Fyrir hverja frétt sem gefur mér von um framtíð landsins, koma þrjár fréttir sem láta mig vilja flytja úr landi. Engir veisluskammtar engin ný símaskrá, ég má bara vinna og læra hagnýta sagnarhaglögfræði. Ef ég myndi ganga í Sjálfstæðisflokkinn fengi ég reyndar ókeypis banka eftir nokkur ár, en það er fremur bug en feature. Annars er lítið spennandi að frétta á Ísalandi voru fagra. Pönkið er dautt og stemningin með.
Þó vilja sumir meina að þetta sé land tækifæranna. Tækifæri? Jú, tækifærin hérna eru til arðráns eða samfélagslegra breytinga sem hefðu átt að gerast fyrir áratug síðan. Þetta á ekki að vera svona, en þeir sem eiga að þjónusta fjallkonuna hunsa hana eftir eigin hentisemi og við erum nógu meðvirk til þess að það sleppi. Áminning: Vistarbandinu hefur verið aflétt!
Talandi um vistarband, er óupprunaleiki nýlegra, heimskulegra ákvarðana ýmissa ráðherra merki um stöðnun, jafnvel hnignun, íslensks samfélags? Bankasalan er afrit og líming (e. copy & paste) af töktum frá aldamótum og nýleg rasísk ummæli hefðu frekar átt heima í kringum aldamótin þar á undan. Í staðinn fyrir að selja hlutann í bankanum fyrir rafmynt eða gera lítið úr framkvæmdastjóra bændasamtakanna fyrir eitthvað annað en melanínmagn húðar þá er keyrt á gír sem hefði átt að skipta úr í kringum hrun. Er íslenskt samfélag staðnað? Er blauti draumur Framsóknar um að ekkert nýtt muni gerast búinn að rætast? Ef svo er, þá er hápunktur íslensks nútíma einhverskonar Himmelbjerget í Krakoam-fjallgarði stemningsríkja Evrópu.
Talandi um að fjarlægðin geri fjöllin gul, þá er þessi grein hluti af auglýsingaherferð fyrir nýja fyrirtækið mitt, Hlandvania ehf., en Hlandvania er nýkomið með einkaleyfi á sölu á Hlandcerta, blöndu af baðvatns-konseptinu hjá Bellu Delphine og placebo-pilllum. Vandamálið er að ég get ekki stundað viðskipti í íslenskum krónum, þótt að kvótaeigendur græði á henni þá græði ég meira á því að nota evrur. Svo var virkilega erfitt að komast á íslenskan hlutabréfamarkað, sem er í rauninni bara leikvöllur fárra útvalda fagfjárfesta. Að ég tali ekki um að melanínmagn ýmissa starfsmanna okkar er hærra en meðaltalið á Íslandi og þeir eru því sífellt handteknir. Hlandvania er því, vegna hentugleika, flutt til Danmerkur. Þetta byltingarkennda konsept sem Hlandcerta er fór illa í ákveðinn hóp hérlendis, sem hætti ekki að senda okkur morðhótanir og við fórum því af (h)landi brott með milljarðabissnessið okkar. Bless bozos!
Aftur að efninu: Með því að styðja einungis við þá best tengdu í samfélaginu og leyfa fámennum hópi að fá sífellt meiri umsvif í samfélaginu missum við ekki einungis tækifæri til bjartari framtíðar, heldur skaðar það lýðræði þegar frekar er hlustað á bissnesskarla en ... jú vilja lýðsins sem á að ráða. Þetta (h)land tækifæranna er ekki til fyrir venjulegt fólk. Það er kannski hægt að skapa það! En það væri út frá öðru stjórnarmynstri ... hvort sem ég veit eða vona það veit ég ekki.
Höfundur er í sjöunda sæti á lista Pírata í Kópavogi.