Á valdi almættisins
Bankahrunið haustið 2008 er einn af þeim atburðum, sem orðið hafa hér landi, sem verður minnst jafn lengi og hér býr fólk sem kennir sig til Íslendinga. Ísland var fráleitt eina ríki veraldar sem varð fyrir áfalli þessa mánuði, en áfallið hér var sennilega stærra og risti nær kviku en víðast hvar. Ástæða þess er að hér varð ekki einungis fjárhagslegt áfall. Í raun hrikti í öllum grunnstoðum samfélagsins. Hrunið var því bæði samfélagslegt og fjárhagslegt. Fyrir tíu dögum síðan sat ég í heitum pott í Grímsnesinu, þar sem ég hitti ísraelskan verkfræðing (og að því að virtist áhugamaður um íslenska bankahrunið) sem þráspurði mig hvernig það hefði getað gerst að íslensku bankarnir höfðu náð þeirri stærð sem þeir gerðu fyrir hrun. Frá haustinu 2008 hef ég verið minntur á hverjum degi á hrunið, ég hef fylgst með umræðuþáttum, heimildamyndum, lesið bækur og skýrslur, talað um það og hugsað um það. Það er vonlaust að átta sig á því hvað hrunið hefur kostað meðal Íslendinginn mikinn tíma og mikla orku. Það er líklega talið í þúsundum klukkutíma. Þrátt fyrir allt þetta átti ég engin svör handa þessum góða verkfræðingi, yppti bara vandræðalegur öxlum og reyndi að eyða þessu með einhverju glotti. Þrettán árum síðar fann ég til blygðunar við ræða bankahrunið 2008 við erlendan mann.
Í huga okkar flestra er dagurinn sem allt breyttist, 6. október 2008, þegar Geir H. Haarde gerði grein fyrir stöðu mála og endaði ræðu sína á því að hvetja fólk til að halda utan um börnin sín og klykkti svo út með því að biðja Guð að blessa Ísland.
Daginn eftir að Ísland var falið almættinu á vald hófst kafli sem hefur verið kallaður ýmsum nöfnum, svo sem; „árin eftir hrun“, „kreppan“, „uppgjörið“, svo eitthvað sé tínt til eftir minni. Á þeim tíma var nú svo sem enginn skortur á skýringum fjármálahrunsins. Vorið 2009 tók við stjórn Samfylkingar og Vinstri – Grænna sem ætlaði sér, og var ætlað, að „taka til eftir hrunið“ og leggja fram grunn að „nýju Íslandi“. Stjórnin setti sér markmið fyrir fyrstu 100 daga sína sem fólu meðal annars í sér að: „hefja lokavinnu við Icesave - samningana, ná samningum við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála, endurfjármagna bankana og semja við erlenda kröfuhafa þeirra, leggja fram frumvörp um stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör, ráða nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands, hefja mótun nýrrar atvinnustefnu og hefja endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins svo nokkur atriði séu nefnd." Samhliða þessu var tilkynnt að Ísland myndi leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu.
Þarna voru tiltekin bæði atriði sem vörðuðu allra nánustu framtíð ríkisins og atriði sem ætlað var að breyta Íslandi til framtíðar, ný stjórnskipunarlög, full aðild að ESB og endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Endurbygging í umsátri
Líklega mun dómur sögunnar fara mildari höndum um „Jóhönnustjórnina“ en margan grunar. Hennar stærstu mistök voru að vera of metnaðarfull og samtímis að ofmeta stórlega þann meðbyr og velvilja sem hún greinilega taldi sig hafa hjá almenningi. Það reyndist vera ærið verkefni að ná einhverjum stöðugleika í ríkisfjármálin og svo var IceSave þarna einhvers staðar líka.
