Spaðafjarki í Smáranum

Daði Rafnsson spyr í aðsendri grein hvernig viðeigandi sé að knýja fram úrslit í keppnum barna.

Auglýsing

Sumarmótin í yngstu flokkum eru dýrgripir íslenskrar knattspyrnu. Þar fá ungir krakkar að klæða sig í búning félagsins síns, vera með vinum sínum og spila við aðra, kynnast öðrum krökkum, borða og gista saman og upplifa drauma sína í gegnum íþróttina. Þeirra eigið EM. Mótin skipta félögin sem halda þau ekki einungis máli upp á fjárhaginn, heldur einnig upp á stemninguna sem myndast í kringum þau.

Undirritaður hefur farið á nær öll mót sem þjálfari og er að hefja ferðalagið sem foreldri. Það er ekki síður spennandi hlutverk. Þó að við heyrum oftast sögurnar af foreldrinu sem tognar í skapinu, er reynsla mín sú að 99,96% foreldra taki þátt á viðeigandi forsendum og eru ómissandi þáttur í íslenskum barnafótbolta.

Ýmislegt hefur þróast á betri veg á sumarmótunum undanfarin ár. Mörg mót leggja sig fram um að fá fram góða styrkleikaröðun í byrjun til að fækka ójöfnum leikjum. Áður fyrr var það ávísun á erfiða helgi og mikið foreldra og þjálfarainngrip ef B liða keppnin reyndist of hörð. Í staðinn er nú víðast hvar raðað inn í styrkleika eftir úrslitum síðasta dags. Þannig geta lið sem tapa öllum leikjum í A keppninni og lið sem vinna alla leikina í C keppninni á fimmtudegi mæst í B keppninni á föstudegi. Líkurnar á að sem flestir krakkar eigi möguleika á að upplifa að skora mark, verja dauðafæri og vinna leik aukast til muna.

Auglýsing

Það er mikilvægt því það skiptir mjög miklu máli fyrir áhugahvöt ungra krakka (og í raun og veru allra) að fá jákvæða endurgjöf úr leiknum. Ef upplifunin er neikvæð er líklegra að krakkar gefist upp, hætti og snúi sér að öðru. Eitt mark getur gert gæfumuninn, einn sigur sóttur með félögunum. Vegna líkamlegs og andlegs misþroska barna segja úrslit aðeins hluta sögunnar um hvað býr innra með þeim. Þessi breyting á keppnisfyrirkomulagi ber því íslenskri barnaknattspyrnu góða söguna, því hún miðar að því að gera upplifunina betri fyrir fleiri. Fyrir utan foreldrið eða þjálfarann sem varð sér til skammar er ýmislegt sem kemur upp í umræðunni í kringum keppni barna. Þar á meðal hvernig sé best að ná fram úrslitum í jöfnum leikjum.

Þegar Rósa Hugos sigraði Sveindísi Jane

Sveindís Jane Jónsdóttir er ein af okkar allra bestu knattspyrnukonum. Hún hefur alltaf verið góð, líka þegar hún mætti á Símamótin í Kópavogi. Eitt sinn mættum við henni og félögum hennar úr Keflavík í úrslitaleik mótsins. Það var hörkuleikur sem endaði 0:0 eftir tvær framlengingar. En við unnum mótið. Rósa Hugosdóttir meðþjálfari minn var slyng í spilagöldrum og dróg spaðafjarka sem var hærra spil en fulltrúi Keflvíkinga. Okkar leikmenn fögnuðu ákaft meðan Keflvíkingar urðu að lúta í gras. Öll þessi upplifun var súrrealísk.

Á Símamótsfundi skömmu seinna lagði ég fram tillögu um að ef úrslitaleikir færu 0:0 eftir tvær framlengingar yrðu bæði lið krýnd meistarar. Bæði lið áttu sigurinn skilið. Bæði voru skipuð skemmtilegum leikmönnum sem lögðu sig allar fram. Hvorugu liðinu hefði þótt minna til sigursins koma þótt honum hefði verið deilt á tvo. Þarna voru börn send heim svekkt að óþörfu.

Rokreglan

En hvað með „rokregluna“ úr Vestmannaeyjum? Þar vinnur liðið sem skorar mark fyrr í öðrum hvorum hálfleik. Þannig að ef leikur ÍBV og HK endar 1:1 vinnur HK því þeir skoruðu sitt mark eftir 1:30 mín í seinni hálfleik en ÍBV skoraði eftir 1:45 mín í fyrri hálfleik. Þessi regla var sett á fyrir löngu þar sem lognið á það til að fara hratt yfir Eyjar og því stundum mun betra að sækja á annað markið. Í úrslitaleik eitt árið gegn Val fengum við á okkur mark þegar þrjár mínútur voru eftir í gullfallegu veðri. Leikmenn mínir voru óhuggandi, vissu að það þyrfti tvö mörk til að sigra. Leikurinn fjaraði út.

