

Geir Jor­det, norskur fræði­maður sem hefur rýnt í vís­indin bak við víta­keppnir talar um að þeim fylgi mikið til­finn­inga­legt álag og í mörgum til­fellum van­líð­an. Og hann er að skoða bestu leik­menn í heimi. Það þarf sterk bein í að bera ábyrgð á draumum og vonum allra í kringum sig með einni spyrnu. Hvað þá ef þú ert tólf ára fyrir framan fullan völl, í beinni útsend­ingu í sjón­varpi. Fyrir barni er ekk­ert stærra en þetta augna­blik. Öll gerum við mis­tök, en þetta ung og í þessum aðstæð­um?

For­eldrar nokk­urra leik­manna sem hafa klúðrað á sum­ar­mótum hafa lýst svefn­lausum nótt­um, eins og hjá M‘Bappe. Í víta­keppni á ReyCup hef ég lent í að verð­andi A lands­liðs­menn og konur bjóði sig ekki fram. Full­orðnir leik­menn í Pepsi deild karla hafa lýst því fyrir mér hvað það var mikið áfall að klúðra mik­il­vægu víti 12 ára. Marg­reynd lands­liðs­kona sem ég vann með klúðr­aði ung víti í úrslita­leik Evr­ópu­keppn­innar fyrir Lyon og var hrædd við að taka aftur víti út fer­il­inn. Geir Jor­det hefur bent á að þeir sem væru bestir í hverju liði væru einmitt undir mun meiri innri og utan­að­kom­andi pressu en aðrir félagar þeirra í þessum aðstæð­um. Hann tók einnig við­töl við 10 leik­menn sem tóku þátt í víta­keppni í úrslita­keppni EM 2004 og þeir áttu það sam­eig­in­legt að hafa upp­lifað miklar og fjöl­breyttar til­finn­inga­sveifl­ur, jákvæðar og nei­kvæð­ar. Allir voru sam­mála um að hafa fundið fyrir miklum kvíða.

Und­ir­rit­aður er ekki á móti því að krakkar prófi víta­spyrnu­keppn­ir. Þær eru skemmti­legar og spenn­andi. En það skiptir miklu máli að ramma þær vel inn fyrir óhörðn­uðum börn­um. Fólk skyldi ávallt fara var­lega þegar það ætlar að setja börn í erf­iðar aðstæður til að „herða þau“. Sum barna­mót erlendis eru til að mynda með sér­staka velli þar sem víta­spyrnu­keppnir fara fram, án þess að áhorf­endur séu ofan í leik­mönn­un­um. Eins og í kletta­klifri, ef ekki er tryggt að umhverfið sé öruggt er hætta á að illa fari. Hegðun og við­brögð for­eldra, dóm­ara, þjálf­ara, sam­herja, móts­hald­ara og áhorf­enda þarf að tryggja mjúka lend­ingu fyrir þann sem skrikar fót­ur. Það skiptir meira máli en að frændi þinn sem spil­aði einu sinni lands­leik telji börn vera ofvernduð í dag.

Eftir að hafa reynt flest allt í þessu sem þjálf­ari hef ég ekki fundið betri nið­ur­stöðu en að í síð­asta leik í keppni barna 12 ára og yngri standi bæði lið upp sem sig­ur­veg­arar eftir tvær fram­leng­ing­ar. Þá verð­launum við áreynslu og dugnað eins og hjá öll­um. Það hefur margt breyst til hins betra í barna­bolt­anum und­an­farin ár. Von­andi finnum við ein­hvern tím­ann full­komna leið til að skera úr um úrslit því krökkum þykir gaman að keppa.

Höf­undur er fag­stjóri Afreks­sviðs Mennta­skól­ans í Kópa­vogi, yfir­maður knatt­spyrnu­þró­unnar í HK og dokt­or­snemi í sál­fræði í Háskól­anum í Reykja­vík.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hildur Björnsdóttir vill verða borgarstjóri – Ætlar að velta Eyþóri Arnalds úr oddvitasæti
Það stefnir i oddvitaslag hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík í prófkjöri flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hildur Björnsdóttir ætlar að skora Eyþór Arnalds á hólm.
Kjarninn 8. desember 2021
Um þriðjungi allra matvæla sem framleidd eru í heiminum er hent.
Minni matarsóun en markmiðum ekki náð
Matarsóun Norðmanna dróst saman um 10 prósent á árunum 2015 til 2020. Í því fellst vissulega árangur en hann er engu að síður langt frá þeim markmiðum sem sett hafa verið. Umhverfisstofnun Noregs segir enn skorta yfirsýn í málaflokknum.
Kjarninn 8. desember 2021
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata.
Þingmaður fékk netfang upp á 53 stafbil
Nýr þingmaður Pírata biðlar til forseta Alþingis að beita sér fyrir því að þingið „þurfi ekki að beygja sig undir óþarfa duttlunga stjórnsýslunnar“.
Kjarninn 8. desember 2021
Árni Stefán Árnason
Blóðmeraníðið – fjandsamleg yfirhylming MAST og fordæming FEIF – Hluti II
Kjarninn 8. desember 2021
Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu.
Fyrrverandi eiginkona Ragnar Sigurðssonar segir landsliðsnefndarmann ljúga
Magnús Gylfason, fyrrverandi landsliðsnefndarmaður hjá KSÍ, sagði við úttektarnefnd að hann hefði hitt Ragnar Sigurðsson og þáverandi eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að hann var talinn hafa beitt hana ofbeldi. Konan segir þetta ekki rétt.
Kjarninn 8. desember 2021
Róbert segist meðal annars ætla að fara aftur í fjallaleiðsögn.
Róbert hættir sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar – „Frelsinu feginn“
Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar mun hætta störfum um áramótin. Hann segist vera þakklátur fyrir dýrmæta reynslu með frábærum vinnufélögum en líka frelsinu feginn.
Kjarninn 8. desember 2021
Í austurvegi
Í austurvegi
Í austurvegi – Samskiptasaga Kína og Íslands
Kjarninn 8. desember 2021
Stjórnmálaflokkar fá rúmlega 3,6 milljarða króna úr ríkissjóði á fimm árum
Níu stjórnmálaflokkar skipta með sér 728 milljónum krónum úr ríkissjóði árlega. Áætluð framlög voru 442 milljónum krónum lægri í upphafi síðasta kjörtímabils.
Kjarninn 8. desember 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar