Það er auðvelt að láta ljúfa óskhyggju rugla dómgreind sína og glöggskyggni. Þá er aldæla að brengla saman jákvæðni og bjartsýni. Afleiðingin verður óhjákvæmilega glapsýn. Nýverið bar fyrir augu lesenda Mbl. grein eftir fjármálaráðherra þar sem hann lýsti því yfir að ekki þyrfti að hafa alvarlegar áhyggjur af viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs eða mikilli skuldasöfnun þar á bæ. Viðspyrnan eftir COVID yrði þeim mun öflugri sem gefið yrði betur á garðann nú. Efsti frambjóðandi Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæminu kom inn á skuldsetningu ríkissjóðs og endurgreiðslutíma í sama blaði. Frambjóðandinn segir ekki skynsamlegt í stöðunni að setja þessu tvennu skorður. Hefur ekki áhyggjur að skuldasöfnun ríkissjóðs og bætir síðan við: „ Ef unnið er of hratt á skuldastöðunni gæti slíkt bitnað á vaxtargetu hagkerfisins í mörg ár.“ Formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki orðað þetta mýkra eða meira sannfærandi.
Óöguð nýhyggja
Þessi óagaða nýhyggja – öfugsýn á Keynes – virðist vera orðin pólitísk mantra nýrrar kynslóðar stjórnmálafólks sem fussar við aðhaldi og aga. Á sama tíma eru verkefni sem áður voru í verkahring ríkisfjármála færð hljóðlega yfir til Seðlabanka. Fyrst var þessi stefna mótuð af Seðlabanka Evrópu á tímum Mario Draghis, þegar evran var að fara á hnén og fjármálaráðherrar ESB-ríkja höfðu ekki kjark til að taka til í bankakerfi hvað þá í afar skuldsettum ríkissjóðum. Gríska eyðslukreppan leiddi til líflegrar umræðu meðal Keynessinnaðra Evrópukrata, sem fóru að hugsa eðli peninga með nýjum hætti. Gert var lítið úr fullyrðingum sem sögðu að allir hlutir kostuðu eitthvað, úr því peningar væru orðnir ókeypis. Engin knýjandi þörf væri á því að setja endurgreiðslutímamörk á lán sem seðlabankar settu í umferð. Þetta voru nýmæli. Jafnhliða þessu hófst tímabil útgáfu ódýrra peninga, sem báðir stóru seðlabankarnir sitt hvoru megin atlantsála stóðu fyrir. Vextir, þetta gamla stýritæki fjármálaheimsins, voru að mestu gerðir óvirkir. Koddinn að nýju orðinn brúklegur sem geymslustaður peninga. Neikvæðir vextir voru komnir á dagskrá. Þarna opnaðist gósentíð fyrir ódýrar lántökur skuldsettra ríkissjóða í álfunni. Strandgóss glæfralegra lánastefnu einkabanka og fúl skuldabréf, gefin út af fjárvana ríkissjóðum, færðust yfir í hirslur seðlabankanna. Ekki gafst tími til að taka á strúktúrvanda fjármálakerfisins eða krónískum hallarekstri ríkissjóða. Bara falinn um stund með nýjum töfrabrögðum.
Öllu eru takmörk sett
Allt þetta er gert hér að umræðuefni því nú virðist samstaða um að við Íslendingar ætlum að feta þessa leið. Það gleymist gjarnan að þau lönd sem skulduðu minnst komust skást útúr kreppunni 2008/2010. Og fjármálaráðherra hefur margsinnis með réttu, lagt áherslu á að góð skuldastaða ríkissjóðs sé forsenda þess að hægt sé að vera örlátur á almannafé um stundarsakir. Meðan fjárhagslegt umhverfi er jákvætt hafa menn tilhneigingu til að vera örlátir á opinbera peninga en hugsa dæmið ekki til enda, því öllu eru takmörk sett. Ríkissjóður landsins hefur um nokkurt skeið jafnvel áður en COVID vandinn reið yfir, verið rekinn með miklum halla. Mörk hans hafa ekki verið tilgreind og munu örugglega ekki verða sýnileg á kosningaári. Ekki er því að neita að áhyggjuleysi ríkisstjórnarflokkanna, og reyndar ýmissa fleiri, af ríkisfjármálum hefur valdið mörgum áhyggjum. Þær eru ekki að ástæðulausu. Menn gefa sér forsendur um blómstrandi framtíð og kryddum þær með fagurgala og bjartsýni um gjöfulan hagvöxt. Það er hins vegar ýmislegt sem hafa þarf í huga áður en við gefum bjartsýni um gósentíð eftir COVID lausan tauminn. Óvissan um efnahagsþróun næsta áratugar er mikil. Fáar handfestur til staðar. Reynsla Evrópuríkja af opinberri eyðslu í kjölfar kreppunnar 2008/10 leiddi ekki til aukins hagvaxtar að neinu marki. Skuldirnar hafa bara aukist. En meðan vextirnir eru lágir veldur það ráðamönnum hvorki kvíða né sársauka.