Rokreglan er ekkert sanngjarnari en að draga spil? En hvað með vítakeppni eins og á N1 mótinu? Það er gert á EM og HM og er frábær leið til að skera úr um sigurvegara. Það sem meira er, þá er vító samkvæmt mörgum frábær andlegur undirbúningur fyrir unga leikmenn.

Allt er undir

Fyrir skömmu áttust við Frakkland og Sviss í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Svisslendingar unnu Heimsmeistarana í vítakeppni eftir hörkuleik. Einn allra besti leikmaður heims Kylian M‘Bappe skoraði ekki úr sinni spyrnu. Í kjölfarið lét móðir annars leikmanns svívirðingum rigna yfir fjölskyldu hans í stúkunni. Einhverjir stuðningsmenn voru með dólg. M‘Bappe sjálfur baðst opinberlega afsökunar og sagðist ekki myndu eiga auðvelt með svefn.

Geir Jordet, norskur fræðimaður sem hefur rýnt í vísindin bak við vítakeppnir talar um að þeim fylgi mikið tilfinningalegt álag og í mörgum tilfellum vanlíðan. Og hann er að skoða bestu leikmenn í heimi. Það þarf sterk bein í að bera ábyrgð á draumum og vonum allra í kringum sig með einni spyrnu. Hvað þá ef þú ert tólf ára fyrir framan fullan völl, í beinni útsendingu í sjónvarpi. Fyrir barni er ekkert stærra en þetta augnablik. Öll gerum við mistök, en þetta ung og í þessum aðstæðum?

Foreldrar nokkurra leikmanna sem hafa klúðrað á sumarmótum hafa lýst svefnlausum nóttum, eins og hjá M‘Bappe. Í vítakeppni á ReyCup hef ég lent í að verðandi A landsliðsmenn og konur bjóði sig ekki fram. Fullorðnir leikmenn í Pepsi deild karla hafa lýst því fyrir mér hvað það var mikið áfall að klúðra mikilvægu víti 12 ára. Margreynd landsliðskona sem ég vann með klúðraði ung víti í úrslitaleik Evrópukeppninnar fyrir Lyon og var hrædd við að taka aftur víti út ferilinn. Geir Jordet hefur bent á að þeir sem væru bestir í hverju liði væru einmitt undir mun meiri innri og utanaðkomandi pressu en aðrir félagar þeirra í þessum aðstæðum. Hann tók einnig viðtöl við 10 leikmenn sem tóku þátt í vítakeppni í úrslitakeppni EM 2004 og þeir áttu það sameiginlegt að hafa upplifað miklar og fjölbreyttar tilfinningasveiflur, jákvæðar og neikvæðar. Allir voru sammála um að hafa fundið fyrir miklum kvíða.

Undirritaður er ekki á móti því að krakkar prófi vítaspyrnukeppnir. Þær eru skemmtilegar og spennandi. En það skiptir miklu máli að ramma þær vel inn fyrir óhörðnuðum börnum. Fólk skyldi ávallt fara varlega þegar það ætlar að setja börn í erfiðar aðstæður til að „herða þau“. Sum barnamót erlendis eru til að mynda með sérstaka velli þar sem vítaspyrnukeppnir fara fram, án þess að áhorfendur séu ofan í leikmönnunum. Eins og í klettaklifri, ef ekki er tryggt að umhverfið sé öruggt er hætta á að illa fari. Hegðun og viðbrögð foreldra, dómara, þjálfara, samherja, mótshaldara og áhorfenda þarf að tryggja mjúka lendingu fyrir þann sem skrikar fótur. Það skiptir meira máli en að frændi þinn sem spilaði einu sinni landsleik telji börn vera ofvernduð í dag.

Eftir að hafa reynt flest allt í þessu sem þjálfari hef ég ekki fundið betri niðurstöðu en að í síðasta leik í keppni barna 12 ára og yngri standi bæði lið upp sem sigurvegarar eftir tvær framlengingar. Þá verðlaunum við áreynslu og dugnað eins og hjá öllum. Það hefur margt breyst til hins betra í barnaboltanum undanfarin ár. Vonandi finnum við einhvern tímann fullkomna leið til að skera úr um úrslit því krökkum þykir gaman að keppa.

Höfundur er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, yfirmaður knattspyrnuþróunnar í HK og doktorsnemi í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar