Sjáðu fyrir þér ungt par með tvö börn að labba niður Laugaveginn. Annað er kornabarn í kerru, hitt röltir með. Ekkert að frétta. Ágætis veður. Litið í einn og einn búðarglugga. Lundar í þeim öllum.
Skyndilega kemur skokkandi að þeim, léttsveittur, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Ben. „Sæl veriði.“ „Hæ … Bjarni?“ svarar parið hikandi. „Hérna, ekki mætti ég aðeins fá að kíkja á veskið ykkar?“ spyr hann. Þau líta hvort á annað. Vilja ekki vera dónaleg, en kunna ekki heldur við að rétta honum veskið sitt, af því þetta er mjög undarleg bón. „Bara í smástund, ég er sko Bjarni Ben.“ Vissulega. Góður punktur.
Unga konan tekur upp seðlaveski og réttir Bjarna hikandi. „Takk,“ segir hann, hummar eins og maður með hreina samvisku og byrjar að gramsa. Skyndilega veiðir hann svo upp 40 þúsund krónur í brakandi nýjum tíuþúsundkrónaseðlum, skutlar veskinu í andlitið á barninu í kerrunni með „gjössovel“ á vörunum og skokkar burt sömu leið og hann kom. Þau standa eftir gapandi. Bíðandi eftir einhverskonar David Blaine pönslæni. Eftir því að Auddi Blö komi aðvífandi, klappi þeim á bakið, flissandi „Tekin!“. Í staðinn horfa þau á eftir Bjarna stoppa næsta Range Rover og henda peningunum inn um bílgluggann með orðunum „Ekkert að þakka“.
Ef við erum sammála um að þetta sé óviðunandi ástand, þá skulum við athuga hvað er hægt að gera í því. Finnum saman áfangastað og leitum svo leiða að honum. Því þó ég viti ekki hverjar lausnirnar eru, þá veit ég að við erum mjög mörg sammála um að ástandið akkúrat núna sé algjörlega ömurlegt. Fari versnandi, og kalli á róttækar breytingar.
Okkur langar kannski til þess að trúa því að við höfum búið við jöfn kjör, en án þess að ég ætli að fara of langt út í þá sálma hversu handónýtt kerfi hið kapítalíska feðraveldi er, þá hafa kjörin verið allt annað en jöfn.
Íslenska ríkið er ekki til nema vegna fólksins í landinu. Alþingismenn eiga að vera að þjóna okkur en eru í staðinn að þjóna hagsmunum fjármagnseigenda. Þessum staðreyndum verður ekki breytt með kosningum. Án átaka milli kúgara og hinna kúguðu verða engar framfarir.
Það kom svo bersýnilega í ljós þegar vinstristjórnin haltraði í gegnum eitt kjörtímabil að allt kerfið er troðfullt af handbendum og kónum valdhafanna. Tannhjól ríkisstjórnarinnar höktu stöðugt því þeim var snúið af liðsmönnum Davíðs Oddssonar og hinna sem höfðu stjórnað áratugina þar á undan. Allt réttarkerfið og öll ráðuneyti full af fólki sem var tilbúið að bregðast við því að í smástund sætu hryðjuverkamenn við stjórnvölinn. Enda voru hendur þeirra sýnilega bundnar allt kjörtímabilið.
Þannig svertu valdhafarnir bakvið tjöldin til dæmis nýju stjórnarskrána. Sögðu að kosningarnar væru ógildar af því kjörklefum var breytt vegna þess að þetta voru algjörlega einstakar kosningar sem þörfnuðust sérstakra kjörklefa og þessvegna væru þær ómarktækar. Ha?
Sumir segja að nýja stjórnarskráin hafi verið samin til þess að knésetja Sjálfstæðisflokkinn. Er það svo slæmt? Nasistaflokkurinn var bannaður í Þýskalandi eftir seinna stríð. Það heppnaðist ágætlega hjá þeim.
En Sjálfstæðisflokkurinn, hagsmunasamtök fjármagnseigenda, sá hópur sem ber stærsta einstaka ábyrgð á hruninu 2008, er enn starfandi. Enn mjög öflugur. Enn í óða önn að einkavæða alla helstu almannaþjónustu í hendurnar á auðmönnum. Þetta kýs stór hluti þjóðarinnar.
Sem er svosem ekkert skrítið. Það halda flestir með sigurvegaranum. Vilja vera í liði með þeim sem vinnur. Það héldu flestir með Schumacher, Man United, KR og Chicago Bulls. Að sjálfsögðu vill skynsamt fólk koma sér í mjúkinn hjá þeim sem öllu ráða. Fólk sleikir bláa sjálfstæðisfálkann í ömurlegri undirgefni og von um að nokkrir brauðmolar falli í munn þess þegar hann hristir fjaðrirnar.
Mestu auðæfi Íslands eru á örfárra höndum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar síðustu misseri sýna að þær hendur kæra sig ekkert um að þessari staðreynd sé breytt. Auðæfi ganga í erfðir. Fátækt gengur í erfðir. Sigmundur er ekki að fara að rétta þér peningabúntið sem hann lofaði þér þó þú hafir kosið hann. Leiðréttingin sem hann laug að þér var jafn ömurlegur brandari í kosningabaráttunni og hún er í framkvæmd. Við erum að fylgjast með auðvaldinu gera allt sem það getur til þess að verja og auka vald sitt. Rústa tekjulitlum fjölskyldum með hækkun matarskatta. Skera sérstakan saksóknara á háls. Gefa ríkasta fólkinu í landinu ávinninginn. Bjarni Ben = Hrói Höttur á röngunni.
Þegar málningin flagnar, þá skröpum við hana af. Þegar bleyjan lyktar, þá skiptum við um hana. Ég er ekki með lausnir eða svör við því hvað eigi að taka við, enda er það okkar allra að ákveða. Og er eitthvað meira spennandi en samfélag fólks að rífa niður stéttskipt hreysið sem það fékk í vöggugjöf, til þess að byggja saman upp réttlátt samfélag?
Stundum er vonin það eina sem maður á. Ég á ekkert handa Íslandi annað en von um að hlutirnir breytist. Til hins betra. Að svo róttækar umbætur eigi sér stað að hér verði mannsæmandi að búa. Að við getum hætt að eltast við það að mæta í vinnu til þess að borga af húsi og bíl til þess að geta búið einhversstaðar og keyrt frá húsinu í bílnum í vinnuna sem borgar fyrir bílinn og húsið.
Brjótum upp þennan ömurlega vítahring. Sýnum heiminum. Verum fordæmið. Því þrátt fyrir fámenni og galla erum við mjög framsækin þjóð. Setjum tóninn fyrir nýja og ótrúlega tíma. Hættum að DV-kommenta okkur í gegnum veturinn. Stöndum upp og tökum okkur í hönd valdið sem réttilega er okkar.
Þessvegna segi ég: Brennum Alþingi! Brjótum það niður, hvern einasta stein. Byggjum svo úr rústunum risavaxna basalt-löngutöng, tákn fyrir það sem húsið stóð fyrir undir lokin: valdhafa að færa peninga úr vösum okkar í vasa auðmanna.
Förum svo út og sköpum réttlátara samfélag fyrir alla. Saman.
Höfundur er ljóðskáld.