Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú til umræðu í fjárlaganefnd og því hefur Alþingi enn tækifæri til að bæta verstu ágallana á frumvarpinu til að verja velferðina og draga úr verðbólguþrýstingi. Kallað hefur verið eftir því að launafólk taki ábyrgð á hagstjórninni til að sporna gegn verðbólgu en BSRB hefur bent á að það sé Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar að stunda hagstjórn en að samtök launafólks beri ábyrgð á að tryggja sem best kjör og lífsgæði fólks við kjarasamningsborðið. Efnahagsumhverfið hefur svo mótandi áhrif á lífskjör launafólks og þar með kröfugerð stéttarfélaga.
Staðan sem blasir við núna er sú að mistök Seðlabankans leiddu til gríðarlegrar hækkunar fasteignaverðs, sem gerir fólk erfiðara fyrir að komast inn á húsnæðismarkaðinn, og verðbólgu sem veldur því að ráðstöfunartekjur launafólks duga skammt fyrir nauðsynjum. Vaxtahækkanir bankans til að bregðast við verðbólgu bitna síðan verst á skuldsettum heimilum. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er ekki að bregðast við þeim vanda sem blasir við launafólki. Þvert á móti boðar það niðurskurð á barnabótum, húsnæðisbótum, vaxtabótum og stofnframlögum til almennra íbúða.
BSRB hefur, ásamt ASÍ, BHM og KÍ, lagt ríka áherslu á húsnæðismál nú í aðdraganda kjarasamninga enda er viðráðanlegur húsnæðiskostnaður ein af undirstöðum lífskjara launafólks. Samtökin hafa fylgt kröfum sínum eftir gagnvart stjórnvöldum og átt samráð um aðgerðir. Hluti af þeirri samvinnu endurspeglast í tillögum húsnæðishóps stjórnvalda sem skilaði tillögum í maí síðastliðnum.
Sáttmáli um húsnæðisöryggi
Viðamesta tillaga hópsins var sú að ríki og sveitarfélög gerðu með sér húsnæðissáttmála um uppbyggingu 35.000 íbúða á næstu 10 árum. Markmiðið er að stjórnvöld taki betri stjórn á húsnæðismarkaðnum og byggi í samræmi við þörf. Vegna uppsafnaðrar þarfar og mikillar fólksfjölgunar þarf að byggja um 20.000 þessara íbúða á næstu fimm árum. Samtök launafólks fagna sérstaklega því nýmæli að leggja eigi áherslu á fjölgun íbúða með fjárstuðningi hins opinbera en um 30 prósent þeirra íbúða sem byggja á samkvæmt sáttmálanum eiga að njóta slíks stuðnings. Auk þess eiga félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga að verða sem næst 5% af öllu nýju húsnæði.
1.000 almennar íbúðir á ári
Heildarsamtök launafólks hafa lagt sérstaka áherslu á fjölgun almennra íbúða, en það eru íbúðir reistar af húsnæðissjálfseignarstofnunum með 30% stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum. Íbúðirnar eru leiguíbúðir með viðráðanlegri leigu fyrir fólk með tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum. Stofnframlög hafa verið veitt til um 3.000 íbúða um land allt frá árinu 2016. Öflugasta félagið innan almenna íbúðakerfisins er Bjarg, leigufélag í eigu ASÍ og BSRB. Nú þegar hefur félagið afhent tæplega 700 íbúðir, rúmlega 200 eru í hönnunar- eða byggingarferli og um 450 í undirbúningi. Þörfin er þó langt umfram framboð en um 3.600 manns voru á biðlista hjá Bjargi eftir húsnæði haustið 2022.
Húsnæðiskostnaður verði innan við 25% af ráðstöfunartekjum
Árið 2021 var fjórða hvert heimili á leigumarkaði með íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar. Það þýðir að yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins fór í að greiða leigu. Þessi staða leigjenda ætti ekki að koma á óvart því að almennt er fólk á leigumarkaði tekjulægra og húsnæðisstuðningur stjórnvalda hefur hækkað óverulega frá ársbyrjun 2017 á meðan leiga hefur hækkað um 35%. Á sama tímabili hækkuðu ráðstöfunartekjur aðeins um 14%. Í júní voru húsnæðisbætur til leigjenda hækkaðar um 10% prósent en það dugir þó skammt til að mæta þeirri hækkun á leiguverði sem orðið hefur á síðustu árum. Að óbreyttu munu húsnæðisbætur lækka að raunvirði á næsta ári. Hvað eigendur varðar þá voru eitt af hverjum tíu heimilum með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Sú staða hefur versnað síðan vegna vaxtahækkana. Áframhaldandi niðurskurður vaxtabótakerfisins sem birtist í fjárlagafrumvarpinu mun ekki mæta þessum heimilum og ein af kröfum BSRB er sú að dregið verði úr eignaskerðingum í vaxtabótakerfinu svo að stuðningurinn nái til miklu fleiri heimila. Meginkrafan er sú að húsnæðiskostnaður leigjenda og eigenda verði ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum heimila.
Þessar kröfur samtaka launafólks um fjölgun almennra íbúða og aukinn húsnæðisstuðning eru hófsamar og sanngjarnar. Þær stuðla að betri hagstjórn, jöfnuði og vinna gegn lífskjaraskerðingu hjá launafólki.
Höfundur er hagfræðingur BSRB.