Breytingar í aðsigi?
En einhver tíðindi virðast vera skammt undan. Vextir hafa hækkað á bandaríska fjármálamarkaðinum og þá styttist í að það berist austur um haf. Spávísir erlendir rýnendur segja að við megum búast við því að sú þróun sé ekki tímabundin. Þá gera margir ráð því að ferðahegðun eftir COVID muni lÍtið breytast. Um það efast aðrir. Það mikla áfall sem við höfum orðið fyrir í COVID-kreppunni er ekki hvað síst að kenna ofvexti í fjölmennri láglauna atvinnugrein. Til að draga úr vægi hennar þarf mun meira til en aukningu opinberra útgjalda og almennrar neyslu. Enn verður að geta þess að ef þjóðir heims ætla sér að taka alvarlega á loftslagsvánni m.a í ferðaiðnaði, þá er hætt við því að hagvexti þar verði takmörk sett. Við munum einnig þurfa að takast á við aukna mengun sjávar, hækkun hans og hlýnun. Vísindamenn spá kólnun Golfstraumsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Vonandi er að skapalón íslensks landbúnaðar verði þar ekki til fyrirmyndar þegar brugðist verður við þessum vandamálum.
Krónugildran
Stærsti áhættuþáttur áhyggjulausra framtíðardrauma er þó gjaldmiðillinn – íslenska krónan. Eins og stendur er hún varin í bak og fyrir, bæði af seðlabanka sem og fjármálaráðuneyti. Við vorum nýverið að taka 117 milljarða lán í evrum, af því að það hefði stefnt stöðugleika krónunnar í hættu hefði lánið verið tekið hér innanlands. Svo aum er staða okkar, að gjaldmiðill landsins er ónothæfur til að fjármagna útgjöld eigin ríkissjóðs! Rök krónuátrúnaðarins fyrir því að halda dauðahaldi í krónuna voru þó þau, að hún væri sniðin að þörfum íslenska hagkerfisins, þess vegna væri hún ómissandi ! Hún átti m.a. að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Hér er þó eitt mesta atvinnuleysi í álfunni ! Öllum sem vita vilja ætti að vera ljóst, að krónan mun hvorki getað siglt óstudd á frjálsum gjaldeyrismarkaði né orðið sá trausti grunnur sem nýskapandi og framsýnt atvinnulíf þarf til að geta dafnað. Ef við viljum feta braut áhyggjuleysis um lausbeislaðan ríkisrekstur, sem mér virðist vera orðin skoðun bæði á hægra sem vinstra væng, þá er hætta af gengisfalli krónunnar veruleg. Aðeins með mikilli erlendri lántöku getum við búist við tímabundnum stöðugleika. Erlendu lánin verða í þetta sinn ólíklega greidd af skilanefndum fallinna banka. Krónan gerir erlend lán að verulegum áhættuþætti. Hún er skaðræði ekki hagræði.
Fullveldi skert
Stundum er það haft á orði að fullveldi þjóða sé meiri hætta búin af ofríki þeirra sem ráða yfir auðlindum þjóðanna, hvort heldur þeir séu innlendir eða útlendir, en erlendu ríkisvaldi. Sá óhemju auður sem leigulaust stjórnkerfi fiskveiða færir útgerðarmönnum, gerir þeim kleift að hafa viðkomandi sveitarstjórnir sem og ríkisstjórn í taglinu. Þeir hagnast á veikburða gjaldmiðli. Auður þeirra og víðtækt eignarhald um allt atvinnulífið er þegar farinn að nálgast þau mörk þegar vald ríkisstjórnar takmarkast af veldi útgerðarmanna. Fullveldi almannavaldsins er skert.
Öll fyrirhyggja og skynsemi segir okkur að til að draga úr áhættu fyrrnefndrar útgjalda- og lántökustefnu sem og margþættri áhættu og skaða sem gjaldmiðill okkar veldur eða kann að valda, þurfi að hefja undirbúning að viðræðum við ESB um upptöku evru. Jafnhliða verða gömlu gildin um aðhald og fjármálaaga að verða gjaldgeng að nýju. Hættum þessum látalátum. Ef áhættan að fara yfir heiðina á skíðum er glæfraleg, verðum við að slást í för með snjóbílnum, jafnvel þótt bílstjórinn sé ekki heimamaður. Við megum ekki setja unga fólkið, sem ætlar að bjarga bæði sjálfum sér og framtíðinni, í þá stöðu að hún vakni í þriðja sinn upp við vondan draum. Þrátt fyrir marga válega fyrirboða kom kreppan 2008 okkur á óvart, af því hugmyndaheimur okkar var forritaður með röngum forsendum og léttvægum fyrirvörum. Þrátt fyrir marga válega fyrirboða kom veirukreppan kom öllum í opna skjöldu. Engin þjóð var varin fyrir henni eða sá hana fyrir. Látum ekki þriðju kreppuna taka okkur í bólinu.
Höfundur er hagfræðingur.