Virk aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hagsmunir erlendra kröfuhafa í þrotabúum bankanna og Icesave deilurnar urðu björgunarbátur þeirra stjórnmálaflokka sem mest höfðu um stjórn landsins að segja á árunum fyrir hrun. Ísland áranna 2009-2013 voru meðal verstu ára sem þetta unga lýðveldi hefur séð, við urðum grimmari og orðljótari við hvort annað og ásakanir um svik og þjónkun við óræð og erlend ill öfl urðu meginstef umræðunnar. Þarna var líka komið til sögunnar nýtt samskiptatæki sem gerði okkur kleyft að höggva til hvors annars án þess að þurfa að fara úr húsi. Björgunarbátar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks reyndust svo einnig vera tundurskeyti á ríkisstjórnarflokkana
Ríkisstjórn Samfylkingar og VG, fékk í hendurnar gríðarlegt verkefni og það er auðvelt að benda á öll mistök hennar í baksýnisspeglinum. Staðreyndin er samt sú að hún skilaði af sér góðu búi að mörgu leiti. Þegar Framsóknarflokkurinn, endursmíðaður með þjóðernishyggju og stórum loforðum, og Sjálfstæðisflokkurinn tóku við völdum 2013 var fjárhagur ríkisins kominn í nokkurt jafnvægi.
Hið nýja Ísland náði samt engu flugi. Vissulega var kosið til sérstaks Stjórnlagaráðs, en Hæstiréttur ákvarðaði að framkvæmd kosninganna hefði ekki staðist lög. Í stað þess að endurtaka kosningarnar ákvað Jóhönnustjórnin að virða niðurstöðu kosninganna og mynda sérstakt stjórnlagaráð sem var falið að skrifa lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Frá og með þessari ákvörðun stjórnvalda að horfa fram hjá ákvörðun Hæstaréttar, var ára feigðar yfir öllu ferlinu um setningu nýrra stjórnskipunarlaga.
Ekki var heldur gæfulega staðið að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Frá upphafi var það ekkert leyndarmál að þingmönnum og grasrót Vinstri Grænna leið mjög illa með þessa umsókn. Þrátt fyrir að hafa greitt atkvæði með umsókninni í sölum Alþingis, var öllum ljóst að það var aldrei „raunverulegur“ þingvilji fyrir slíkri umsókn. Í stað þess að sýna stjórnmálalega forystu um þetta mál var forystufólk Samfylkingar í vörn fyrir málið, svo að segja frá fyrsta degi. Í stað þess að tala fyrir aðild að sambandinu á hugmyndafræðilegum og efnahagslegum grunni, var farið í að tala um að „það væru einvörðungu viðræður í gangi“. Fljótlega fór málið að snúast um einhvern „töfrasamning“ og jafnvel var talað um að það væri eingöngu verið að skoða valkosti. Einnig reyndist vera erfitt að sannfæra almenning um að ríkar efnahagslegar ástæður væru fyrir inngöngu. Gengishrun krónunnar í kjölfar bankahrunsins varð til þess að sprenging varð í ferðamannastraumi til landsins og útflutningsgreinar blómstruðu.
Endurskoðun Fiskveiðistjórnunarkerfisins hefur þá aldrei náð neinu flugi. Líklega vegna þess að það er í sjálfu sér ekki mjög umdeilt að kvótakerfið sem slíkt nái markmiðum sínum. Veiðar virðast vera nokkuð sjálfbærar og mjög arðsamar. Deilurnar snúast ekki um sjálft kvótakerfið slíkt lengur, heldur frekar hvernig arður þess skilar sér í sameiginlega sjóði. Helsta breytingin frá hruni er setning veiðigjalda.
26. september 2021
Hið nýja Ísland sem svo ákaft var kallað eftir veturinn 2008-2009 er ekki komið enn og lagður var grunnur að í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri Grænna það vor, er ekki hér. Við höfum sömu stjórnarskrá, erum enn utan Evrópusambandsins og fiskveiðistjórnunarkerfið er óbreytt. Þessi þrenn mál sem hér hefur verið fjallað um hafa öll verið áberandi á stefnuskrá ýmissa stjórnmálaflokka í þrennum kosningum frá árinu 2016.
Þegar fræðingar framtíðar fara að skrifa sögu hrunsins og þurfa að meta hvenær punktur var settur við uppgjör þess, er ekki ólíklegt að miðað verði við kjördag nýlokinna kosninga. Það er alltaf erfitt að túlka niðurstöður kosninga. Hér skal þó fullyrt eftirfarandi:
- Meirihluti almennings hefur ekki hug á nýrri heildstæðri stjórnarskrá, hið minnsta er það ekki atriði sem skiptir almenning meginmáli.
- Meirihluti almennings hefur ekki hug á að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði endurvakin í nánustu framtíð
- Meirihluti almennings hefur ekki hug á stórum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Að því gefnu að núverandi stjórnarflokkar nái saman um áframhaldandi samstarf, sem telja verður líklegt, er ljóst að kjósendur muni ekki fá að taka beina afstöðu til þessara mála fyrr en árinu 2025. Þá verða liðin 17 ár frá hruninu 2008. Þar sem veikleikar stjórn- og efnahagskerfis eru enn þeir sömu og 2008 er vissulega hætta á að þeir verði aftur opinberaðir og þar með endurvekja þessi þrenn mál sem hér hafa verið til umræðu, en vonandi kemur þó ekki til þess.
Það má, og verður, að ræða ástæður þess að þessar breytingar hafi ekki enn orðið hér á landi. Hinn stjórnmálalegi veruleiki er þó sá að málstaður þeirra sem tala fyrir þessum breytingum er verulega laskaður og þarfnast algerar endurskoðunar. Tilraunin um nýja stjórnarskrá mistókst, tilraunin um aðild að Evrópusambandinu mistókst og endurskoðun fiskveiðikerfisins mistókst. Örugglega sárt fyrir marga en raunveruleikinn engu að síður.
Til er hugtak (mest notað í tengslum við viðskipti og hagfræði) sem ég leyfi mér að þýða sem rökvilla sokkins kostnaðar (e. sunk cost fallacy), sem lýsir sér í því að aðili lætur fyrri fyrirhöfn hafa áhrif á ákvarðanatöku í fyrirliggjandi máli. Til dæmis þegar einstaklingur hefur fjárfest mikið í gallaðri fasteign og heldur áfram að sóa fjármagni í hana, í stað þess að hverfa frá henni og nýta fjármunina á betri hátt. Þá er upplifunin sú að verið sé að kasta verðmætum á glæ, þegar raunin er sú að fjárhagslega er betra frá að hverfa.
Það er nefnilega staðreyndin að öll þau mál sem hér hafa verið fjallað um eru enn jafn nauðsynleg og þau voru veturinn 2008-2009. Það eru veigamiklir gallar í stjórnskipunarlögum. Hlutverk forseta er óskýrt, vægi atkvæða er verulega skakkt í alþingiskosningum og fleira mætti nefna. Ísland er enn háð óstöðugum gjaldmiðli og er þiggjandi að lögum Evrópusambandsins en ekki virkur aðili við lagagerðina. Samþjöppun í sjávarútvegi er vaxandi vandamál og það er veruleg hætta á að auðræði (e. oligarchy) aukist enn frekar en nú þegar er orðið. Þessu til viðbótar eru áskoranir í loftslagsmálum orðnar verulegt áhyggjuefni. Ráðast verður að rótum kynbundins ofbeldis sem er óþolandi eitur í samfélaginu okkar.
Hvernig sem það er gert, er ekkert meira aðkallandi en að hugsa frá grunni hvernig þessum málum verði þokað áfram og að þetta verði hin stóru kosningamál í kosningunum 2025. Hverfa verður frá tillögum stjórnlagaráðs um nýja heildstæða stjórnarskrá. Umræða um aðild að Evrópusambandinu verður að vera um aðild að Evrópusambandinu en ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna eða flókna einhliða upptöku Evru sem gjaldmiðils.
Þeir flokkar sem helst hafa talað fyrir þessum málum eru nú sameinaðir í stjórnarandstöðu og hafa sérstakt tækifæri til að hefja samtal um hvernig þeim verður fyrir komið og nái athygli almennings. Slíkt samtal verður að vera á grunni framtíðar, ekki fortíðar.
Góðar stundir
Höfundur er lögfræðingur.